26.10.1982
Sameinað þing: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

12. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Svo undarlega ber við að ég hef fengið heldur bágt fyrir að bera hér upp spurningu varðandi þá þáltill. sem fram er borin og einnig átölur fyrir að hafa tekið hana alvarlega. En mér þykir þetta nú ekki sanngjarnt.

Ég virði út af fyrir sig 1. flm. fyrir að lýsa því hér yfir að ekki sé hægt að svara þeirri spurningu sem ég bar fram, það sé yfir höfuð ekki hægt, en ég ráðlegg honum jafnframt að fara varlega í að gefa slíkar yfirlýsingar áður en 9. þm. Reykv. hefur tekið til máls. Hann er ekki í neinum vandræðum með að gefa svör við því sem ekki er hægt að gefa svör við. Hann gaf meira að segja tvöfaldar skýringar á þessu.

Í fyrsta lagi útskýrði hann að þau skip væru á Vestfjörðum sem ætti að senda til útlanda. Ástæðan fyrir því væri sú, að þar ynnu Ástralíubúar, Tyrkir, Júgóslavar og fólk frá mjög mörgum löndum öðrum í fiski og jafnframt væri að finna svar við spurningunni í þjóðhagsáætlun ríkisstj. Það er því orðið dálítið hæpið að rjúka hjá hér strax upp í pontuna og lýsa því yfir að það sé ekki hægt að svara spurningum.

En aftur á móti lét hv. 9. þm. Reykv. ósvarað öðru. Hann fullyrti hér áðan að íslenskir sjómenn kæmu með meira aflamagn að landi en sjómenn nokkurs annars ríkis, en færði ekki fyrir því nein hagfræðileg rök á hvaða forsendum hægt væri að fara fram á að þeir skiluðu enn þá meira aflamagni. Hann lét ógert að gefa skýringar á því í sinni ræðu. Sannleikurinn er nefnilega sá, að það erlenda verkafólk sem er í vinnu á Íslandi vinnur fullkomlega fyrir kaupinu sinu og hin gjaldeyrisskapandi svæði, þar sem þetta verkafólk vinnur, hafa yfirleitt ekki það mörg veiðiskip hvert og eitt að það sé nokkur möguleiki að gera ráð fyrir að hægt sé að taka skip þaðan og senda þau á fjarlæg mið. Þetta veit hv. 9. þm. Reykv. Hann var í framboði fyrir vestan og ferðaðist um Vestfirði og kynntist þessum málum þó nokkuð. Og hann hefði varla talað svona á fundum þar um þessi mál. — Hann bjó þar einnig. Það er hárrétt athugað.

Ég tel að það sé í sjálfu sér fullkomlega góðra gjalda vert að athuga með möguleika á veiðum í erlendum fiskveiðilandhelgum og utan þeirra. En ég held að það sé mun meira raunsæi í því sem kom fram hjá hv. 5. landsk. þm., þar sem hann ræddi möguleika á því að Íslendingar keyptu sér þá skip til slíkra veiða ef það væri hagkvæmt.

Menn hafa látið hér í það skína, að hægt væri að skrá íslenska krónu á mun hærra verði ef við færum í það að fækka skipum. Sannleikurinn er aftur á móti sá, að við erum búnir að skrá íslenska krónu að staðaldri allt of hátt. Hvernig færi fyrir íslenskum iðnaði ef við færum nú að hækka gengi krónunnar? Ætli það yrði ekki hrun, hv. þm. Halldór Blöndal?