26.10.1982
Sameinað þing: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

12. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Hér er til umr. till. um að fela ríkisstj. að kanna möguleika á kaupum veiðileyfa og öflun veiðiaðstöðu fyrir íslensk fiskiskip í fiskveiðilögsögu ríkja Norður-Ameríku og Vestur-Afríku. Þessi till. var lögð hér fram í fyrra, en ég held að hún hafi ekki verið rædd, ekki komist til umr. þá. Till. þessari lík var borin fram á hv. Alþingi fyrir um 20 árum. Þá var svipaður tónn í mönnum, að íslenski fiskveiðiflotinn væri dálítið of stór og það væru mörg veiðiskip þar óhagstæð og ekki nýtanleg við Íslandsstrendur. Það voru þá fyrst og fremst hinir svo kölluðu tappatogarar, sem höfðu verið keyptir af vinstri stjórninni, sem sat hér 1956–1958, og það var talin mikil nauðsyn að finna þessum skipum önnur mið til að fiska á en við Íslandsstrendur.

Mér finnst vera svipaður tónn í þessari till. og hinni 20 ára gömlu till., það sé verið að flýja frá þeim vandamálum sem þarf að leysa á heimavettvangi og flytja þau vandamál til annarra landa, annarra ríkja, þó að varla liggi það á bak við að aðrir en við stöndum undir rekstri þeirra skipa sem send yrðu á erlend fiskimið. Ég held að það sé nær, og vil taka undir orð hv. 5. þm. Vestf., að huga frekar að því að nýta betur afla okkar og nýta betur fiskiskipaflota okkar hér á heimaslóðum en hugsa til þess að beina honum á erlend fiskimið.

Það að senda flotann á erlend fiskimið kallar beinlínis á að uppi verði kröfur um að aðrar þjóðir fái að nýta íslensku fiskimiðin einnig. Ef við Íslendingar, sem fyrst og fremst erum fiskframleiðendur, ekki neytendur, förum að leita eftir því að nýta fiskiskipaflota okkar á erlendum miðum hlýtur það að koma fram að aðrir aðilar óska eftir að fara að komast á okkar mið. Að rökstyðja till. slíka sem þessa með því að Rússar og Japanir, Austur-Þjóðverjar og Kóreumenn fari á mið annarra þjóða til að sækja sér afla er náttúrlega alveg út í bláinn. Allir þessir aðilar eru að sækja sér afla til þess að nýta á heimaslóð. Meginhluti þess afla sem þessar þjóðir veiða er nýttur heima. Þeir hafa tryggan markað fyrir þær afurðir sem þeir afla á erlendum miðum.

Ég lít svoleiðis á, að vandamál þess flota sem við viðurkennum, þó ekki allir, að sé of stór, að sumu leyti kannske heldur stór, sé allt annað en að lagst verði með því að vísa honum á erlend mið. Þar er stóra markmiðið að nýta betur þann fisk sem við fiskum. Við þurfum jafnvel að fjölga skipum, stækka skip og endurbyggja þau til þess að sá afli, sem við komum með að landi, verði betri og að sá afli, sem við seljum á erlenda markaði, lendi ekki í svipuðu og hefur verið t.d. á s.l. ári, að ýmsir hlutar íslenskrar framleiðsluvöru hafa verið endursendir heim eða allt að því. Við erum sjálfsagt með í minnum að á s.l. vori var hver fiskfarmurinn af öðrum sendur til Portúgals og lá við að sendingarnar yrðu að koma heim aftur, en það var síðan samið um að fiskurinn yrði tekinn af kaupendum með stórum afföllum. Slíkt þurfum við að forðast og við forðumst slíkt ekki með öðru en að breyta fiskveiðistefnu okkar hér heima og haga okkur svolítið öðruvísi á fiskimiðunum hér heima en við gerum. Það gerum við ekki með minni flota. Það gerum við fyrst og fremst með betur búnum flota og jafnvel stærri flota. Við þurfum að koma fleiri mönnum um borð í skipin okkar til þess að fara betur með fiskinn og við þurfum reyndar að fá fleiri menn, jafnvel Júgóslava og Araba, til að vinna við fiskverkunina okkar í landi til þess að við höfum möguleika á því að skila betri vöru.

Ég vil svo einnig taka undir fsp. hv. 5. þm. Vestf. um það og ítreka það, að þeir sem bera fram till. sem þessa hljóti að hafa í huga ákveðinn flota sem þeir ætla sér að senda á þessi mið. Þar af leiðandi hlýtur að verða að svara, það er ekki hægt að snúa sig út úr því svari: Hvaða skip eiga að fara? Er það kannske — það er dálítið nálægt mér og hv. flm. Eiði Guðnasyni — Skarðsvíkin? Og þannig má spyrja. Við eigum ekki að vera hrædd við að loðnuskipin okkar bætist við botnfiskflotann. Við eigum að nýta þann flota á þau mið og leita til þeirra miða sem eru okkur hér nær. Ákveðnu hlutfalli af þessum flota eigum við að beina á kolmunna, sem þegar er verið að gera, og við eigum að nýta þennan stóra flota meðan við bíðum eftir loðnunni, sem við væntum að komi hér á miðin aftur áður en langt um líður. Við eigum að nota þennan flota til öflunar afla sem við komum með að landi heima.

Ég nefndi í upphafi að fyrir 20 árum hefði verið borin fram svipuð tillaga og þessi. Hún fékk ekki undirtektir hér í þingi og ég held að hún hafi hvergi fengið neinar undirtektir úti um landið. Ég geri ráð fyrir að jafnvel þó að till. þessi fái undirtektir hér á hv. Alþingi, sem hún hefur fengið nokkrar, verði undirtektir hennar úti um landið á meðal sjómanna og útvegsmanna svipaðar og þeirrar till. sem hér var til meðferðar fyrir 20 árum og það sannist að sá floti sem við gerum út núna er nýtanlegur við Íslandsstrendur og óþarfi sé að senda hann til annarra landa.