18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

1. mál, fjárlög 1983

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. upplýsti hér áðan að ég mundi ætla að flytja yfirlýsingu um vegamál. Ég hafði reyndar ekki gert ráð fyrir því sjálfur. Þetta vil ég leiðrétta. Hins vegar vil ég, að þeim orðum sögðum sem hann lét hér falla, fara örfáum orðum um undirbúning vegáætlunar.

Hv. þm. sagði að starfandi mundi vera nefnd sem fjalli um aukna skattheimtu af umferðinni. Ég hygg að hann muni eiga við nefnd sem starfaði á s.l. vetri og skilaði þá skýrslu sem, ef ég man rétt, var dreift til hv. þm. Þeirri nefnd var ekki falið að auka skattheimtu af umferðinni heldur að leita leiða til að færa tekjur, sem ríkissjóður hefur af umferðinni, yfir í Vegasjóð. Komu ýmsar athyglisverðar hugmyndir fram í því sambandi, m.a. sú að lækka þá tolla sem ríkissjóður tekur nú af bifreiðum og færa fremur samsvarandi tekjur yfir í Vegasjóð. Það kann að vera að hv. þm. vísi til þessa.

Um undirbúning að vegáætlun almennt vil ég segja það, að ég hef fyrir nokkrum vikum lagt fram í ríkisstj. drög að till. til þál. um endurskoðun á vegáætlun fyrir árin 1983–1986. Þessi drög eru til meðferðar hjá þeim aðilum sem að ríkisstj. standa. Ég byggi í þeirri vegáætlun að sjálfsögðu þeirri ályktun sem Alþingi gerði vorið 1981 og var samþykkt með öllum atkvæðum, að grundvöllur vegáætlunar skuli vera 2.2% þjóðartekna á árinu 1983. Þetta var ítrekað í þeirri langtímaáætlun sem sýnd var í lok síðasta þings og m.a. var að unnið af þm. úr öllum þingflokkum. Fram kemur í upphafi þeirrar ályktunar, í 1. málsgr., að forsendur langtímaáætlunarinnar séu 2.2% þjóðartekna til vegaframkvæmda á árinu 1983, en hækki síðan þar í 2.4%. Vitanlega legg ég þetta jafnframt til grundvallar.

Ég held að það sé fremur regla en undantekning að vegáætlun sé lögð fram eftir áramót. Ég hef athugað það lauslega og sé ekki annað en svo sé í langflestum tilfellum. Í mjög mörgum tilfellum reynist nauðsynlegt að endurskoða tekjuhlið vegamála. Mér er nær að halda að tekjur af bensíngjaldi og þungaskatti verði meiri en nú er áætlað. Ég er að láta athuga það og allt bendir til þess að svo verði. Tekjur þarf því að endurskoða frá því sem nú er í fjárlagafrv. Það er heldur ekkert launungarmál að nokkuð vantar upp á í þessum drögum til að 2.2% þjóðartekna náist til vegamála og þarf að sjálfsögðu að leita leiða til að brúa það. Það er alls ekki ætlun mín að það verði gert með aukinni tekjuheimtu af bifreiðaeigendum.

Ég geri mér sem sagt fastlega vonir um að geta lagt fram vegáætlun með endurskoðaðri tekjuöflun þegar þing kemur saman eftir jólaleyfi.

Þetta vildi ég, herra forseti, upplýsa vegna þess að vísað var til þeirra mála í framsögu 1. minni hl. fjvn.