18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

1. mál, fjárlög 1983

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til þess að mæla fyrir tveim brtt. á þskj. 214, þ.e. V. og VI. brtt. Við flytjum þessar brtt. hvora fyrir sig 10 sjálfstæðismenn.

Fyrri brtt. er varðandi sveitarafvæðingu. Hún mælir svo fyrir að í staðinn fyrir 4.5 millj. komi 22 millj. og er það aðaltillagan. Þessu fylgir varatillaga á þann veg, að í staðinn fyrir 4.5 millj. komi 11 millj.

Þessi till. er byggð á þeirri forsendu að á næsta ári verði lokið hinni eiginlegu sveitarafvæðingu eins og gert hefur verið ráð fyrir henni, þannig að allir bæir þar sem ekki er meira en 6 km meðalvegalengd á milli bæja komi inn á samveiturafmagn. Orkuráð gerði ráð fyrir að það kostaði 30 millj. að koma þessu í framkvæmd og gerði till. um þá fjáröflun. En fjárlagafrv. gerir ekki ráð fyrir 30 millj. kr. í þetta heldur 4.5 millj. kr. eins og ég sagði áðan. Aðaltillaga okkar er að mæta því sem hér vantar á. Við sjálfstæðismenn reynum að stilla þessu í hóf eins og venjulega, en teljum að við náum okkar markmiði með því að till. verði samþykkt. Það er að vísu talað hér um 22 millj. í staðinn fyrir 30 millj., sem orkuráð gerði till. um, en það er gert ráð fyrir — og við verðum að treysta því — að mismunurinn eða sem því nemur komi úr lánsfjáráætlun.

Varatillagan er miðuð við það að unnið sé á tveim árum það sem eftir er af framkvæmdum til að ljúka hinni eiginlegu sveitarafvæðingu. Auðvitað treystum við því að aðaltillagan verði samþykkt. En ef svo ólíklega vill til að slíkt gerist ekki — ég segi ólíklega vegna þess að talsmenn allra flokka hafa hvað eftir annað á undanförnum árum keppst um að lýsa þeim vilja sínum að það bæri að ljúka þessu verkefni á næsta ári — en ef svo ólíklega vill til viljum við að þessu verði lokið á tveim árum. Og við treystum því að svo verði gert vegna þess að okkur sjálfstæðismönnum hefur borist liðsauki í þessu efni. Við hljótum að gera ráð fyrir því að Framsfl. styðji þá tillögugerð að ljúka þessu á tveim árum vegna þess að fyrir þinginu liggur till. til þál. um rafvæðingu dreifbýlis frá 10 valinkunnum framsóknarmönnum. Samkvæmt till. á að ljúka þessu verkefni á tveim árum. Veit ég að þeim framsóknarmönnum er alvara, þeir meina þetta, og við göngum til móts við till. þeirra um þetta efni með því að gera okkar varatillögu.

Hin till. okkar sjálfstæðismanna á þskj. 214 varðar jöfnun hitunarkostnaðar. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að varið verði til niðurgreiðslu olíu 29.2 millj. kr. Við leggjum til að þessi upphæð verði hækkuð í 130 millj. og þá sé ekki einungis gert ráð fyrir niðurgreiðslu olíu heldur og niðurgreiðslu rafmagns til upphitunar. Þessi till. okkar er vandlega undirbúin og uppbyggð eins og okkar er vandi. Þessi tala, 130 millj., er byggð á því að staðið verði við það sem ríkisstj. lýsti yfir í þessu efni hér á Alþingi 5. maí s.l. Þá gaf ríkisstj. merkilega yfirlýsingu varðandi húshitunarmálin.

Ég skal ekki rekja hér söguna af því að þessi yfirlýsing var gefin að öðru leyti en því, að 30. des. s.l. skipaði iðnrh. nefnd til að fjalla um framtíðarfjáröflun til þess að jafna húshitunarkostnað. Í skipunarbréfi til nefndarinnar var tekið fram að við verkefni sitt væri henni ætlað að hafa hliðsjón af yfirlýsingu ríkisstj. frá 5. maí s.l. Nefndin hefur unnið að þessu verkefni en ekki lokið störfum enn.

Það liggur ljóst fyrir hvað það kostar að framkvæma yfirlýsingu ríkisstj. frá 5. maí. Nefndin hefur þegar lokið við að reikna það út og niðurstöður hennar liggja fyrir um það efni. Þær eru á þá leið að ef á að framkvæma þá yfirlýsingu sem ríkisstj. gaf 5. maí um jöfnun húshitunarkostnaðar, þá þarf að verja til þess á næsta ári ekki 29.2 millj. heldur 130 millj. Þess vegna gerum við sjálfstæðismenn það að till. okkar að varið verði í þessu skyni 130 millj.

Ég treysti því að þessi till. verði samþykkt. Ég vil ekki ætla ríkisstj. að óreyndu að hún gangi á bak orða sinna í þeim efnum. Það var mikil ánægja í Ed. Alþingis 5. maí s.l. þegar þessi yfirlýsing var gefin. Við það tækifæri töluðu tveir ráðh., hæstv. iðnrh. og hæstv. viðskrh. Mér er það minnisstætt sem hæstv. viðskrh. sagði við það tækifæri úr ræðustól í hv. Ed. Hann sagði að það væri svo mikil eining um þetta mál að ekkert bæri á milli stjórnarandstöðunnar og ríkisstj. í þessu efni og þess vegna ætti að vera tryggt að yfirlýsingin yrði framkvæmd. Í anda þeirra orða er sú till. sem ég geri hér grein fyrir borin fram.