18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

1. mál, fjárlög 1983

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 214 að flytja ásamt hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, Albert Guðmundssyni og Salome Þorkelsdóttur till. um að framlag til Framkvæmdasjóðs öryrkja verði hækkað úr 39 millj. og 960 þús. kr. í 48 millj. og 600 þús.

Um þessa till. þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð, því að þegar frv. um málefni fatlaðra var til umr. í hv. Nd. fyrir nokkru gerði ég að umtalsefni stöðu og skuldbindingar Framkvæmdasjóðs öryrkja.

Þegar sjóðurinn tók til starfa í ársbyrjun 1980 tók hann við ýmsum framkvæmdum sem hafnar voru og þar með skuldbindingum um fjármögnun, en nokkrum þessara verkefna er enn ekki lokið. Auk þess er sjóðurinn skuldbundinn af ýmsum brýnum verkefnum sem hrundið hefur verið af stað síðan sjóðurinn tók til starfa. Má þar nefna þjónustumiðstöð á Vestfjörðum, en á Vestfjörðum er nú engin þjónusta fyrir þroskahefta og brýnt að þjónustumiðstöðin geti tekið til starfa að einhverju leyti á næsta ári. Einnig má nefna sambýli fyrir þroskahefta á Vesturlandi, en þar er heldur engin þjónusta nú fyrir þroskahefta, og sama mætti segja um Norðurland vestra. Eins er sjóðurinn bundinn af verksamningum vegna framkvæmda við iðjuhúsið í Kópavogi, Kópavogshælið, sem fyrirhugað er að ljúka við á næsta ári.

Á næsta ári þarf sjóðurinn um 48 millj. til að geta staðið við framkvæmdir sem þegar eru hafnar. Er þá ekki gert ráð fyrir að hafnar verði framkvæmdir við nein ný verkefni, en fjárhagsbeiðnir sem nú liggja fyrir sjóðnum má áætla um 135 millj. á verðlagi í dag. Í þeirri áætlun sem ég hef nefnt, eða 48 millj. vegna skuldbindinga sjóðsins, er ekki, auk þess sem ekki er gert ráð fyrir að hleypa af stað nýjum verkefnum, gert ráð fyrir neinum framlögum vegna byggingarframkvæmda ýmissa öryrkjasamtaka sem sjóðurinn hefur áður veitt framlög til á móti Erfðafjársjóði, svo sem til Sjálfsbjargar á Akureyri og í Reykjavík og Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, eða nýjum verkáföngum í verndaða vinnustaði, t.d. á Akureyri, eða í vistheimili, svo sem á Austurlandi, sem þegar hafa tekið til starfa. Einnig má benda á að miðað við ráðstöfunarfé sjóðsins nú verður ekki unnt að hefja framkvæmdir við Greiningarstöð ríkisins á næsta ári, eins og fyrirhugað var hjá félmrn. Ég vil því leggja áherslu á, að þeirri brtt. sem hér er lögð til er einungis ætlað að bæta svo ráðstöfunarfé sjóðsins að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar og hægt sé að ljúka nokkrum þeirra framkvæmda sem hafnar eru á svæðum þar sem engin þjónusta er nú fyrir þroskahefta.

Ég hef einnig leyft mér ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni, Salome Þorkelsdóttur og Halldóri Blöndal að flytja brtt. um viðbótarframlag til Námsgagnastofnunar vegna öflunar sérkennslugagna. Ég ætla ekki að ræða hér almennt stöðu Námsgagnastofnunar og hina miklu erfiðleika, sem hún á nú við að etja til þess að sjá almennum skólum fyrir viðunandi námsgögnum, þó ástæða væri til. Við 2. umr. fékk Námsgagnastofnun nokkra leiðréttingu á sínu framlagi, sem að einhverju leyti mun mæta þeim mikla fjárskorti sem Námsgagnastofnun býr við, sem valdið hefur því að stofnunin hefur ekki getað séð skólum landsins fyrir brýnum námsgögnum. Sú fjárhæð, sem ætluð er nú í fjárlögum, mun þó ekki duga til að sjá skólum landsins fyrir þeim nauðsynlegu námsgögnum sem til þarf á næsta ári. Ljóst er því að veita þarf sérstakt framlag til sérkennslugagna ef hægt á að vera að bæta úr því neyðarástandi sem ríkir vegna mikils skorts á ýmsum sérkennslugögnum bæði til stuðningskennslu í almennum skólum eða í sérskólum, svo sem Öskjuhlíðarskóla, og í þjálfunarskólum.

Ég sagði að neyðarástand ríkti og tel ég það ekki ofsagt. Ár eftir ár hafa félag sérkennara og sérkennslustofnanir reynt allar leiðir til að fá úr því bætt, en án árangurs. Sérkennarar hafa því þurft að grípa til neyðarráðstafana með því að reyna sjálfir að útbúa einfalt efni til að bjarga því að hægt væri að halda uppi einhverri sérkennslu. Auk þess hefur verið gripið til þess ráðs að fá sérkennsluefni erlendis frá og þýða erlent efni, en til að standa straum af þeim kostnaði hefur stundum þurft að grípa til gjafafjár sem borist hefur sérkennslustofnunum. Staðreyndin er því sú, að ýmis samtíningur, sem sérkennarar hafa útbúið sjálfir eða reynt að afla sér erlendis frá, er þau sérkennslugögn sem stuðst er við í sérkennslunni og við stöndum einfaldlega frammi fyrir því að engin samræmd sérkennslugögn eru til í landinu.

Það sem sérstaklega vantar af sérkennslugögnum er námsefni í samfélagsfræði. Allt nauðsynlegt myndefni vantar. Námsefni vantar að verulegu leyti vegna talkennslu. Sérstaklega vantar alveg myndefni vegna málörvunar. Einfalt efni vegna stærðfræði vantar mjög tilfinnanlega og létt lestrarefni, og þannig mætti áfram telja.

Ég tel mig ekki þurfa að rökstyðja frekar brýna nauðsyn þess að verulegt átak verði gert til að bæta úr þeim mikla skorti sem er á sérkennslugögnum. Hér er um stóran hóp nemenda að ræða, ekki bara þroskahefta einstaklinga, sem eru í þjálfunarskólum eða öðrum sérkennslustofnunum, heldur þarf einnig stór hópur nemenda í almennum grunnskólum á hjálpar- og stuðningskennslu að halda sem nota þarf til ýmis sérkennslugögn.

Áætlun Námsgagnastofnunar til að ýta þessu vel af stað á næsta ári er um 3.8 millj. kr. Sú till., sem ég mæli hér fyrir, er 1 millj. kr., sem telja verður það lágmark sem til þarf til þess að ýta þessu máli af stað á næsta ári þannig að hægt sé að hefja útgáfu sérkennslugagna til notkunar á landinu öllu.

Till. fjvn. nú við 3. umr., sem formaður fjvn. lýsti hér áðan, um 500 000 kr. framlag er vissulega viðleitni og viðurkenning á því hve brýnt er að hrinda þessu verkefni af stað, en ég tel að það hrökkvi skammt með tilliti til þess að þessu verkefni hefur aldrei verið sinnt og ekkert er til af sérkennslugögnum, þannig að byrja þarf alveg frá grunni. Vænti ég þess, að hv. þm. sjái hvað hér er brýnt mál á ferðinni, sem algerlega hefur verið hornreka í skólakerfinu. 1 millj. getur varla talist nein ofrausn í því sambandi.