26.10.1982
Sameinað þing: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

12. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Út af orðum hv. síðasta ræðumanns vil ég geta þess, sem ég veit að hæstv. sjútvrh. getur staðfest, að á fundi sem hann efndi til um framtíðarstefnu í sjávarútvegsmálum fyrir um það bil hálfum mánuði til þremur vikum gáfu fiskifræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar þær upplýsingar að kolmunnastofninn væri þegar kominn á undanhald. M.ö.o. var það þeirra umsögn að ekki væri þess að vænta, því miður, að hægt væri t.d. að senda loðnuveiðiflotann til kolmunnaveiða, eins og menn hafa verið að vonast til, vegna þess að rannsóknir bentu til að sá stofn sé nú þegar kominn á undanhald, m.a. vegna þeirra miklu veiða sem stundaðar hafa verið af Rússum og öðrum austantjaldsríkjum. Þetta veit ég að hæstv. sjútvrh. er sjálfsagt reiðubúinn til að staðfesta. Ég held að menn verði að afla sér upplýsinga um hvernig ástandið er í þessum efnum áður en menn koma hér upp, eins og hv. þm. gerði áðan, og benda á svona atriði sem lausn í málinu.

Í öðru lagi kom það líka fram á þessum fundi með hæstv. sjútvrh., sem hann er sjálfsagt reiðubúinn til að staðfesta einnig og ég held að hann hafi upplýst hér á Alþingi fyrir-skömmu, að það hefur orðið á síðasta 11/2 ári mjög alvarleg öfugþróun í sambandi við afköst fiskveiðiflota okkar. Frá árinu 1974 til ársins 1980 hefur afli á úthaldsdag stöðugt verið að aukast eða úr 7.4 tonnum hjá hinum minni skuttogurum á úthaldsdag árið 1974 í 11.9 tonn á úthaldsdag 1980–1981. Ég held að ég muni þessar tölur alveg rétt. Það sem síðar hefur gerst er að afköst þessa flota fara nú hraðminnkandi þannig að afli á úthaldsdag þessa flota er ekki lengur 11.9 tonn, heldur 10.7 tonn. Þetta er meginskýringin á slæmri afkomu þessa hluta veiðiflotans.

Hver er ástæðan fyrir þessu? Ástæðan fyrir þessu er m.a. sú, að þessum fiskiskipum hefur fjölgað svo mjög á umliðnum árum að afli á úthaldsdag vegna fjölgunar skipanna er nú minnkandi. M.ö.o. fer að kosta meira og meira í útgjöldum að ná sama afla og áður. Þetta skapar ekki aðeins vandamál fyrir þennan hluta fiskiskipaflotans, heldur fyrir þjóðfélagið í heild, og er ein af mörgum ástæðum þess að hæstv. ríkisstj. telur nú bráðnauðsynlegt að grípa til enn einna kjaraskerðingaraðgerðanna.

Hæstv. sjútvrh. hefur sjálfur sagt það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, og ætti samþm. hans á Vestfjörðum að vera farinn að þekkja þær upplýsingar, þ.e. ef hv. 5. þm. Vestf. telur sig ekki vera of mikinn mann til að hlusta á sinn eigin flokksformann, að erfiðleikarnir í afkomu þorskveiðiflotans stöfuðu m.a. sérstaklega af því að fyrirvaralítið hafi loðnuveiðiflotinn misst sín hefðbundnu viðfangsefni og hafi orðið að beina honum til þorskveiða til viðbótar við þann þorskveiðiflota sem fyrir er. Þm. Vestf. hafa þurft að horfa upp á það, m.a. vegna þessara ástæðna sem hæstv. sjútvrh. hefur lýst og ég var að endurtaka áðan að hlutdeild Vestfjarðatogara í þorskveiðum fer stöðugt minnkandi ár frá ári vegna þess að Vestfirðingum er bannað að sækja á þorskveiðimið fyrir Vestfjörðum vegna ástandsins sem m.a. hefur skapast af því að þorskveiðiflotinn er nú orðinn of stór. Ég kalla það algert ábyrgðarleysi af slíkum þm. að hafa á móti því að reynt sé að leita einhverra leiða til að létta þrýstingnum af þorskveiðunum, ef slíkt væri hægt, m.a. leiða til þess að finna viðfangsefni fyrir einhvern hluta flotans á miðum utan Íslandsmiða.

Hér er ekki verið að ræða um að skipa einhverjum útgerðarmönnum eða sjómönnum, sem ekki hefðu áhuga á eða vildu ekki fara, til veiða utan Íslandsmiða. Hér er ekki verið að ræða um tillögu um að skipa þeim að gera svo. Hér er aðeins verið að ræða um till. um að fela ríkisstj. að kanna hvort völ sé á því að finna einhver viðfangsefni fyrir einhvern hluta af flota landsmanna á öðrum miðum en þeim íslensku.

Ég vil einnig taka það fram í þessu sambandi, að ég hef rætt þessi mál við fiskiskipstjóra íslenska, sem hafa verið að veiðum á fjarlægum miðum, bæði á vegum fjölþjóðastofnana, svo sem eins og stofnana Sameinuðu þjóðanna og einnig á vegum erlendra útgerðarfyrirtækja. Ég ræddi síðast við einn slíkan skipstjóra fyrir um það bil hálfum mánuði vestur á Ísafirði. Hann sagði mér að hann undraðist að Íslendingar virtust vera eina meiri háttar fiskveiðiþjóðin sem reyndi ekki að bera sig eftir þeim möguleikum sem þar blöstu við. Hann tók fram, að mjög víða langt frá okkar hefðbundnu miðum væri að finna ekki bara fiskiskip frá stórþjóðum í Evrópu, austantjalds og vestan, heldur einnig fiskiskip frá frændum okkar Færeyingum. Þau væru mjög víða utan hefðbundinna veiðisvæða sinna, en hins vegar væri það algjör undantekning og nánast ekki til hin síðari ár að Íslendingar leituðu eftir því.

Hann benti í öðru lagi á að með þessu væru menn að vinna sér hefðbundinn veiðirétt á tilteknum miðum í nánd við okkar íslensku fiskimið. Þarna væri um að ræða veiðileyfi sem seld væru m.a. vegna þess að enn um sinn væru til fiskimið sem ekki væru fullnýtt. Þar væri hægt að afla möguleika á veiðileyfakaupum, þ.e. ekki gagnkvæms samkomulags um að hleypa veiðiskipum annarra þjóða í íslenska fiskveiðilögsögu, heldur möguleika á að fá veiðileyfi keypt. Hann sagði að þessar stórþjóðir, sem mjög mikla áherslu leggja nú á fiskveiðar, væru m.a. að vinna sér hefðbundinn veiðirétt á þessari veiðislóð með því að festa þar kaup nú á veiðileyfum, sem mundu gefa þeim tiltekinn hefðarrétt til þess að stunda veiðar á þessum slóðum eftir 5 eða 10 ár, þegar að því kæmi að einnig þessar veiðislóðir væru fullnýttar.

Í fjórða lagi vil ég taka það fram, að ég hef einnig rætt þetta mál við fiskiskipstjóra af Vestfjörðum og það gæti ég upplýst hv. 5. þm. Vestf. um, ef hann væri hér í salnum, að þeir skipstjórar sem ég hef rætt þetta við — gerði það síðast á fundi á Ísafirði fyrir hálfri viku — taka mjög undir það meginefni till. að reynt sé að athuga hvaða möguleikar séu fyrir íslenskan fiskiskipaflota á öðrum miðum en þeim hefðbundnu. Þeim er það auðvitað ljóst, skipstjórum á Vestfjörðum, sem búa í næsta nágrenni við auðugustu þorskveiðimið landsins, að það er beint hagsmunamál fyrir íbúa þessa svæðis að fá að nýta þorskveiðimiðin undan ströndum Vestfjarða, að fá að nýta Vestfjarðamið betur en þeir gera, betur en þeir hafa fengið að gera á undanförnum árum, þegar hlutdeild Vestfirðinga í þorskveiðum hefur stöðugt farið minnkandi vegna lokunar Vestfjarðamiða fyrir Vestfirðingum sjálfum stóran hluta ársins. Þeir gera sér það alveg fyllilega ljóst, þessir menn, að ef hægt væri að létta þrýstingnum af þorskveiðunum, með hvaða hætti svo sem það væri hægt, þannig að þeir sem búa í næsta nágrenni við þessi auðugu mið gætu fengið að nýta þau betur en þeir fá, væri það beinn ávinningur fyrir viðkomandi aðila og byggðarlög.

Herra forseti. Þetta vildi ég aðeins taka fram til upplýsingar og jafnframt leggja áherslu á að till. þessi gerir ekki ráð fyrir að skipa útvegsmanni eða sjómanni eitt eða neitt sem hann ekki vill sjálfur. Till. gerir aðeins ráð fyrir að hæstv. ríkisstj. hafi frumkvæði að því að kanna þá möguleika sem íslenski fiskveiðiflotinn kynni að geta haft til veiða á fjarlægari miðum.

Ég vil svo aðeins í tilefni af þeim umr. sem hér hafa fram farið og þætti hv. 5. þm. Vestf. í þeim vekja athygli á því, að hér fyrr á fundinum var afgreitt hvernig ræða skyldi till. um endurreisn Reykholtsstaðar. Ég held að það sé bráðnauðsynlegt að ræða þá till. sem allra fyrst.