18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

1. mál, fjárlög 1983

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Vegna þeirrar sérkennilegu umr. sem fór hér fram áðan um hið svonefnda gullskip vil ég koma á framfæri aths. vegna orða hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Þingflokki Alþfl. var ekki kunnugt um þetta mál fyrr en í gær. Í öðru lagi var um málið fjallað á fundum flokksins í gær, en það var enginn af þm. flokksins tilbúinn að skrifa upp á þessa till. eins og hún lá hér fyrir þinginu í dag. Ég vil að þetta komi skýrt fram. Ennfremur vil ég segja það, og það er frá mér persónulega, að ég hef fylgst með þessum gullgreftri á Skeiðarársandi með mikilli athygli og ég ber virðingu fyrir þeim mönnum sem þarna eru að spreyta sig á miklu verkefni, og ég sé í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að Alþingi Íslendinga komi til liðs við þá á einhvern hátt. En fyrirvaralaust, við þær aðstæður sem nú ríkja, gengur það dæmi ekki upp. Og ég verð að segja eins og er að ég er hissa á þeim mönnum sem láta sér detta í hug við lokaafgreiðslu fjárlaga að henda inn till. þar sem beðið er um 50 millj. kr. ábyrgð, þegar við erum að draga til baka till. m.a. um það að veittar verði 50 þús. kr. til þess að hefja rannsóknir á eldi sjávarfiska, sem er 0.1% af þeirri upphæð sem hér um ræðir. Í því svartamyrkri efnahagsmála leyfa menn sér að henda inn till. við lokaafgreiðslu fjárlaga og biðja um 50 millj. kr. í mál af þessu tagi. Mér finnst að þeir menn sem hér hafa hneykslast á smátillögum stjórnarandstöðunnar um breytingar á fjárlögum ættu ekki að segja eitt einasta orð. Þetta mál í heild sinni er auðvitað hneyksli eins og að því hefur verið staðið.

Herra forseti. Ég er meðflm. að brtt., sem verður borin upp hér á eftir, um að hækkað verði framlag til Námsgagnastofnunar, svo að unnt verði að hefja framleiðslu og útgáfu á bókum fyrir börn með sérþarfir, verkefni sem hefur verið vanrækt um áratuga skeið hér á landi. Ég segi fyrir mig, að meðan þeir menn sem skrifa upp á 50 millj. kr. till. eru tilbúnir að fella till. af því tagi sem ég hef hér talað um, þá er þetta þing hneyksli. Og ef hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og hv. þm. og forseti Jón Helgason treystast ekki til að mæla með hækkun í þessu skyni upp á 1 millj., en treysta sér til þess að skrifa upp á till. sem biður þingið um 50 millj. kr., þá er ég agndofa.