18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

1. mál, fjárlög 1983

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég held að við hv. þm. Matthías Á. Mathiesen ættum ekki að lengja þennan fund með frekari orðræðum um hvernig túlka eigi lögin sem lúta að innlendum og erlendum lántökum og heimildum til þeirra. Það eru augljóslega mismunandi lagatúlkanir uppi um þetta atriði. Ég vil aðeins segja það, að samkvæmt þeim lögfræðilegu ráðleggingum sem ég hef fengið í fjmrn. hafa menn talið að fjárlög væru fullgild heimild í þessu sambandi. Það er ekki heldur deilt um það okkar í milli að fjárlög eru fullgild heimild þegar um innlend lán er að ræða. Ég held að hv. þm. Matthías Á. Mathiesen dragi ekki í efa að það er ekkert því til fyrirstöðu að Alþingi samþykki þessa heimild og að heimild af þessu tagi sé tekin inn í fjárlög. Hann heldur því hins vegar fram að það þurfi sérstök lög til að koma til þess að taka megi erlend lán samkvæmt þessari heimild.

Ég vil aðeins segja það að lokum, að að sjálfsögðu verður þetta mál betur skoðað og ef það verður niðurstaða manna að frekari heimildir þurfi til verður að sjálfsögðu ekki um erlenda lántöku að ræða nema sérstök heimild liggi fyrir. En eins og ég hef þegar sagt hafa menn verið á annarri skoðun. Það er sjálfsagt óhjákvæmilegt, miðað við þær umr. sem hér hafa farið fram, að láta gera nánari athugun á málinu.