18.12.1982
Sameinað þing: 35. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

157. mál, frestun á fundum Alþingis

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Till. sem hér liggur fyrir á þskj. 232 hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að veita samþykki til þess, að fundum þingsins verði frestað frá 18. desember 1982 eða síðar, ef henta þykir, enda verði það kvatt saman á ný eigi síðar en 17. janúar 1983.“

Þegar ríkisstj. leggur fram till. til þál. um frestun á fundum Alþingis frá því skömmu fyrir jól og fram í janúar, en það er nú orðinn nær árlegur viðburður síðustu áratugi, þá er jafnan spurt um það, hvort ríkisstj. hafi í hyggju að gefa út brbl. meðan á þingfrestun stendur. Mér þykir rétt að gera hér grein fyrir því máli.

Eins og nú háttar er ekki gert ráð fyrir sérstökum alvarlegum vandamálum, sem kalla á útgáfu brbl. í þinghléi, nema ef vera kynni í sambandi við ákvörðun fiskverðs um áramót. Ekki er víst að þess gerist þörf og verður ekki gert nema ýtrustu nauðsyn beri til. Verður þá haft samráð við stjórnarandstöðuna, enda hefur sjútvrh. þegar ákveðið að kveðja fulltrúa allra flokka til samráðs um fiskverðsákvörðun. Fari svo að setja verði brbl., sem tengjast þá beint ákvörðun fiskverðs, koma þau til kasta þingsins strax að loknu jólahléi, en gert er ráð fyrir að þing komi saman eigi síðar en 17. jan. Þar sem hér er um að ræða fiskverðsákvörðun ákveður sjútvrh. meðferð mála og hann mundi leggja frv. til staðfestingar á hugsanlegum brbl. fyrir þing er það kemur saman.