26.10.1982
Sameinað þing: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

12. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það var ánægjulegt að heyra það, að ráðh. tók undir þessa till. og var reiðubúinn að styðja hana. Það var líka ánægjulegt að heyra, að hann hefði komist til þess að skoða það starf sem unnið var meðan ég var sjútvrh. varðandi breytingar á fyrirkomulagi framleiðslueftirlits. Það var þeim mun ánægjulegra sem margt af þeim verkum sem hann hefur staðið í hefur vakið mikil vonbrigði, ekki bara hjá mér heldur hjá þjóðinni, og orðið okkur til mikils skaða, eins og kunnugt er.

Ég held að það fari ekkert milli mála og öllum sé orðið það ljóst, að sú aðferð sem notuð hefur verið að undanförnu við að stórauka fiskiskipastólinn skaði bæði sjómenn, útgerð og landsmenn í heild. Menn hafa í rauninni verið að éta yfir sig varðandi þetta efni, farið út á þá braut að fjárfesta of mikið á sama hátt og menn hafa lent í miklum vanda í landbúnaðinum vegna offramleiðslugetu. Þegar þannig fer í sjávarútvegi, þá er ráðist að sjálfum undirstöðum íslensks efnahagslífs.

Það skemmdarverk, sem hefur verið unnið á afkomu sjávarútvegsins í tíð núv. ríkisstj., mun taka langan tíma að bæta, en sú till. sem hér er flutt er tilraun til þess að leita leiða út úr þeim vanda sem ríkisstj. hefur skapað. Þess vegna var það auðvitað ánægjulegt, að hæstv. sjútvrh. skyldi mæla með því að þessi till. yrði samþykkt. En það vakti sérstök vonbrigði að ýmsir þm. hjakka enn í sama farinu. Ég get þar nefnt annars vegar sérstaklega þm. Ólaf Þórðarson og hins vegar hv. þm. Skúla Alexandersson. Það var góð og gild stefna á sínum tíma að stækka fiskiskipastólinn, alveg hreint á sama hátt og það var góð og gild stefna á sínum tíma að auka framleiðslugetu landbúnaðarins, en það er stórhættulegt ef menn eru ekki reiðubúnir að taka mið af aðstæðum á hverjum tíma og hjakka áfram í sama farinu aftur og aftur. Núna er sú stefna sem fylgt hefur verið í landbúnaðarmálum stefna sem þýðir versnandi lífskjör. Sú stefna, sem ríkisstj. hefur fylgt og þessir hv. þm. töluðu fyrir, þýðir líka versnandi lífskjör í þessu landi við núverandi aðstæður. Það er verið að tala hér fyrir úreltum sjónarmiðum. Það er eins og menn séu steinrunnir. Það er þetta sem hefur verið mikill ágalli á íslensku stjórnkerfi á undanförnum árum. Menn hafa ekki verið reiðubúnir að breyta um stefnu þegar tímar hafa hreyst. Þegar maður horfir upp á þá reynslu, sem við höfum orðið fyrir í landbúnaðarmálunum allan s.l. áratug og í sjávarútvegsmálunum í tíð núv. ríkisstj., horfir maður með ugg til framtíðarinnar, þegar við stöndum á þröskuldi tölvualdar þar sem sjálfvirkni mun aukast og þar sem menn þurfa skjót og skynsamleg viðbrögð við að aðlagast nýjum aðstæðum, þannig að tæknin geti nýst okkur til þess að bæta lífskjörin, en verði ekki til þess að skapa hér atvinnuleysi.

Íslenskir stjórnmálamenn standa í því öllum stundum að sjá til þess, bæði „prívat“ og með tillöguflutningi, að framfylgja úreltri stefnu í atvinnumálum, sem rýrir lífskjör þjóðarinnar. Þeir komast ekki til þess að hugsa einu sinni um þessi mál — reyndar kannske vegna þess að þeir eru svo uppteknir í bráðabirgðahjakki frá mánuði til mánaðar að þeir gefa sér aldrei tóm til þess að líta til framtíðarinnar og hafa svolitla framtíðarsýn.

Ég ætlaði mér ekki, herra forseti, að fjalla sérstaklega um þetta mál á þessum vettvangi núna, en þær ræður sem hér voru haldnar gerðu það að verkum að ég gat ekki stillt mig um að benda á hvert grundvallaratriði það er að menn taki upp gerbreytta stefnu í þessum málum. fyrir því höfum við Alþfl.-menn talað á undanförnum árum. Auðvitað er það rétt, að það á að gera allt sem unnt er til að nýta betur þann fisk sem kemur úr sjónum og við eigum að gera hvað við getum til þess að gæði útflutningsins séu sem mest. En það firrir okkur ekki því, að við verðum að taka skynsamlegar ákvarðanir um nýtingu fiskistofnanna og um stærð fiskiskipastólsins. Stærð fiskiskipastólsins ræður langmestu um hver tilkostnaðurinn er við veiðarnar og þar með um afkomu útgerðar og um afkomu þjóðarbúsins. Þetta er langmikilvægasta stærðin. Jafnframt verða menn að hafa það í huga, að ef við ætlum að stunda hér lífvænlegan sjávarútveg er meginatriði að við stöndum vörð um fiskistofnana og höfum sterka fiskistofna, þannig að menn þurfi ekki að eltast um allan sjó til þess að fá nokkrar bröndur. Þá vex líka tilkostnaðurinn. Með því að hafa sterka fiskistofna og stóra fiskistofna getum við líka minnkað tilkostnaðinn af útgerðinni.

Menn tala um að það sé hætta á vaxandi samkeppni af hálfu t.d. Kanadamanna, og það er rétt. Það er einungis tvennt sem við getum notað til þess að mæta þeirri samkeppni. Í fyrsta lagi getum við tileinkað okkur tækni í fiskiðnaðinum, þannig að við séum þeim fremri á hverjum tíma í fiskiðnaðinum. Það kostar gífurlega fjármuni. Þangað eigum við að beina þeim. Hitt er að hafa skynsamlega stjórn á fiskveiðunum með því að takmarka stærð fiskiskipastólsins og hafa sterka fiskistofna. Kanadamenn hafa ákveðið að byggja upp við austurströnd sína hrygningarstofn, sem er milljón tonn í þorski, til þess að taka úr honum á hverju ári 200–300 þús. tonn af þorski. Þeir leggja svo ríka áherslu á að jafnvel þótt hrygning mistakist geti þeir haldið áfram að veiða sama magn eftir sem áður og án þess að auka tilkostnaðinn. Þetta skiptir líka meginmáli varðandi afkomu okkar.

Herra forseti. Sú till., sem hér er flutt, er tilraun til þess að feta sig út úr þeim vandræðum sem núv. ríkisstj. hefur komið þessum málum í. Ég held að hún sé sjálfsögð. Þetta er tilraun sem ber að gera. Málið er það alvarlegt að það verður að leita allra ráða. Ég vænti þess, að hún fái víðtækan stuðning og mér þykir vænt um að hæstv. sjútvrh. skuli hafa lýst yfir stuðningi.