18.12.1982
Sameinað þing: 35. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

157. mál, frestun á fundum Alþingis

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. úr því sem komið er. En hvað táknar þessi hyldjúpa þögn sem hæstv. ráðherrar eru haldnir nú við þessa umr.? Hæstv. forsrh. fer fram á að hið háa Alþingi verði sent í leyfi í einn mánuð, þegar ástæður eru þannig í þjóðfélaginu að þær hafa aldrei verið hrikalegri hvað snertir undirstöðuatvinnuveg okkar, fiskiðnað og sjávarútveg. Vakin er athygli á þessu og það er spurt, hver eru áformin næstu daga og vikur? Þessi þögn verður ekki túlkuð á annan veg en þann, að alls engin áform eru uppi, engin bjargráð eru fyrirhuguð. Þeir sem ættu að hafa forustuna í þessum málum vita ekki sitt rjúkandi ráð. Engan veginn öðruvísi verður skýrð þessi hyldjúpa þögn, sem hér ríkir af hálfu þeirra sem Þó ber skylda til og vilja halda áfram að hafa með höndum forustu í þessum málum.

Ég þarf engu við þetta að bæta. Þessi þögn þessarar stjórnar skýrir sig best sjálf, þessi raunar glymjandi þögn.