26.10.1982
Sameinað þing: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

12. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umræður. Hv. 5. þm. Vesturl. talaði um að ég hefði sagt að æskilegt væri að nota — ja, ég nafngreindi víst bæði Júgóslava og Araba, við fiskvinnslu á Íslandi. Ég skal endurtaka þetta hér og undirstrika að ég tel að við þær aðstæður þegar við færum að landi mikinn afla, sem íslenskar hendur geta ekki sinnt, eins og hefur verið meira og minna vítt og breitt um landið, þá er það betri lausn að flytja inn í landið verkafólk frá öðrum þjóðum en að flytja íslenska fiskiflotann til annarra þjóða og á önnur fiskimið.

Ég tek undir það að það er nauðsynlegt að gera íslensku fiskvinnsluna það aðlaðandi að fleiri Íslendingar vilji vinna þar, og að því er stefnt vítt og breitt um landið. Á síðustu árum hafa átt sér stað mikil umskipti hvað því viðvíkur. En hitt tel ég ólíkt betri kost, að flytja hingað útlendinga, Ástrala sem hafa verið flestir hér og nú upp á síðkastið Dani, til þess að vinna við íslenska fiskinn en að senda fiskiskipin á erlend mið.

Hv. þm. taldi það hálfgerða ósvinnu af mér og 5. þm. Vestf. að óska eftir nafngreiningu á skipum eða jafnvel mönnum þeim er skyldu sigla á erlend fiskimið. Ég held að þegar menn koma með till. sem þessa hljóti þeir að vera með ákveðin skip í huga, eða a.m.k. ákveðinn hluta veiðiflotans. Ég geri ráð fyrir því að einmitt með tilliti til þessarar till. sé það fyrst og fremst loðnuflotinn sem um sé hugsað. Í þeim flota var einmitt það skip sem ég nafngreindi áðan og þar af leiðandi ekki ótrúlegt að það sé eitt af þeim skipum sem ættu að fara á hin erlendu fiskimið.

Sú fullyrðing að í þessari till. felist ekki það að verið sé að skapa möguleika fyrir atvinnuleysi í sjávarþorpum á Íslandi er algerlega röng. Um leið og íslensku fiskiskipin eru send á önnur fiskimið en þau íslensku og þau flytja ekki afl, til fiskvinnslustöðvanna í sjávarútvegsbæjunum þá skapast þar atvinnuleysi. Framkvæmd slíkrar till., að ákveðinn hluti íslenska fiskveiðiflotans færi á erlend fiskimið, gerir nákvæmlega það sama að verkum og þegar íslensku fiskiskipin eru að sigla með afla á erlendan markað. Það gerir það að verkum að það skapast atvinnuleysi og minnkandi atvinna í íslenskum fiskibæjum.