18.01.1983
Efri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Forseti (Helgi Seljan):

Út af þeim umr. sem hér hafa farið fram, þá vildi ég óska þess að menn takmörkuðu mjög mál sitt núna. Ég mun gefa að sjálfsögðu hv. 5. landsk. þm. orðið, en ég vil aðeins taka það fram út af orðum hv. 4. þm. Vestf. að ég taldi þarna ekki um ósamrýmanlega hluti að ræða, því að ég sagðist óska eftir því að í kaffihléi, sem nú yrði gefið, yrði kannað vandlega hvernig unnt yrði að standa að fullu við samkomulagið frá í gær og jafnframt því að koma til móts við þær óskir sem fram hefðu komið um nefndarfundi. Ég tók það mjög skýrt fram. Ég óska þess vegna eftir því að við tefjum okkur ekki mikið á umr. um þetta nú, heldur nýtum tímann þeim mun betur í kaffihléinu til þess að komast þar að niðurstöðu um framhald málsins. En ég óska mjög eindregið eftir því vitanlega, að við höldum hér fram 2. umr. málsins og tökum síðan afstöðu varðandi það þar. Það teldi ég miklu eðlilegra.