18.01.1983
Efri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka fram í tilefni af því sem hæstv. forseti sagði viðvíkjandi því sem ég hef áður sagt, að ég stóð hér ekki upp áðan vegna þess að ég óttaðist það á einn eða annan hátt að hæstv. forseti mundi ekki gera það sem í hans valdi stæði til að afgreiðsla þessa máls gæti farið fram með sem eðlilegustum hætti. Ég stóð aðeins upp til þess að gefa þær upplýsingar að einn þeirra manna sem gerðu samkomulag í gær vegna þessa máls liti svo á, að það samkomulag væri á þann veg að það útilokaði ekki að málinu yrði nú vísað til nefndar. Þetta er álit formanns þingflokks Sjálfstfl.

Í tilefni af því sem hæstv. viðskrh. sagði, að hæstv. forseti hefði gert ráð fyrir að það væri fundur nefndarinnar nú í kaffihléi, vil ég segja að ég skildi ekki hæstv. forseta á þann veg. Ég skildi hæstv. forseta á þann veg að kaffihléið væri notað til þess að menn gætu borið saman ráð sín um það m.a. hvenær yrði fundur í fjh.og viðskn.