18.01.1983
Efri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég hefði að vísu getað greint frá því sem ég mun greina hér frá undir umr. um dagskrárefnið, en það er líka í lagi að gera það með þeim hætti sem forseti hefur hér tilkynnt. Við komum saman í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar. Þar greindi ég frá því, sem ég vil hér einnig skýra hv. deild frá, að ég átti fund með hæstv. sjútvrh. og á þeim fundi kom fram að hann mun ekki flytja brtt. hér við þetta frv. Það tjáði ég hv. nefnd og tjái nú hér hv. deild.

Það er hins vegar ljóst að samkv. þingsköpum geta menn flutt brtt. við þetta mál síðar í Nd. þó að ég sé ekki að gera því skóna hér að svo verði gert. En ég minni hins vegar á að verði það gert, og verði brtt. samþykkt og verði frv. samþykkt, kemur það hingað aftur. Það er því alveg ljóst að hvernig svo sem þau mál æxlast, eftir að málið er héðan farið, þá mun brtt., komi hún fram og verði hún samþykkt, koma hingað aftur. Þetta tel ég að liggi þess vegna ljóst fyrir. Ég hef komið þessu hér á framfæri í framhaldi af fundi n. og fundi sem ég átti með hæstv. sjútvrh.

Ég vil einnig skýra hv. deild frá því að það hefur orðið að samkomulagi í hv. fjh.- og viðskn. að við munum óska eftir því, og ég mun tryggja að við þeirri ósk verði orðið, að fá að fylgjast með störfum hv. fjh.og viðskn. Nd., þegar hún tekur málið til meðferðar, ef þar koma fram nýir efnisþættir. Sú ósk kom fram í n. og hún var samþykkt af nm. öllum. Við munum þar viðhafa þau vinnubrögð og teljum að þar með höfum við tækifæri til þess að skoða nánar þau mál sem menn vilja athuga hér á síðari stigum. Ég fagna því að þetta hefur orðið niðurstaða málsins, tel að það hafi skýrt mjög vinnubrögð okkar við málið hér og einnig á næstunni. Ég get vel skilið þá ósk sem kom hér fram fyrr í dag. Það var að mörgu leyti eðlilegt að sú ósk og fsp. kæmi fram. Við höfum gefið okkur tíma hér í fundarhléi til þess að fjalla um það og ég tel að málið liggi nú ljóst fyrir.