18.01.1983
Neðri deild: 25. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það vandamál sem við erum að glíma við í dag í sjávarútveginum má að verulegu leyti rekja til rangrar stefnu núv. ríkisstj. og fyrrv. ríkisstj. frá 1978–1979 í efnahags- og atvinnumálum okkar og þá að sjálfsögðu sérstaklega til stefnu eða nánast stefnuleysis ríkisstj. í sjávarútvegsmálum. Áður en þm. fóru í jólaleyfi gerðum við þm. Sjálfstfl. athugasemdir hér á þingi um það að Alþingi skyldi sent heim í „mánaðarfrí“, eins og ég orðaði það, fríið stóð í heilan mánuð, þegar vitað væri hversu mikil vandamál blöstu við og hætta á því að atvinnuleysisvofan, sem óneitanlega hefur látið á sér kræla að undanförnu, gerði alvöru úr því að birtast. Því miður hefur það nú gerst. Sú viðvörun, sem frá okkur kom í þessum efnum, sýnir sig í dag að hafa verið á rökum reist.

Þessi aðvörun kom ekki hér fram aðeins rétt fyrir jólin. Hún hefur verið uppi höfð af og til af hálfu okkar sjálfstæðismanna á undanförnum mánuðum og ári, því að öllum hefur verið ljóst hvað fara gerði í sambandi við sjávarútveginn, okkar höfuðútflutningsatvinnuveg. Okkur var ljóst hvernig komið var með loðnustofninn og þrátt fyrir miklar verndunaraðgerðir í sambandi við bolfiskinn, sem hófust strax er við höfðum fengið 200 mílurnar viðurkenndar undir forustu þáv. sjútvrh., Matthíasar Bjarnasonar, þá sýnir sig að þar hefur því miður ekki sá árangur orðið sem við vonuðumst til að yrði. Bæði er það, eins og ég vék hér að áðan, að loðnan brást, engin loðnuveiði varð árið 1982 og þorskveiðin töluvert minni en gert hafði verið ráð fyrir. Af þessum sökum minnkaði aflaverðmæti, eins og kom fram hér í ræðu hæstv. sjútvrh. áðan, um 16%.

Auk þessa er og hefur verið aukinn tilkostnaður hjá sjávarútveginum, sér í lagi hjá útgerðinni, sem ekki hefur verið brugðist við með þeim hætti sem skyldi. Og síðast en ekki síst hefur verið um að ræða versnandi samkeppnisaðstöðu. Við höfum átt í erfiðleikum með útflutning á okkar fiskafurðum. Gildir það um allar greinar, frystingu, saltfisk og skreið, þó að vandinn sýnist langmestur í sambandi við skreiðina. Þessu til viðbótar hefur svo geisað hjá okkur óðaverðbólga meiri en nokkurn tíma fyrr, sem hefur komið sjávarútveginum afar illa og á að sjálfsögðu sinn stóra þátt í því hvernig nú er komið.

Fyrirhyggjuleysi hæstv. ríkisstj. og viljaleysi til að líta á þessi mál í því ljósi sem þau raunverulega hafa birst í kom best fram í því sem hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan, þegar hann vék að stöðu sjávarútvegsins eins og Þjóðhagsstofnun mat hana í des. samanborið við það sem álitið var um mánaðarmótin ágúst-sept., þegar gerðar voru efnahagsaðgerðir með brbl. annars vegar og svo með lögum um Olíusjóð fiskiskipa og hækkun á fiskverði, sem knúin var fram, eins og hv. þm. muna, í sambandi við stöðvun flotans í septembermánuði á s.l. ári. En þegar upp var staðið kom í ljós að staða sjávarútvegsins í des. var orðin verri en hún hafði þó verið fyrir þessar aðgerðir um mánaðarmótin ágúst-sept.

Þetta sýnir að sjálfsögðu hvernig á þessum hlutum er haldið. Hvort menn vilja kenna reiknimeisturum um skal hér látið liggja á milli hluta, en um hitt verður ekki villst, að það er ekki tekið á þessum málum þannig að lausn á því vandamáli sem við er að glíma sé fundin, heldur eru gerðar bráðabirgðaráðstafanir til þess að fleyta skútunni fram um einn, tvo eða þrjá mánuði. Það sem gert var um mánaðarmótin ágúst-sept. gerði ekki betur en að fleyta skútunni í tvo mánuði, þrátt fyrir þá útreikninga sem sýndir voru og menn höfðu haft á borðum sínum og útgerðin og fiskvinnslan grundvölluðu síðan starfsemi sína á. Þegar þessar aðgerðir fóru fram gerðu menn sér grein fyrir því, þeir sem þessum málum voru hvað kunnugastir, að til þess gæti komið, ef ekki væri nú tekið til hendinni, að fyrirtækin stöðvuðust og við þyrftum, þegar liði að áramótum, að glíma við atvinnuleysi. Eins og ég gat um áðan hefur þessi spá því miður ræst. Það sem menn eru að basla við að gera þessa dagana og hafa verið að basla við að gera er að koma aftur í gang fyrirtækjum, sem veita fjölmörgum einstaklingum atvinnu, ekki bara hér á Suðvesturlandinu heldur um landið næstum allt. Þegar við erum nú að renna skeið þriðja árs þessarar hæstv. ríkisstj. stendur dæmið þannig, að gerðar eru ráðstafanir vegna þess að atvinnuleysið hefur haldið innreið sína. Menn sögðu það strax í upphafi, þegar ríkisstj. var mynduð, þegar hún lagði fram sinn stjórnarsamning, hvert stefna mundi ef engu væri breytt, ef ekki væri út af stefnunni brugðið. Það hefur því miður nú komið í ljós.

Vinnubrögð hæstv. ríkisstj. í sambandi við þær aðgerðir sem gripið var til — eða heitið var öllu heldur um áramótin eru með sama hætti og verið hefur að undanförnu, þrátt fyrir það hversu miklu alvarlegri málin eru í þann mund sem þær eru gerðar. Þegar fjallað er um fiskverðshækkun á milli jóla og nýárs eru vinnubrögðin á þá lund að það er hæstv. ríkisstj. sem hefur alfarið tekið stefnuna í málinu. Yfirnefnd, sem fjallar um fiskverðshækkunina, kemur sér ekki niður á einhverja niðurstöðu — eins og hæstv. sjútvrh. vildi vera láta hér áðan í þeim orðum sem hann sagði — heldur er það ríkisstj. sem tekur stefnuna og segir: Hvað er það sem gera þarf til þess að hægt sé að ná fram fiskverði með einhverjum hætti? Því miður er tekin stefna sem hér kemur til með að valda ágreiningi, stefna sem við sjálfstæðismenn erum andvígir, eins og fram kom strax af hálfu okkar. Það er haldið áfram á þeirri braut sem mótuð var á s.l. ári. Þá voru þetta að vísu sagðar bráðabirgðaráðstafanir vegna útgerðarinnar til að reyna að tryggja rekstrargrundvöll hennar. Þá var gripið áfram til niðurgreiðslu, myndaður olíusjóður og milli færslukerfið teygt til hins ýtrasta.

Það hefur áður verið hart á dalnum hjá útgerðinni og þá hefur verið gripið til ýmissa ráða til þess að leysa þann vanda um stuttan tíma. Af því gátu menn dregið þó nokkurn lærdóm um hvernig skynsamlegast væri að standa að þessum hlutum. Þegar gripið var til 22% niðurgreiðslu á olíu á s.l. ári, þá var til þess varið fjármagni sem má segja að bókhaldslega hafi verið til í sjóðum. Hins vegar gerðu menn sér grein fyrir því að í raun og veru var þetta fjármagn ekki til. Niðurgreiðsla er aðferð sem að dómi okkar sjálfstæðismanna er ekki sú leið sem í þessum málum er eðlilegt að fara. Það sem gera þarf er að sjálfsögðu að með einum eða öðrum hætti verðum við að skapa útgerðinni auknar tekjur til þess að hægt sé að reka hana hallalaust. Það gerist hins vegar ekki ef um verður að ræða endalausar bráðabirgðaráðstafanir eins og hér hefur verið gripið til.

Það liggur ljóst fyrir að það er hagsmunamál, ekki bara útgerðarinnar heldur líka sjómanna, þess fólks sem vinnur við fiskvinnslu, sveitarstjórna og hins opinbera, að það náist rekstrargrundvöllur fyrir þennan atvinnuveg. Ella munum við standa í því á næstu árum að skuldbreyta fyrir útgerðina, ekki bara einu sinni, ekki bara tvisvar, heldur þrisvar sinnum á ári. Ætla ég að það geti átt sér stað að þannig verði staðið að málunum 1983. Við horfum á það á árinu 1982 að tvívegis var gripið til skuldbreytinga til þess að aðstoða útgerðina. Þá er boðið upp á verðtryggð lán til þess að létta aðeins á greiðslustöðunni. En það liggur í augum uppi að þessi lán verður útgerðin að greiða. Og með því háttarlagi sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur staðið að verður útgerðinni ekki skapaður sá grundvöllur sem hún þarf til þess að geta staðið undir þeim greiðslum.

Ég vék að því áðan að það hefði áður verið hart á dalnum hjá útgerðinni og þá verið gripið til ýmissa aðgerða. Ég bendi á, eins og fram kom í ræðu hæstv. sjútvrh., það sem gert var 1968. Það féll mönnum að vísu ekki nægjanlega vel í geð, en menn skildu það. Það að menn hafa sætt sig við þá hluti og skilið má glöggt marka af því, að enn er til frá þeim tíma stofnfjársjóðurinn, sem settur var á með lögum í maí 1968, og í hann greitt af óskiptu 10% af aflaverðmæti. Þessu var hins vegar breytt á árinu 1971, horfið frá því sem kallað hefur verið kostnaðarhlutdeild og horfið að því að mynda olíusjóð eins og gert er hér, með breytingum að vísu frá árinu 1975.

Þetta mætti geysilega mikilli andstöðu. Þáv. hæstv. sjútvrh. Matthías Bjarnason gekkst fyrir því að koma þessum hlutum fyrir með þeim hætti sem gert var með breytingu á lögum um Aflatryggingasjóð svo og breytingu á frv. til l. um útflutningsgjald af sjávarafurðum. Ég man ekki betur, þegar ég minnist á þetta, en þá hafi komið fram mjög mikil andstaða sjómanna, þegar olíusjóðurinn var tekinn að þróast. Mönnum sýndist að hér væri um fyrirbrigði að ræða sem búast mætti við að ekki yrði afnumið. Þeir gerðu mjög harða hríð að þáv. hæstv. ríkisstj., sem tók þetta mál til meðferðar og leysti það eins og ég gat um hér áðan undir forustu þáv. sjútvrh. Matthíasar Bjarnasonar.

Nú er þessi draugur vakinn upp aftur. Eins og ég sagði áðan er andstaða af hálfu okkar sjálfstæðismanna við það. Og ekki aðeins okkar, heldur sýnist vera um að ræða andstöðu allra þeirra sem með einum eða öðrum hætti eiga með þessi mál að fara. Enda er hér um að ræða verulega skekkju sem reynt er að ná fram með þessu háttarlagi. Með þeim niðurstöðum sem hæstv. sjútvrh.. kynnti hér áðan er alls ekki þannig unnið að málunum að útgerðin verði rekin hallalaus á næstunni. En hvers vegna skyldu menn standa í því núna, ekki einu sinni á ári, heldur tvisvar, að bjarga með skuldbreytingu? Það stafar auðvitað af því að ekki hefur verið lítið á málefni útgerðarinnar á síðustu árum með þeim hætti sem skyldi og henni ekki skapaður sá grundvöllur sem þurft hefur til þess að útgerðin gæti staðið undir fjármagnskostnaði þeim sem á henni hvílir.

Við umfjöllun um þetta frv., sem tengist fiskverðshækkun frá áramótum, vék hæstv. ráðh. hér að því hvernig það dæmi kom út með tilliti til þess að tekjur sjómanna hafa minnkað vegna aflabrests og annars. Það er að mínum dómi málefni sem hefði átt að taka til athugunar samhliða þessu, til þess að við gætum dregið úr þeirri miklu verðbólgu, sem við búum við, til að koma í veg fyrir að fiskverðshækkunin, hvort sem hæstv. sjútvrh. líkaði betur eða verr, hvort sem hann vildi eða vildi ekki, kallaði á gengisfellingu eins og raun bar vitni. Spurningin er: Hefði ekki verið möguleiki á því að lagfæra með einum eða öðrum hætti launakjör sjómanna áður en þannig var frá hlutunum gengið? Í öðru lagi lágu frammi þrjár hugmyndir í sambandi við fiskverðsákvörðun: 10%, 12%, 14%, og það auðvitað hvarflar ekki annað að neinum manni, sem horfir á þessa hluti raunsætt, en að þeir sem selja fiskinn vildu fá 14% fiskverðshækkun. Það liggur alveg í hlutarins eðli. Þegar settar eru fram þrjár slíkar hugmyndir, þá liggur það í hlutarins eðli hver muni verða ósk þeirra sem selja eigi fiskinn.

Þegar hins vegar farið er út á þær brautir að auka enn niðurgreiðslu á olíu, þ.e. taka meiri þátt í kostnaði útgerðarinnar en áður og lagðar eru fram tillögur um 22%, 28% og 37% niðurgreiðslur, þá liggur það í hlutarins eðli að sá sem á að njóta vill ekki 22% heldur óskar eftir 37%. Þannig stóðu því málin þegar fiskverðsákvörðunin átti sér stað seint á gamlársdag. Þeir sem í yfirnefndinni sátu voru eiginlega spurðir: Hvernig er hægt að koma þessum málum fram, hvað þurfa fiskseljendur að fá í sinn hlut til þess að geta greitt atkv. með, þeir sem annars geta hugsað sér það, og hvað þurfa útgerðarmenn að fá mikla niðurgreiðslu til þess að þeir geti staðið að ákvörðun? Og svo er farið til fiskkaupendanna og spurt: Hvað þarf gengisfellingin að verða mikil til þess að ég geti átt von á því að þið getið setið hjá? Þetta er það sem gerðist. Það voru ekki þeir sem sátu í verðlagsyfirnefndinni, sem í raun og veru mótuðu það sem þarna var að gerast, heldur er það hæstv. ríkisstj., með áhrifum sínum á oddamann nefndarinnar, sem ákvarðar hvað gera skuli í þessu máli.

Það var ljóst og hafði líka verið rætt, að mér skildist í hæstv. ríkisstj. að önnur leið væri fyrri hendi, sú leið að fella niður 7% olíugjaldið, fara hins vegar í 17% kostnaðarhlutdeild af afla, þannig að útgerðinni yrði skilað sömu niðurstöðu og það dæmi sem hér er verið að ræða um. Ég hef ástæðu til að halda að það hefði verið meiri hluti í yfirnefndinni fyrir þeirri ákvörðun, ef yfirnefndin sem slík eða einstakir nefndarmenn hefðu getað með oddamanni tekið ákvörðun í málinu. En ef við látum þá aðila tala sem í yfirnefndinni voru, þá vil ég með leyfi hæstv. forseta víkja að nokkrum orðum sem þeir létu hafa eftir sér 4. jan. um fiskverðsákvörðunina. Þar segir formaður Sjómannasambandsins með leyfi forseta:

„Við erum orðnir langþreyttir á þessum afskiptum, langþreyttir á opinberum afskiptum. Og það er spurning hvort við erum ekki komnir út á ystu nöf með þetta hlutaskiptakerfi og hvort það er ekki ástæða til að skipta þar um.“

Þetta er fulltrúi sjómanna sem greiðir atkv. á móti því sem þarna er að gerast. Formaður Landssambands ísl. útvegsmanna segir:

„Þá vil ég taka fram að við hefðum kosið aðra aðferð. Ekki að olía yrði niðurgreidd heldur að útgerðin fengi beinan tekjuauka, sem þýtt hefði að 7% olíugjaldið hefði verið hækkað í 17%, og það nefnt kostnaðarhlutdeild eða eitthvað slíkt.“

Framkvæmdastjóri Sambands ísl. fiskframleiðenda segir: „Þetta gengur gegn allri skynsemi.“ Og framkvæmdastjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna segir: „Við erum andvígir hækkun útflutningsgjalds, en það er ekki okkar mál heldur Alþingis. Það er ríkisstj. og Alþingi sem ákveða útflutningsgjöld, og þó við höfum ekkert um það að segja, þá töldum við eðlilegra að fara þá leið sem kölluð var kostnaðarhlutdeild. Sem sagt, ekki olíukostnaðarhlutdeild, heldur álag á fiskverð, sem ekki hefði komið til skipta fremur en útflutningsgjöldin.“

Þrátt fyrir það sem ég hér hef sagt, og er skoðun þeirra aðila sem fjölluðu um fiskverðið, verður niðurstaðan hins vegar sú, að oddamaður yfirnefndar ásamt með fulltrúa Landssambands ísl. útvegsmanna greiðir tillögu oddamanns atkv., fulltrúi sjómanna er á móti og hjá sitja fulltrúar fiskvinnslunnar tveir.

Þegar þessi mál hafa verið til umræðu hjá samtökum útgerðarmanna hafa þeir haft á þeim allt aðra skoðun en þá sem fram kom hér hjá hæstv. sjútvrh. áðan. Mér er kunnugt um það að til hans hefur borist ályktun frá Útvegsmannafélagi Suðurnesja, þar sem þeir andmæla þeirri aðferð sem við er höfð til þess að mæta auknum kostnaði útgerðarinnar og benda á hina leiðina sem var til umræðu og umfjöllunar og sýndist vera meiri hluti fyrir í yfir-nefndinni þegar kom að afgreiðslu málsins.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að víkja hér að bréfi sem fjölmiðlum hefur borist frá Útvegsmannafélagi Suðurnesja. Þar segir:

„Útvegsmannafélag Suðurnesja telur, að í staðinn fyrir 35% niðurgreiðslu á olíuverði, sem greitt verður með 4% útflutningsgjaldi á sjávarafurðir, hefði verið eðlilegra að afnema 7% olíugjaldið og taka upp í staðinn 17% kostnaðarhlutdeild, eins og meiri hl. verðlagsráðs hefði getað sætt sig við, ef það hefði gefið sömu afkomu til útgerðarinnar í heild sinni og sú leið sem valin var. Einnig hefði 17% kostnaðarhlutdeild haft í för með sér hvata til olíusparnaðar.“

Í hverju það liggur að hæstv. ríkisstj. beitti sér gegn því að það næðist meiri hluti í yfirnefnd á þessum grundvelli fæ ég ekki skilið því að ég er þeirrar skoðunar að hefði þetta orðið niðurstaðan hefði málið ekki fengið þá andstöðu hér á Alþingi sem þetta frv. að verulegu leyti kemur til með að fá, og það var ljóst af því sem sagt var að þannig yrðu málin ef til þingsins kæmu. Ég fór ekkert dult með þá skoðun mína í þeim umr. sem ég átti við þá aðila sem um þetta fjölluðu, að ég teldi þetta mun jákvæðari leið. Þetta stefndi og að því, sem ég hafði sagt og menn vissu að var og er skoðun okkar sjálfstæðismanna, að númer eitt stæðum við að því með einum eða öðrum hætti að skapa útgerðinni auknar tekjur og gera grundvöll undir rekstur útgerðarinnar með þeim hætti að það þyrfti ekki að standa einu sinni, tvisvar og jafnvel þrisvar í skuldbreytingum eins og verið hefur.

En eins og ég sagði áðan fæ ég út af fyrir sig ekki skilið í hverju afstaða ríkisstj. er fólgin öðru en því að menn vilja fá tækifæri til þess að koma upp sjóðum, hafa millifærslu, gefa út reglugerð til þess að setja fjármagn á þennan staðinn og á hinn staðinn í stað þess að láta allt ganga fyrir sig eðlilega. Þá hefði í leiðinni það sem gerðist verið hvati til sparnaðar í stað þess, sem þessi aðferð er, sem við erum hér um að ræða samkv. þessu frv., að eyðslan er greidd niður. Það skiptir engu máli hversu mikil hún er.

Ef lítið er á málið af hálfu útgerðarinnar og menn gera sér grein fyrir því hvaða stærðir er hér um að ræða og með hvaða hætti fjármagnið er tekið, sem er ætlað til greiðslu, er ljóst, ef bara er gengið út frá því að þorskaflinn skiptist jafnt á milli togaraflotans og bátaflotans, hvernig skiptast þær 400 millj. sem fram kom hjá hæstv. sjútvrh. áðan að afla þyrfti í olíusjóð. Aflinn skiptist að jöfnu, ef maður lítur gróft á dæmið. En hvernig verður svo niðurgreiðslan? Hvernig skiptist hún á milli þessara aðila? Jú, það er talið að niðurgreiðslan til bátaflotans muni nema 110 millj., rúmlega 100 millj. kr., það er talið að niðurgreiðslan til minni togaranna muni nema 240–250 millj. kr. og niðurgreiðslan til stærri togaranna um 50 millj. kr. Það sem þarna er verið að gera er að það er verið að færa 100 millj. kr. frá bátaflotanum yfir til togaraflotans — togaraflotans sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur verið að stækka svo mikið á undanförnum árum svo að hún taldi nauðsynlegt að segja stopp við sjálfa sig í þeim efnum. Þannig kemur dæmið út, að það er annars vegar verið að rýra kjör bátasjómanna, en verið að auka tekjur sjómanna á togurum. Hér er verið að rýra stöðu bátaflotans, en gera stöðu togaraflotans betri. Ég held að slík vinnubrögð séu ekki æskileg og hjá þeim eigi að reyna að komast. Þegar þetta var gert í tíð ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar 1971–1974, og því var fram haldið um nokkurt skeið, var þessu mjög andmælt. Ég er viss um að þegar þeir aðilar, sem eiga við þetta að búa, fara að gera sér grein fyrir því hvernig þessir hlutir koma út muni þeir ekki sætta sig við þetta.

Og ég endurtek enn á ný: Ég fæ ekki skilið í hverju það liggur að hæstv. ríkisstj. beitir sér fyrir því að ekki er farin sú leið sem til umr. var í yfirnefndinni og vitað var að hægt var þar að ná samstöðu um samhliða því að skoðað væri hvaða leiðir aðrar væru færar til þess að auka á tekjur sjómanna, því talið var að þeir hefðu farið halloka vegna aflabrests, til þess að ná niður að einhverju leyti þeirri óðaverðbólgu sem við höfum við að glíma í stað þess að framkvæma ráðstafanir sem beinlínis kynda undir verðbólguna. Það liggur ljóst fyrir að þegar þetta er gert er ekkert verið að hugsa um þær afleiðingar sem þetta allt saman hefur á efnahagskerfi okkar. Það er kannske ekki nokkur möguleiki á því að reyna neina björgun hvort sem er. Þetta er allt saman komið í slíkt óefni. En samt sem áður hefði verið eðlilegt að virðingarverð tilraun væri gerð, — og að ég tali nú ekkí um á gamlársdag þegar menn heita ýmsu og vilja breyta stundum um og taka upp nýjar starfsaðferðir, en þá hefði verið ástæða til þess að þetta hefði verið gert.

Og hvernig standa svo menn að tekjuöfluninni, þegar það er skoðað sérstaklega? Jú, það er lagður skattur á okkar útflutning. Það er lagður skattur á frysta fiskinn, á skreiðina, á saltfiskinn, til þess að mæta þessum niðurgreiðslum. Það er ósköp eðlilegt að þeir aðilar sem við eigum að semja við horfi á með hvaða hætti og hvernig við stjórnum okkur, hvernig við förum að í sambandi við okkar útflutning. Það er ósköp eðlilegt, þegar viðskiptaaðilar þeirra geta skattlagt útflutning til hluta eins og þessara, að þeir hafi einhverjar aths. um verð þegar verið er að semja. Ég tala nú ekki um þegar þannig stendur á að stór hluti af sjávarvöruframleiðslunni 1982 er enn þá í landinu, ekki svo mikið sem einn baggi af skreið verið fluttur út og enn þá óflutt út skreið frá 1981. Þá er í fyrsta lagi tekinn gengismunur á s.l. ári af skreið og honum ráðstafað og þegar svo kemur fram á árið 1983 á að leggja útflutningsgjald á skreið til þess að fjármagna niðurgreiðslu á olíu. Eftir því sem við lesum og heyrum er jafnvel farið að hugsa til þess að nota gengismun, gengishagnað frá því á s.l. ári af skreiðarbirgðum, sem ekki er enn farið að flytja út, til þess að bjarga fiskvinnslu, bjarga útgerð sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur þannig búið um hnútana hjá að hún berst í bökkum. Mér er tjáð að skreiðarútflutningur frá 1982 gæfi um 80–90 millj. í þann gengismunarsjóð sem myndaður var á s.l. ári. Ég er nú þeirrar skoðunar, að skynsamlegra hefði verið fyrir hæstv. ríkisstj. að líta á vandamál skreiðarútflytjenda, gera sér grein fyrir því hvort það væru ekki einmitt þeir aðilar sem hér hefur verið rætt um undanfarna daga, fella þá niður upptöku á gengishagnaði frá s.l. ári og aðstoða þessi fyrirtæki út á skreiðarbirgðir sem í landinu eru. Ég verð að segja að mér finnst furðulegt hvernig ríkisstj. hefur staðið að þessum málum þegar við heyrum um og lesum jafnvel það sem lagt er á borð hjá „kollegum“ okkar í Noregi, þegar norska ríkisstjórnin beitir sér fyrir því að tryggja útflutning á skreið. Hún beitir sér fyrir því að aðstoða skreiðarframleiðendur til þess að þeir stöðvi ekki, heldur haldi áfram, og þeir, þó að seinna verði, komi sínum birgðum í verð. Ríkisstjórn Norðmanna aðstoðar þessa aðila. Á sama tíma og það er að gerast er það orðin ein leiðin til þess að bjarga málum hér að láta skreiðarframleiðendur bera kostnað hvort heldur það er í gegnum gengismun eða útflutningsgjaldið.

Í þessu frv., sem hér er til umr., er auk þess að gert er ráð fyrir 4% útflutningsgjaldi sem renni í Olíusjóð gert ráð fyrir óbreyttu olíugjaldi, 7%, eins og verið hefur. Eins og ég hef margtekið fram er ekki í mínum huga eða okkar sjálfstæðismanna nokkur vafi á að hér er farin óskynsamlegasta leiðin sem hægt var að fara.

Í þessu frv. eru auk þess nokkur önnur atriði sem hæstv. sjútvrh. vék að hér áðan, m.a. í 5. gr. frv., auk þess að hann vék að atriðum sem voru til umr. og, eins og hann skýrði hér frá áðan, krefjast ekki lagasetningar. Bæði hefur ríkisstj. beitt sér fyrir viðræðum við banka varðandi niðurfellingu á lántökugjaldi í sambandi við þessar miklu skuldbreytingar og viðræðum í sambandi við tryggingamál, sem hann vék að áðan. Þetta eru atriði sem út af fyrir sig tengjast ekki því meginatriði sem í þessu frv. felst, heldur atriði sem samhliða nýjustu fiskverðssamningum og öðru voru tekin til lagfæringar.

Ef litið er á þetta dæmi í framhaldi af skiptingunni sem ég vék að áðan, þá er um að ræða að bátaflotinn er um það bil 750 skip á meðan verið er að ræða þar á móti um 90–95 togara. Ég held að menn hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað í þessu fælist í raun og veru, sem hér er lagt til, og ég er þeirrar skoðunar að hv. sjútvrn., sem fær þetta mál til meðferðar, eigi að reyna að koma fram þeim breytingum á þessu sem skynsamlegri eru en það sem í frv. er lagt til.

Þegar hæstv. sjútvrh. hafði fullgert frv. eða hugmyndadrög að frv. fengu fulltrúar þingflokkanna vitneskju um það, eins og hann kom hér réttilega inn á áðan, en um leið má segja að í blöðum hafi borist skilaboð þess efnis að nú væri tækifæri fyrir stjórnarandstöðuna að koma ríkisstj. frá því að hann setti það að skilyrði fyrir áframhaldandi setu sinni að þetta frv. yrði samþykkt hér í þinginu. Af eðlilegum ástæðum túlkuðu blaðamenn þetta sem hótun ráðh. Slíku hóta ráðherrar stundum samflokksmönnum sínum ef þeir ekki fá þá til þess að hlýða eða standa með sér í því sem þeir eru að gera. En ég leit svo á, að þetta væri tilboð frá hæstv. sjútvrh. um að gera alvöru úr því að ríkisstj. færi frá því að hann boðaði að hann segði af sér. Átti ég von á því, þar sem hann er formaður Framsfl., að hans liðsveinar yrðu ekki lengi í sínum stólum á eftir og þetta þýddi því þingrof og nýjar kosningar. (Gripið fram í.) Ég skal ekki meta það, ég er ekki svo kunnugur innan dyra þar, en ég verð nú samt sem áður að halda, að ef formaður flokksins gefur slíka yfirlýsingu, sé hún af hálfu Framsfl. og þá menntmrh. með. — En þetta tilboð stendur sjálfsagt ekki enn þá hjá hæstv. ráðh. A.m.k. gaf hv. 4. þm. Reykv. Vilmundur Gylfason þá yfirlýsingu, að heldur en fá þingrof og kosningar vildi hann að ríkisstj. sæti enn um sinn þó djöfulleg væri og þó hún stjórnaði vitlaust væri skárra að hafa hana lengur en fá þingrof og nýjar kosningar.

Ég veit ekki hvað í þessu felst, sem frá hv. 4. þm. Reykv. kom, en við sjálfstæðismenn erum andvígir þeim tillögum sem eru í þessu frv. Við höfum ákveðnar skoðanir á því með hvaða hætti hér eigi að bregðast við. Það hefur áður komið fram og munum við að sjálfsögðu, þegar málið fær umr. í sjútvn. þessarar hv. deildar, gera tilraun til þess að rétta af það sem hér er lagt til. En eins og ég gat um áðan: Við erum andvígir því sem fram kemur í þessu frv.