18.01.1983
Neðri deild: 25. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til fyrir mig að fara að hafa hér langt mál um þetta frv. eða ræða hér sérstaklega einstaka þætti þess. Ég á sæti í þeirri nefnd sem málið væntanlega fer til og get þar að sjálfsögðu komið á framfæri mínum sjónarmiðum. En ég vil þó strax við þessa 1. umr. fara hér örfáum orðum almennt um þetta mál.

Það hefur verið sagt um núv. hæstv. sjútvrh. að hann mundi fyrir sína ráðherratíð sem sjútvrh. fyrst og fremst hljóta þann dóm í sögunni að tala yfirleitt gegn sinni raunverulegu sannfæringu, því sem hann vildi gera. Það kom mér því ekkert á óvart þó að hér liggi nú fyrir till. frá hæstv. ráðh. um að halda olíugjaldinu áfram. Í þrígang, þrívegis hefur hæstv. ráðh. gefið sjómönnum fyrirheit um að fella niður þetta gjald. Hann gerði það síðast á s.l. ári. Hann gerði það árið 1980, tiltölulega fljótt eftir að núv. ríkisstj. var sett á laggirnar. Hann gerði það á árinu 1981 og hann gerði það á árinu 1982, þannig að eftir slíka yfirlýsingu á s.l. ári máttu menn ganga út frá því sem vísu, í ljósi fenginnar reynslu, að olíugjaldið yrði ekki afnumið.

Kompás hæstv. sjútvrh. hefur verið sá, að hann hefur alltaf farið þveröfugt í þá hluti sem hann hefur gert, miðað við það sem hann hefur sagt í því efni. Og að tala svo hér eins og bæði hæstv. ráðh. hefur gert og látið hefur verið í skína af ýmsum öðrum stjórnarsinnum, að hér sé um að ræða samning um fiskverð og þær ráðstafanir sem hér er verið að gera að því er varðar sjómenn, er hrein fjarstæða. Það vita það allir, sem vilja vita, að sjómannasamtökin í landinu eru algerlega andvíg þessum ráðstöfunum. Þau hafa verið andvíg olíugjaldinu frá upphafi og þau eru það enn.

Mér fannst svipaður keimur af ræðu hv. þm. Vilmundar Gylfasonar hér áðan. Hann talaði gegn öllu frumskógarkerfinu í millifærslunni, en lýsir síðan yfir að hann ætli alls ekki að koma í veg fyrir að því verði breytt, millifærslukerfinu, — ekki í þessu máli, sagði hann, ekki í þessu máli. Hann sagði: Ríkisstj. svífur í lausu lofti og það eru válegir tímar fram undan og yfirstandandi. Samningarnir eru gerðir, sagði hv. þm., og ef ég get komið í veg fyrir, með hjásetu minni, að þjóðinni sé dembt út í kosningar, eins og hann sagði, þá mun ég gera það. Því að Bandalag jafnaðarmanna þarf að vinna tíma. Þetta er í raun og veru meginástæðan fyrir því að hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur nú tekið þá afstöðu þrátt fyrir marggefnar yfirlýsingar og rökstuðning, sem er réttur hjá honum, um að þetta kerfi sé úr sér gengið. Og ég tek undir það með honum. En að ástæðan sé sú, að hann vildi ekki að hæstv. samgrh. og sjútvrh. fái neina óskastöðu í kosningum, það er af og frá. Ástæðan er sú, að hv. þm. sem forustusveinn í hinum nýstofnuðu stjórnmálasamtökum þarf að vinna tíma, þeim samtökum til hugsanlegs framdráttar. Það er kjarni málsins.

Ég ætla ekki á þessu stigi, það gefst tími til þess síðar, að ræða frekar um þá hluti. Það gefst líka tími til þess síðar að ræða um það frv. sem hv. þm. gerði hér að nokkru umræðuefni, um breytt kerfi varðandi fiskverðsákvörðun. Þær hugmyndir hef ég heyrt oft áður af hans hálfu. Ég tek undir það með honum að breytinga er þörf í sambandi við verðlagningu á fiski og öðru. En frjálst fiskverð yrði að fara úr einum frumskóginum í annan að mínu viti. Það yrði að stíga skref marga áratugi til baka frá því sem nú er. Þó að það kerfi sé slæmt sem við nú búum við, þá yrði kerfið sem býður upp á frjálst fiskverð lögmál frumskógarins. Það yrði enn þá verra en það sem nú er.

Og sá rökstuðningur hv. þm. Vilmundar Gylfasonar að það sé ekki hægt að vera á móti þessu máli einu og sér, þó að það sé eitt af trjánum í frumskóginum sem þurfum að eyða, þá nær það náttúrlega ekki eyrum manna, því að svo best tekst mönnum að eyða t.d. heilum frumskógi, að þeir byrji á einu trénu og höggvi það. Þeir taka ekki öll trén í einu. Einhvers staðar verður að byrja. Og þeir sem eru sannfærðir um að t.d. það mál sem hér er um rætt sé ein af meinsemdunum í frumskóginum ættu að sjálfsögðu að vera samþykkir því að taka þó þennan þátt, þetta skref í því að bylta þessum frumskógi.

Mér finnst a.m.k. það jaðra við öfugmæli þegar hv. þm. var hér að tala um allar meinsemdirnar í gömlu flokkunum, flokksklíkurnar og þau kerfi sem Bandalag jafnaðarmanna er stofnað til þess að skera upp, að því er sagt er, en fyrsta afstaðan sem tekin er er til þess að styrkja það rotnasta kerfi sem hv. þm. Vilmundur Gylfason, forvígismaður þess bandalags, telur að sé fyrir hendi í landinu. Þvílíkt öfugmæli. Ég hef að vísu ekki kynnt mér mjög starfsemi allra stjórnmálaflokka í landinu frá upphafi, en einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að hér sé í uppsiglingu eitthvað þrengsta flokkskerfi sem til er í íslenskri pólitík í dag, Bandalag jafnaðarmanna, ef framhaldið á þeim samtökum verður eins og upphafið sýnist vera að bjóða upp á, að tiltölulega fáir einstaklingar hópa sig saman í gegnum síma, stofna til samtaka, kjósa sjálfa sig í miðstjórn, en almennt er mönnum ekki gefinn kostur á því að taka þátt í slíku.

Ég tek undir með hv. þm. Vilmundi Gylfasyni og hef gert það oft, að flokkskerfið almennt er allt of þröngt, flokkshlekkirnir of sterkir, flokksklíkurnar með of mikil völd. En þarna sýnist mér vera í uppsiglingu ekki minna flokksvald, ef framhaldið verður sem horfir, heldur en við höfum nú þegar fyrir í gömlu flokkunum. En nóg um það. Það gefst væntanlega tími til að ræða um það hér síðar.

Ég sagði hér áðan að það væri öllum ljóst að sjómannasamtökin í landinu eru andvíg því sem verið er að gera með þessu frv. Hér er í raun og veru verið að festa betur í sessi það gamla uppbótarkerfi sem var lengi við lýði og allir voru orðnir sammála um að þyrfti að afnema. Frv. er um það að festa þetta óraunsæja og óréttláta kerfi frekar í sessi en verið hefur. Og Bandalag jafnaðarmanna tekur þátt í því að slíkt verði gert.

Hæstv. sjútvrh. talaði um það hér áðan og hefur oft gert það áður, og það er út af fyrir sig rétt, að það væri erfið staða hjá ýmsum í útgerð. Það á ekki við um alla. Hún er misjöfn, eins og raunar á flestum öðrum sviðum, en hún er víða erfið. En menn gleyma því alltaf að það er líka erfið staða hjá launþegahópunum, hjá heimilunum, hjá sjómönnunum, sem kjör hafa verið skert hjá trekk í trekk við fiskverðsákvörðun og með öðrum aðgerðum er varða kjaramál sjómanna. Það er ekki lítið til þess að hjá þessum einstaklingum og hópum er líka slæm staða.

Ég bið hv. þm. að minnast þess að ekki alls fyrir löngu, ég held að það hafi verið árið 1975, það leiðréttist hér ef ég fer með rangt mál, var boðið upp á samkomulag um það og það gert að afnema allt sjóðakerfið. (Gripið fram í: 1976.) Árið 1976 var gert samkomulag um það og sjómenn fórnuðu þá ýmsum hlutum til þess að það næðist fram. Ég sé ekki betur en að með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til sé verið að taka upp aftur þráðinn, ganga á rétt sjómanna til þess síðar meir að geta látið þá aftur kaupa breytingu á sjóðakerfinu með kjaraskerðingu. Þetta er eitt meginatriðið í því sem hér er um að ræða auk þess sem náttúrlega er um það að ræða að enn er verið að hlunnfara sjómenn í sambandi við olíusjóðinn og slíkt. Ég held sem sagt að það sé á alröngum forsendum fært hér fram í umr., að hér sé um samkomulag að ræða. það er ekki um það að ræða af hálfu sjómannasamtakanna. A.m.k. mér er ekki kunnugt um að svo sé. Ef það er rétt að samþykki fulltrúa sjómanna í verðlagsráði liggi fyrir með þeim ráðstöfunum, sem hér er verið að tala um og lagt er til að gera, þá vildi ég mjög gjarnan óska eftir því að hæstv. sjútvrh. greindi frá því hér. En þá er það nýtt fyrir mér.

Ég vildi ennfremur, án þess að lengja mikið mál mitt að þessu sinni, spyrjast fyrir um eitt. Ef ég man rétt, þá hefur ekki enn — það kemur ekkert fram um það í þessu frv. — verið aflað tekna til niðurgreiðslunnar á olíunni síðari hluta árs 1982. Hvað með það dæmi? Þar var talið vanta, ef ég man rétt, 200–250 millj. Hver er meiningin í þeim efnum? Með hverju á að ná inn því fjármagni, sem til þarf og vantar á til að standa þar í skilum? Auðvitað sjá allir, ekki síst sjómenn í landinu, að með þeim tillögum sem hér liggja fyrir er verið að hrófla við hlutaskiptum sjómanna og útgerðarmanna. Það liggur ljóst fyrir. Sjómenn eru ekki það skyni skroppnir að þeir sjái það ekki. Þó að einhverjir haldi þá kannske svo slappa að þeim sé ekki ljóst að hér er verið að fara framhjá hlutaskiptum, hér er kjaraskerðing á ferðinni, hér er ógilding á samningum að því er þá varðar og útvegsmenn. Þetta er þeim öllum ljóst.

Ég skal ekki, herra forseti, fara öllu lengra út í þetta mál. Ég vil þó að lokum taka undir orð hv. þm. Vilmundar Gylfasonar þegar hann lýsti undrun sinni á yfirlýsingu hæstv. sjútvrh. Ég heyrði hana í sjónvarpinu, sjálfsagt hefur hann gefið hana víðar, um óskastöðuna, ef þetta mál yrði fellt. Útgerðin væri stöðvuð, flotinn sigldi í land, atvinnuleysi gengi yfir þjóðina. Ef það fylgdi í kjölfar þess að þetta mál næði ekki fram að ganga, þá kemur nákvæmlega sama staða upp strax núna í marsmánuði n.k., nákvæmlega sama staða. Þá verður mönnum aftur hótað atvinnuleysi, heimsiglingu flotans og stöðvun, ef þeir ekki ganga að þeim kjaraskerðingarákvæðum sem núv. ríkisstj. með hæstv. sjútvrh. í broddi fylkingar leggja fyrir þjóðina. Það verður sem sagt á tveggja eða þriggja mánaða fresti hér eftir eins og hingað til, meðan núv. hæstv. ríkisstj. er við völd, sem þjóðin stendur frammi fyrir slíkum hótunum, ef menn ekki gangi að þeim kjaraskerðingum sem hæstv. ríkisstj. vill að nái fram að ganga. Og þá á þetta sjálfsagt ekki bara við um sjómenn, þá á þetta einnig að ég hygg við um allt launafólk í landinu annað en sjómenn. Núv. hæstv. ríkisstj. virðist einfaldlega ætla sér að knésetja svo launafólk í landinu, og þá ekkert sérstaklega sjómenn, með hótunum um svo og svo miklar stöðvanir, atvinnuleysi og hörmungar, að hún ætli sér að lifa á því eins lengi og hún telur sér fært að lifa á því. Hvort henni tekst það verður að koma í ljós. En ég hef ekki trú á því að sjómannastéttin í landinu taki þegjandi við því sem hér er lagt til. Ég hygg að sjómenn almennt talað séu orðnir svo hvekktir á fyrirheitum og yfirlýsingum hjá hæstv. ríkisstj. þeim til handa, og þá fyrst og fremst hjá hæstv. sjútvrh., að þeim þyki nú nóg komið, þegar alltaf er í raun og veru hliðrað sér hjá — svo að ekki sé notað sterkara orð — að standa við gefin fyrirheit sjómönnum til handa.