19.01.1983
Efri deild: 30. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

155. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir stjfrv. um breyt. á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Ljóst er að lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins þarfnast endurskoðunar. Ég óskaði eftir því í októbermánuði s.l. við stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að hún tæki sér fyrir hendur að endurskoða lög um lífeyrissjóðinn. Fannst mér viðurhlutaminnst og eðlilegast að sjóðstjórnin sjálf annaðist þetta verk fremur en sérstök nefnd væri skipuð til þess, en í sjóðstjórn eiga sæti fulltrúar frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, frá Bandalagi háskólamanna og frá ríkinu.

Stjórn lífeyrissjóðsins er sammála um það og sammála fjmrn. um það, að heildarendurskoðun á gildandi lögum um lífeyrissjóði sé fullkomlega tímabær, en bendir á að sú endurskoðun taki nokkurn tíma. Á hinn bóginn hefur sjóðstjórnin komist að þeirri niðurstöðu, að nokkur atriði í gildandi lögum séu þess eðlis að ekki þoli bið að þeim verði breytt, í öllu falli ekki langa bið, og þess vegna er það ósk sjóðstjórnarinnar að gerð sé nú í vetur lagfæring og breyting á lögunum, en að aðrar breytingar bíði heildarendurskoðunar. Sjóðstjórnin hefur því samið það frv. sem hér liggur fyrir og ríkisstj. flytur það óbreytt.

Ég vil taka það alveg sérstaklega fram í þessu sambandi, að það er fullt samkomulag í sjóðstjórninni um afgreiðslu þessa máls, bæði með fulltrúum ríkisins og fulltrúum opinberra starfsmanna. Hérna er um að ræða nokkur sanngirnismál, sem eru að öllu samanlögðu tvímætalaust bæði til hags fyrir ríkisvaldið og ríkissjóð og til hags fyrir einstaka sjóðfélaga.

Það meginatriði sem mestu máli skiptir í þessu sambandi er það ákvæði 1. gr. frv. að ellilífeyrir, örorkulífeyrir og makalífeyrir skuli miðaður við starfshlutfall sjóðfélaga, þegar á ævina er lítið í heild, en ekki þegar hann lætur af störfum, eins og nú er. Nú er það svo, að maður, sem er búinn að vera í fullu starfi allan sinn starfstíma og fer svo í hálft starf seinustu 5 ár ævinnar, fær ekki nema hálfan lífeyri meðan aftur á móti maður, sem hefur verið í hálfu starfi kannske alla sína ævi, en fer svo í fullt starf seinasta árið, — bara seinasta árið, — fær fullan lífeyri. Auðvitað sjá allir að þetta er ekki neitt réttlæti og því er hér gerð ný till. sem gerir ráð fyrir að miðað sé við starfshlutfallið í heildina tekið. En 1. gr. mundi þá orðast svo, með leyfi forseta:

„Þó er sjóðfélaga, er gegnt hefur um lengri eða skemmri tíma hlutastarfi, heimilt að greiða áfram iðgjald til sjóðsins af föstum launum sínum fyrir dagvinnu“.

Já, það er reyndar ekki þessi grein sem hér um ræðir, heldur er það næsta grein, en það er kannske óþarfi að vera að lesa þessar greinar upp.

Ég bendi sem sagt fyrst og fremst á það, að þetta er meginbreytingin sem í lögunum felst og sú langsamlega mikilvægasta og þetta er sanngirnismál. Vissulega geta menn þá ekki lengur notfært sér að fara fram hjá anda laganna með því að vera í hálfu starfi mestalla ævina og ná sér svo í fullan lífeyri með fullu starfi á seinasta árinu, sem menn vissulega hafa eitthvað gert, en mér sýnist að hitt sé þó mikilsverðara, að menn geti minnkað við sig starfið á seinustu starfsárum sínum án þess að þurfa að gjalda fyrir það í lífeyri. Það er það sem opinberir starfsmenn leggja að sjálfsögðu mesta áherslu á.

En það var að sjálfsögðu rétt, sem ég nefndi hérna áðan, að það er 1. gr. sem fjallar um þetta atriði. Mér sýndist eitt andartak að ég væri að fara með rangt mál og þess vegna las ég ekki greinina alla, en það er að sjálfsögðu misskilningur. Það segir hér skýrt og greinilega að sjóðfélaga sé heimilt að greiða áfram iðgjald til sjóðsins af föstum launum sínum fyrir dagvinnu allt að því marki að jafngildi iðgjaldagreiðslu af launum fyrir fullt starf í 32 ár.

Um 2. og 3. gr. frv. er það að segja, að lagt er til að þeim sé breytt til samræmis við þá nýju meginreglu að lífeyrisréttur miðist við meðaltalsstarfshlutfall sjóðfélaganna, eins og ég hef þegar tekið fram. Jafnframt er, til að taka af tvímæli, bætt við því ákvæði við 3. mgr. að sjóðfélagi, sem ekki notfærði sér 95 ára regluna meðan hann átti þess kost, skuli fá endurgreidd þau iðgjöld sem hann hefur greitt umfram 32 ár í fullu starfi.

Eins og kunnugt er eru tvær reglur gildandi í sambandi við lífeyrisrétt opinberra starfsmanna. Önnur reglan er sú, að menn geta komist á fullan lífeyri 65 ára gamlir og fá þá fullan lífeyri ef þeir hafa greitt í lífeyrissjóð í 32 ár. Hin reglan er sú, að ef samanlagður starfsaldur og ævialdur nær 95 ára lágmarki geta menn komist á lífeyri um sextugsaldur. Nú er hugsanlegt að maður notfæri sér ekki 95 ára regluna og greiði áframhaldandi eftir að þessum 32 ára tíma lýkur til þess að fá hærra hlutfall, en nýti sér hins vegar réttinn aldrei. Þá er hér gert ráð fyrir að hann eigi þess kost að fá endurgreitt úr sjóðnum.

Samkv. 12. gr. lífeyrislaganna eiga sjóðfélagar í lífeyrissjóðnum rétt á ellilífeyri, þegar þeir láta af störfum vegna aldurs, miðað við það starf sem þeir gegndu síðast, eins og ég hef þegar tekið fram og er einmitt aðalviðfangsefni þessara laga. 4. gr. lýtur raunar einnig að þessu atriði og þar segir skýrt og greinilega hver skuli vera upphæð ellilífeyris, við hvað hann skuli miðaður. Aðalreglan er þar, eins og menn þekkja, að menn fá 2% fyrir hvert ár í fullu starfi, sem iðgjöld hafa verið greidd fyrir, en hlutfallslega lægri upphæð fyrir minna starfshlutfall. Fyrir hvert fullt ársstarf eftir að iðgjaldagreiðslu lýkur og þar til sjóðfélaginn öðlast rétt til að láta af störfum og fá ellilífeyri bætist við 1% af föstum árslaunum fyrir fullt starf, en 2% fyrir hvert fullt ársstarf eftir að iðgjaldagreiðslu er lokið og hann hefur öðlast rétt til að fá lífeyri.

Fleiri greinar lúta að þeim breytingum sem hér er verið að gera og vil ég sérstaklega nefna í því sambandi 6. gr. og 7. gr., en 6. gr. fjallar um makalífeyri. Í þeirri nýju grein, sem hér er gerð till. um, er gert ráð fyrir að upphæð makalífeyris sé helmingur af áunnum lífeyrisrétti hins látna sjóðfélaga. Hafi hinn látni sjóðfélagi verið í starfi er veitir honum aðild að sjóðnum við andlátið eða hafið töku lífeyris úr sjóðnum fyrir andlátið, hækkar makalífeyririnn um 20% af launum þeim sem hann miðast við. Sama gildir hafi hinn látni sjóðfélagi greitt iðgjöld til sjóðsins sem nemur iðgjaldagreiðslum af fullu starfi í 15 ár eða meira, enda hafi hann ekki greitt iðgjöld til annars lífeyrissjóðs eftir að greiðslum til þessa sjóðs lauk.

Raunin hefur verið sú, að makalífeyrisréttur hefur verið helmingur af áunnum lífeyrisrétti hins látna sjóðfélaga að viðbættum 20% af þeim launum sem ellilífeyrir hans hefði verið miðaður við. Þær breytingar, sem felast í 7. gr. þessa lagafrv., munu, ef að lögum verða, auka verulega ellilífeyrisrétt þeirra sjóðfélaga, sem hafa verið skemur en 15 ár í sjóðnum, en náð þó þriggja ára lágmarkinu, eins og síðar verður vikið að, og hafa þá hætt aðild sinni þar af öðrum ástæðum en elli og örorku. Lífeyrisréttur maka þeirra sjóðfélaga hækkar þá sjálfkrafa að sama skapi. Því er lagt til að 20% viðbótarlífeyririnn falli niður í þessum tilvikum nema hinn látni sjóðfélagi hafi greitt iðgjöld til sjóðsins af fullu starfi í 15 ár eða meira og ekki greitt iðgjöld til annars lífeyrissjóðs eftir að greiðslum til þessa sjóðs lauk.

Vissulega er ljóst af því sem ég hef hér sagt, að þessi breyting er í raun og veru skerðing á rétti sjóðfélaga. Hún er skerðing á þeim rétti sem þeir mundu hugsanlega öðlast við aðra breytingu sem gerð er á frv.

Eins og ég gat um er gerð sú breyting samkv. 7. gr. frv. að menn njóta verðtryggðs lífeyris eftir að þeir hafa verið 3 ár í störfum hjá ríkissjóði eða ríkisstofnunum. En í dag er það svo, að menn geta verið allt að 15 ár í störfum hjá ríkinu án þess að njóta verðtryggðs lífeyris. 7. gr. er sem sagt veruleg réttarbót fyrir sjóðfélaga með því að verið er að færa þetta lágmark úr 15 árum niður í 3 ár, og er ekki hægt að sjá nokkra sanngirni í því að menn þurfi að hafa verið 15 ár í störfum hjá ríkinu til þess að njóta verðtryggðs lífeyris, en 6. gr., sem ég var að mæla fyrir hér rétt áðan, felur það í sér að makar þessara manna, sem eru í störfum hjá ríkinu 3–15 ár, fá ekki aukinn rétt við þann rétt sem starfsmennirnir sjálfir fá við að hafa verið skemur en 15 ár í störfum. Það þykir sem sagt ekki eðlilegt að þessi sérstöku hlunnindi makanna, að þeir fá 20% viðbót við hálfan lífeyrinn, gildi alveg óháð því hvað maðurinn hefur verið lengi í störfum. T.d. hefur maður verið 3–4 ár í störfum, svo að maður taki dæmi, en hættir svo. Síðan líða kannske nokkrir áratugir og þá deyr hann. Þá vaknar upp réttur makans til þess að fá 20% lífeyri eftir hinn látna, þó að hann hefði sjálfur aldrei getað fengið nema brot af þessum réttindum þegar hann hefði komist á ellilífeyrisaldur.

Þessar tvær greinar eru sem sagt samtengdar, 6. gr. og 7. gr. 7. gr. felur í sér ótvíræða réttarbót í þágu opinberra starfsmanna á þann hátt, að menn þurfi ekki að bíða 15 ár eftir því að fá verðtryggðan lífeyri. Þeir þurfa aðeins að hafa verið í störfum hjá ríkinu í 3 ár til þess, en réttur maka til að fá 20% af launum eftir að hinn opinberi starfsmaður hefur fallið frá er áframhaldandi bundinn við að maðurinn hafi verið í störfum í a.m.k. 15 ár, enda þykir ekki eðlilegt að makinn öðlist meiri rétt en lífeyrisþeginn sjálfur gat öðlast vegna starfa sinna í þágu ríkisins. Þetta kann að þykja nokkuð snúið og flókið, en þarna hefur sjóðstjórnin kannað þetta mál alveg niður í kjölinn og kemst að þeirri niðurstöðu að vissulega verði að gera breytingar í báðar áttir, ef fyllstu sanngirni og fyllsta réttlætis eigi að gæta í þessu sambandi.

Að lokum vil ég benda á 8. gr. frv., sem er ákaflega mikilvæg grein frá sjónarmiði ríkisins, en þar segir, með leyfi forseta:

„Lífeyrissjóðurinn skal ávaxta a.m.k. 40% af heildarútlánum sínum í verðtryggðum skuldabréfum ríkissjóðs, enda ábyrgist og greiði ríkissjóður og aðrir þeir launagreiðendur, sem aðilar eru að sjóðnum samkv. 4. gr. laganna, einungis þann hluta hækkunar lífeyrisins sem lífeyrissjóðurinn getur ekki risið undir með tekjum sínum af vöxtum og verðbótum af þessum 40% af verðtryggðum heildarútlánum.“

Hér er sem sagt verið að skuldbinda lífeyrissjóðinn til að ávaxta eigi minna en 40% af heildarútlánum sínum í verðtryggðum skuldabréfum ríkissjóðs. Það hefur tíðkast um nokkurt skeið, líklega síðan lögunum var seinast breytt 1980, að lífeyrissjóðurinn taki á sig þá kvöð að ávaxta hluta af útlánum sínum í verðtryggðum skuldabréfum ríkissjóðs, en með þessu frv. er sú kvöð stórlega aukin. Hins vegar er ótvírætt að ekki er þetta lakari ávöxtun en sú að lána sjóðfélögum fé sjóðsins. Þetta er að sjálfsögðu heldur hagstæðari ávöxtun, enda eru verðtryggð skuldabréf ríkissjóðs með allra hagstæðustu lánakjörum sem tíðkast á markaðnum. Það var hins vegar samdóma álit stjórnarinnar að mæla með því að á þetta yrði fallist og vil ég mjög eindregið fagna því, að sú hefur orðið niðurstaðan, því að þetta er mjög hagstætt um leið fyrir lánsfjáráætlun ríkisins hverju sinni.

Herra forseti. Ég hef hér gert grein fyrir þeim breytingum sem felast í þessu frv. Meginbreytingarnar eru fyrst og fremst þessar, að tekin er upp ný viðmiðun hvað snertir greiðsluhlutfall til sjóðfélaga og er nú miðað við það starfshlutfall sem fundið er út miðað við starf mannsins yfir ævina alla. Einnig er verðtryggður lífeyrir nú til boða, jafnvel þótt menn hafi verið skemur í störfum hjá ríkinu en 15 ár, þó menn fari niður í 3 ár, og stærri hluti af heildarútlánum lífeyrissjóðsins er nú ávaxtaður með verðtryggðum skuldabréfum ríkissjóðs. Þetta mundi ég hiklaust telja langmikilvægustu ákvæðin sem felast í þessu frv.

Önnur ákvæði eru meira eða minna afleiðing af þessum þremur meginbreytingum sem ég hef gert hér að umtalsefni.

Herra forseti. Ég læt þessi orð nægja, en vil mjög eindregið hvetja hv. fjh.- og viðskn. til að hraða störfum sínum að þessu frv., sem alger samstaða varð um í stjórn sjóðsins, þannig að sem fyrst megi afgreiða þetta mál héðan frá deildinni, og ég legg mjög mikla áherslu á að frv. þetta geti orðið að lögum á þessum vetri.