19.01.1983
Neðri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

Um þingsköp

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að vekja athygli á því að þessi þingskapaumræða verður m.a. til vegna deilna á meðal þm. Sjálfstfl. á Alþingi. Ég vil að það komi skýrt fram að þessi undarlegi geðklofi í Sjálfstfl., sem við verðum vitni að á hverjum einasta degi, er stöðugt að taka á sig nýjar myndir. Ég vil vekja athygli á því að einhver mesti skollaleikur sem nú er að gerast í pólitík er sá, að það virðist svo sem flokknum sé að takast að ná í fylgi fyrir bæði sjálfstæðismenn stjórnarandstöðu og stjórnar. Ég held að þetta ósamkomulag þessara ágætu þm. Sjálfstfl. hér í þingi sé kannske einhver alvarlegasti dragbíturinn á störf þingsins. Ég vil segja það, að það skyldi þó ekki fara svo, eftir allar ádeilurnar á hæstv. forsrh., að það komi nú í ljós að hann verði einhver styrkasti stuðningsmaður Sjálfstfl. og sá sem dregur meira fylgi að honum en nokkur annar maður. A.m.k. sýnast mér prófkjör síðustu daga hafa leitt þetta í ljós.

Ég vil að þetta komi skýrt fram og menn geri sér ljóst að þetta spil Sjálfstfl. innan stjórnarandstöðu og ríkisstj. er auðvitað í augum allra manna, sem átta sig á því hvað er að ske, að verða bráðskemmtilegur skrípaleikur. Svo rennur allt í ljúfa löð eftir kosningar.

Herra forseti. Ég vildi bara benda á þetta vegna þess að þessi geðklofi, sem ég svo kalla, er að verða svo augljós og hann hefur oft og tíðum að undanförnu tafið svo fyrir þingstörfum að við hljótum að verða að vekja athygli á honum.