19.01.1983
Neðri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

Um þingsköp

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa sérstökum vonbrigðum mínum yfir málflutningi hæstv. forsrh. áðan. Í máli hans komu fram slíkir endemis útúrsnúningar á því sem ég hafði sagt, að ég hef sjaldan heyrt annað eins satt að segja. Hann þóttist vera að gera rökstuðning minn að umræðuefni en talaði um allt annað mál en ég hafði talað.

Ég gerði fjarveru hv. formanns fjh.- og viðskn. að umræðuefni, rökstuddi mína beiðni um frestun með því að hv. formaður fjh.- og viðskn. væri erlendis. Ég tók skýrt fram að ég væri ekki að gagnrýna þessa fjarveru hans, vegna þess að hann er í erindum Alþingis. Ég nefndi einnig að hv. varaformaður n., Guðmundur J. Guðmundsson, væri erlendis og hann gæti þess vegna ekki kallað nefndina saman í fjarveru formanns. Ég var ekki að gera fjarveru þeirra að umræðuefni vegna þess að ég teldi að þm. þyrftu að spyrja þessa menn einhvers við 1. umr. málsins, eins og hæstv. forsrh. sagði að ég hefði gert. Þetta er alrangt. Ég sagði að ég teldi æskilegt að þeir væru hér til þess að hlusta en ekki til þess að svara einhverjum spurningum. Það er allt annað mál. Þetta eru mennirnir sem eiga að leiða málið í þingnefndinni og eiga þess vegna að vera við þegar 1. umr. fer fram.

Síðan gerir hæstv. forsrh. mál úr því að ég hafi — ja, mér skildist á honum að það hafi verið rökstuðningur fyrir mínu máli að ekki væri hægt að kalla nefndina saman fyrr en tveimur dögum eftir að málinu hefði verið vísað til nefndar. Þetta var ekki minn rökstuðningur fyrir beiðninni, alls ekki. Ég minntist ekki einu orði á að það væri eitthvað aðfinnsluvert. Ég sagði hins vegar að ég sæi enga ástæðu til þess að vera að flýta afgreiðslu málsins hér við l. umr., vegna þess að það lægi ekkert á, það væri ekki hægt að halda fund í nefndinni. Það hefur komið hér fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að formaður n. hringdi frá Stokkhólmi og boðaði fund á föstudagsmorguninn. Það hefur líka komið fram að ákveðnir nm. í fjh.- og viðskn. geta ekki mætt þennan dag, því hefur verið lýst hér rækilega, þannig að ég get ekki séð að það verði neinn fundur á föstudag. Hann getur varla orðið fyrr en á mánudag.

Svo segir hæstv. forsrh. að þessar ástæður, sem ég færi fram fyrir beiðni minni, séu einskis virði. Það sé allt annað sem fyrir mér vaki. Það sé að reyna að tefja málið af sérstökum ástæðum sem öllum eru kunnar. Hverjar eru þessar ástæður? Ég held að hæstv, forsrh. ætti að skýra það hér beinum orðum, en vera ekkert að tala undir rós.

Það sem hefur komið fram hér í þessum umr. er það að staðfest hefur verið að það er hæstv. forsrh. sem vill ekki samkomulag, sem gæti greitt fyrir þingstörfum, hann vill það ekki. Það hefur verið lýst hér þeim fundi, sem fram fór núna skömmu fyrir þingfund með forsetum og formönnum þingflokka, þar sem skýrt kom fram að menn væru reiðubúnir að greiða fyrir afgreiðslu þessa máls á mánudaginn kemur. Ég get lýst því hér yfir, að það verður ekki gerð nein tilraun af hálfu sjálfstæðismanna á mánudaginn til að tefja þetta mál. Menn þurfa hér eðlilegan tíma til að ræða það efnislega og ég trúi því að mánudagurinn dugi til þess. Ef ekki dagurinn sjálfur, þá vænti ég að menn hafi þrek til þess að vera hér á fundi um kvöldið, á mánudagskvöld. Hvað er þá unnið við þetta annað en það að vera hér að þrátta um einskisverða hluti í raun og veru? Það er verið að sýna hver hefur valdið hér á Alþingi. Hæstv. forsrh. vill láta það koma svo skýrt fram sem.verða má að það er hann, sem ræður hér vinnubrögðum, en ekki forsetar þingsins og þaðan af síður náttúrulega formenn þingflokka, þeir eiga ekkert að koma þar nærri.

Ég vil svo lýsa því yfir að ég tek ekki við neinum slettum eða útúrsnúningum frá hæstv. forsrh. um þetta efni. Ég get ítrekað hér mínar spurningar. Er eitthvert ákvæði í þessu frv. sem ekki hefur enn komið til framkvæmda? Eða er von á brtt. sem kallar á skjóta afgreiðslu Alþingis? Ég spurði að þessu áðan og ég hef ekki fengið nein svör. Það kemur ekkert annað fram en það, að það á að knýja fram 1. umr. hér með óeiningu milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Ég nefni það svo enn, sem raunar hefur komið hér fram í umr., að afgreiðslu málsins var flýtt í hv. Ed. í gær með samkomulagi milli þingflokkanna. Það samkomulag var gert á þeirri forsendu að nefndir beggja deilda störfuðu saman að athugun á þeim atriðum sem ekki fengust athuguð við meðferð málsins í hv. Ed. Ef þetta samkomutag hefði ekki verið gert í Ed, í gær, þá fullyrði ég að málið væri þar ennþá í umr. Og hvað er þá unnið?

Þrátt fyrir ræðu hæstv. forsrh. ítreka ég enn þá kröfu mína og ósk að þessu máli verði frestað til mánudags. Það hefur engan tilgang að vera að hefja 1. umr. hér og nú. Það er aðeins rúmur klukkutími þar til þingflokksfundir hefjast og það er einsýnt að umr. verður ekki lokið þó hún hefjist nú fyrir kl. 4.