19.01.1983
Neðri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

Um þingsköp

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Það þing sem nú situr hefur verið um margt mjög sérstakt og einkennilegt. Ringulreið í afgreiðslu og meðferð mála hefur verið með eindæmum. Ég held að það sé öllum ljóst að ástæða þess er sú, að sú verkstjórn sem hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmenn hér á Alþingi eiga að hafa hefur með öllu brugðist. Það hefur þess vegna verið brugðið á það ráð nú í ríkari mæli en ég hygg að nokkurn tíma hafi verið gert áður, a.m.k. upp á síðkastið, þá meina ég nú nokkur ár aftur í tímann, að reynt hefur verið að ná samkomulagi um þingstörf á milli flokka. Það hefur gerst á þann veg að formenn þingflokka og forsetar þingsins hafa haft með sér tíða fundi til þess að reyna að ná samkomulagi um það hvernig mál gætu gengið hér fram.

Ég segi fyrir mig að mér finnst stundum að hv. 3. þm. Reykn., formaður þingflokks Sjálfstfl., hafi stundum gengið fulllangt í því að ganga til samkomulags við hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar um það hvernig mál mættu ná fram að ganga hér á hv. Alþingi. Formaður þingflokks Sjálfstfl. hefur hvað eftir annað komið inn á fundi í okkar þingflokki til að skýra frá tilmælum hæstv. ríkisstj. og tilmælum stuðningsflokka hennar um hvernig haga skyldi afgreiðslu einstakra mála. Hann hefur sýnt greinilega mikla lipurð í því. Við höfum rætt þessi tilmæli, oft ekki verið sammála í þingflokknum um hvernig við þeim skyldi bregðast, en ég hygg þó að öll þessi mál hafi verið leyst hingað til á þessu þingi á þann veg, að sæmilegur friður hefur verið meðal þm. stjórnar og stjórnarandstöðu um það hvernig mál nái fram að ganga. Ég segi sæmilegur friður, því að við höfum ekki lent í miklum ágreiningi um slíkt hér á þessu annars dapurlega þingi.

Formaður þingflokks Sjálfstfl. rakti hér áðan ástæður fyrir þeirri beiðni okkar sjálfstæðismanna að þessi umr. fari ekki fram fyrr en á mánudag. Hann flutti full rök fyrir sínu máli og þær ástæður voru allar eðlilegar og hefði reyndar hver um sig átt að geta dugað. En hæstv. forsrh. brá á það ráð að snúa út úr þessum tilmælum og þeim rökum sem þingflokksformaður okkar flutti. Ég segi fyrir mig, mér finnst það t.d. óverjandi að í stórmáli sem þessu, sem snertir meginþætti íslensks efnahagslífs, skuli vera ætlast til þess að 1. umr. fari fram, að þm. flytji aths. sínar við þetta frv. án þess að formaður og varaformaður n. séu viðstaddir. Ekki vegna þess að við viljum beina til þeirra einhverjum fsp., heldur vegna þess að það er sjálfsögð og eðlileg virðing við þá þm. sem vilja ræða málið, við þá þm. sem vilja gera aths., að formaður og varaformaður þessarar nefndar hlýði á þeirra mál og geti a.m.k. gefið því gaum sem fram kemur í aths. einstakra þm. Annað er óvirðing við þingið. Annað er óvirðing við þm. þá sem vilja láta þetta mikilvæga mál til sín taka.

Ég tek það alveg skýrt fram að við sjálfstæðismenn viljum ekki tefja þetta mál. Við höfum ekki gert það hingað til, þar hafa aðrir verið að verki. Það eru nú um það bil sex mánuðir síðan þessi brbl. voru sett. Það er hálft ár síðan brbl. voru sett og við sjálfstæðismenn óskuðum eftir því þá þegar að Alþingi yrði kvatt saman til þess að hægt væri að afgreiða það mál hér á Alþingi. Það er því ekki við okkur að sakast að það hefur dregist í hálft ár að afgreiða þetta mál hér á hv. Alþingi. Þar er við aðra að sakast. Þar er við hæstv. ríkisstj. að sakast, þar er við að sakast stuðningsflokka ríkisstj., sem enn eru innbyrðis ósammála um veigamikla þætti sem tengjast þessu máli, eins og t.d. vísitölumálið.

Við hefðum að sjálfsögðu, ef við hefðum viljað tefja þetta mál, getað gert það. Við hefðum þá ekki tekið í mál að gera samkomulag í gær um óvenjuskjótan framgang málsins í Ed., bæði við 2. og 3. umr., sem fram fóru sama dag. Við hefðum að sjálfsögðu notað tækifærið þá til þess að ræða þetta mál mun betur, ef það hefði verið áhugi okkar eða ósk að tefja þetta mál. Það viljum við ekki. Okkar eina ósk er sú, að þessi umr. fari ekki fram fyrr en á mánudag, þannig að hér sé fullskipað í deildinni og menn geti rætt af fullum þunga að viðstöddum þeim nm. sem um þetta mál eiga að fjalla. Og við getum alveg gert okkur fulla grein fyrir því, það veit hæstv. forsrh. vafalaust manna best, að ef við sjálfstæðismenn ætlum að tefja þetta mál, þá getum við það ennþá. Við höfum fulla möguleika á því, bæði í þeirri nefnd sem með þetta mál hefur að gera og í þeim umr. sem hér eiga eftir að fara fram. Það er hins vegar ekki okkar ósk. Það er ekki okkar vilji að tefja málið á neinn hátt. Við höfum aðeins borið fram þessa einu ósk, sem við teljum sanngjarna og eðlilega, eins og á stendur.

En hér hefur nú, með þeirri ákvörðun sem hæstv. forsrh. greinilega stendur á bak við, verið rofinn sá friður sem verið hefur til þessa um störf þessa þings. Og ég segi fyrir mig að ég tel ekki ástæðu til þess að formaður þingflokks Sjálfstfl. sitji fundi dag eftir dag til þess að ræða við formenn annarra þingflokka eða forseta þingsins um gang mála hér i þingi. Ég mun a.m.k. innan míns þingflokks ekki taka þeim beiðnum sem hann ber inn á okkar borð jafn vel og gert hefur verið hingað til, eftir það sem hér hefur gerst í dag. Með þessari framkomu er rofinn friður um störf þessa þings.