19.01.1983
Neðri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

Um þingsköp

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki verða til þess að lengja þessa umr. hér. En það er vissulega orðið tímabært að ræða almennt um þingsköp, og á ég þá ekki við það sem er að gerast í dag og gerðist í gær, heldur um störf þingsins hér í vetur. Það er auðvitað raunalegt fyrir hvern einasta þm., sem vill virðingu þessa þings sem mesta, að horfa upp á það sem hér hefur verið að gerast. Og núna er þingið í algeru uppnámi, það verður að segja það eins og er. Það er á mörkunum að hægt sé að setja þingfundi, þm. eru að sinna öðrum verkefnum af öðrum ástæðum og stjórnin á þinginu er gersamlega fyrir neðan allar hellur.

Ég er þeirrar skoðunar að ef menn ætla að gera alvöru úr því að halda þessum þingstörfum áfram á sómasamlegan hátt, þá verði þeir að gera svo vel að setjast niður og ná einhverju heildarsamkomulagi, því að þessi vinnubrögð bara duga ekki og ganga ekki lengur. Það er þinginu til háborinnar skammar hvernig hér er starfað dag eftir dag. Þm. eru úti í hornum, ræða þar vandamál sín á milli, fara ekki upp í stól og skýra frá þeim eins og þeir tala um þau. Það eru allir þm. jafngáttaðir á þessum þingstörfum eins og þau hafa verið skipulögð að undanförnu. Þetta þing hefur nákvæmlega engu komið frá sér. Það hefur engin verk unnið í allan heila vetur nema afgreiða bráðnauðsynlegustu lög. Annað hefur ekki verið gert.

Ég held, herra forseti, að menn ættu bara að tala opinskátt um það sem hér er að gerast. Það sem er að gerast er það að ríkisstj. óttast um sinn hag vegna þess að það hafa orðið breytingar á þingliðinu. Þetta er nákvæmlega það sem er að gerast. Þess vegna eru þessar tafir boðaðar og þess vegna er þvælst fyrir. Ég held að menn verði að horfast í augu við það að þessi þingstörf, eins og þau nú eru, eru bara ekki líðanleg, þau geta ekki gengið svo áfram. Þeir þm. sem sinna sinni þingskyldu koma hér dag eftir dag til þingfunda. Þeir koma hingað og horfa í gaupnir sér. Það er ekkert verið að gera, það er ekki stefnt að neinu marki. Og eins og ég sagði áðan, ég held að allir ærukærir þm. ættu nú að setjast niður og reyna að ná einhverju heildarsamkomulagi um það hvernig við ætlum að ljúka þessum þingstörfum yfirleitt.

Nú styttist óðum í það að fjöldi þm. fer á fund Norðurlandaráðs. Þá verður þingið óstarfhæft í hálfan mánuð. Gera menn sér grein fyrir því? Hvenær á þingið að taka til höndum við þau verkefni sem því er ætlað að vinna að? Við siglum hér svo sofandi að feigðarósi, að ekki tekur nokkru tali. Þjóðfélagið er bókstaflega að fara á hausinn hér utan veggja þinghússins og hér er ekkert gert, ekki nokkur skapaður hlutur. Og það er verið að ræða um brbl. sem raunverulega eru komin í framkvæmd. Að vera að tefja sig á því, til hvers? Hvaða raunsæi er fólgið í því? Þessi þingstörf eru að verða okkur öllum til háborinnar skammar. Það skyldi hver maður skoða það mál í huga sér og spyrja sig þeirrar spurningar hvort hann sé ekki sammála mér í þeim efnum. Eins og þessar deilur hér í dag, sem raunverulega þjóna engum tilgangi, engum öðrum tilgangi en þeim að segja frá því að samkomulag, sem tekist hafði, hefði verið brotið. Það er raunverulega brotið með valdníðslu að hluta til.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. Ég er ekki vanur að lengja umr. hér á þingi. En það er nú svo komið fyrir mér, ég segi það hreint út, að mér finnst að því nokkur vanvirða að taka þátt í þessum skrípaleik, bara hreint og beint vanvirða að taka þátt í þeim skrípaleik sem hér á sér stað.

Ekki meira um það. Ég ætla að leiðrétta það sem hv. varaformaður Sjálfstfl. sagði hér áðan, þegar hann gerði hv. þm. Vilmund Gylfason að þingflokki. Í mínum þingsköpum stendur að það þurfi a.m.k. tvo þm. til. Það kann að breytast, en ekki er hann orðinn þingflokkur ennþá.