19.01.1983
Neðri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

Um þingsköp

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Þessar umr., sem hér hafa farið fram um þingsköp, eru mjög upplýsandi og skýrt og greinilega hefur komið í ljós að allir formenn þingflokka og þingforsetar hafa talið eðlilegt að fallast á ósk formanns þingflokks Sjálfstfl. um að 1. umr. þessa máls fari fram á mánudaginn. En sá sem stöðvar að þessi ósk fái framgöngu er hæstv. forsrh. einn. Ég harma þessa afstöðu hæstv. forsrh. og beini því einlæglega til hæstv. forsrh. að hann endurskoði afstöðu sína og vil í því sambandi ítreka nokkuð það, sem hér hefur að vísu að nokkru leyti komið fram í máli manna, en það er aðdragandi þessa máls.

Við vitum að þetta frv., sem hér á að vera til umr., er til staðfestingar á brbl. sem sett voru í ágústmánuði. Ég tek undir þau orð hv. 10. þm. Reykv., Friðriks Sophussonar, að ekkert ákvæði þessara brbl. hefur frestast vegna þess að staðfestingarfrv. hefur ekki verið afgreitt á Alþingi. Ég hlýt að ítreka fsp. hv. 3. þm. Reykn., Ólafs G. Einarssonar, þar sem hann spurði hvaða efnislega nauðsyn bæri til þess að 1. umr. færi fram í dag í stað þess á mánudaginn og hverju máli það skipti um framgang málsins eða afgreiðslu yfirleitt.

Ég hlýt að ítreka það og endurtaka, að í þingflokki sjálfstæðismanna var það til umr. hvernig með málið skyldi farið í Ed. Alþingis. Á það var lögð áhersla af stjórnarliðinu að málið væri afgreitt, bæði við 2. og 3. umr., á einum degi. Á það var fallist með tilvísun til þess að heitið var að þau málefni sem við vildum sérstaklega að tekin væru fyrir yrðu upplýst við meðferð málsins í Nd., en þau eru í raun þess eðlis, þessir málaþættir, sem við teljum vanupplýsta, að ástæða er til að krefjast þess að fyrir liggi fyrirætlanir ríkisstj. og greinargerð áður en málið er tekið til meðferðar eftir þinghlé, bæði í Ed. og í Nd. Þegar við þess vegna höfum fallist á að afgreiða málið úr Ed. með óvenjulega miklum hraða, vegna þess að það er svo mikilvægt mál sem hér um ræðir, þá er það hrein undantekning að bæði 2. og 3. umr. fari fram sama daginn, og er raunar lágmarkskurteisi og var venja í Ed., þegar ég átti þar sæti undir forsæti hv. 4. þm. Vestf., Þorv. Garðars Kristjánssonar, að sýna þdm. þá virðingu að dagur liði á milli umr. En látum það vera. Inn á þetta gengum við samkv. beiðni stjórnarliðsins, en þegar við svo förum hæversklega fram á að 1. umr. verði á mánudag og þegar upplýst er að það tefur ekki afgreiðslu málsins nema um einn dag í raun og veru, þá gegnir það mikilli furðu ef hæstv. forsrh. endurskoðar ekki afstöðu sína og ætlar sér að ganga í móti því sem ekki eingöngu formaður þingflokks Sjálfstfl. hefur farið fram á, heldur aðrir þingflokksformenn og forsetar þingsins hafa fyrir sitt leyti fallist á.

Ég vil rifja það upp, að meðan þetta frv. hefur verið til meðferðar í Ed. og eftir að það var rætt fyrir jólaleyfi hefur tvennt komið þar fram, sem sérstök ástæða er til að fjalla mjög ítarlega um.

Við sjálfstæðismenn höfum í þinghléi, bæði formaður þingflokks okkar og ég sem formaður flokksins, gert kröfu til þess að Alþingi fjallaði sérstaklega um þá reglugerð sem sett hefur verið um láglaunabætur. Framkvæmd þeirrar reglugerðar kom ekki í raun í ljós fyrr en þingleyfi hófst og sú framkvæmd hefur verið með þeim endemum að full ástæða er til að Alþingi fjalli um þessa reglugerð. Það er út af fyrir sig mjög óvenjulegt og á það drepið í áliti prófessors Sigurðar Líndals varðandi þessi brbl., að um réttindaafsal Alþingis í hendur framkvæmdavaldinu er að ræða og þetta réttindaafsal hefur haft í för með sér að framkvæmdavaldið hefur gefið út reglugerð sem hefur valdið slíkri gagnrýni og slíku misrétti að menn ljúka í raun og veru upp einum munni þar um. Það hefði verið ástæða til þess, eins og hér hefur komið fram fyrr í umr., að hæstv. fjmrh. gæfi skýrslu og gerði grein fyrir þessari reglugerð og framkvæmd hennar, ekki síst þar sem hér er um fyrsta áfanga útborgunar láglaunabóta að ræða og ætlunin væntanlega, miðað við yfirlýsingar ríkisstj., að halda áfram útborgun slíkra láglaunabóta á þessu ári.

Það hefði í raun og veru verið lágmarkskrafa, að fyrir lægi grg. um þessi efni og rannsókn fjh.- og viðskn. Ed. um þessa framkvæmd áður en málið var afgreitt úr Ed. En fyrir beiðni stjórnarliðsins og hæstv. ríkisstj. féllumst við sjálfstæðismenn á það þrátt fyrir allt, að málið fen i afgreiðslu í Ed. og yrði síðan kannað í Nd.

Ég nefni einnig í þessu sambandi annan þátt mála, sem í ljós hefur komið eftir að jólaleyfi þm. hófst, og það er yfirlýsing hæstv. sjútvrh. um að hann boðaði brtt. um ráðstöfun gengismunarsjóðs í og með af því að gengismunur reyndist meiri en áður var gert ráð fyrir, en ráðstöfun samkv. því sem hæstv. sjútvrh. hefur gefið til kynna er með slíkum hætti að einsdæmi er og óviðunandi með öllu.

Það væri tilefni til umr. utan dagskrár út af fyrir sig að ræða stöðvun atvinnufyrirtækja víða um land, sem auðvitað er afleiðing af óstjórn hæstv. ríkisstj. og á sér stað þrátt fyrir að brbl. þau sem á dagskrá eru hafi gengið í gildi og þrátt fyrir að þau áttu öllu að bjarga, eftir því sem formælendur ríkisstj. sögðu í ágústmánuði s.l. þegar þau voru gefin út.

Það væri fullkomin ástæða til að ræða það hér utan dagskrár, hvers konar handahófsvinnubrögð ríkisstj. leggur fyrir stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins fram hjá Alþingi og ætlast til þess að fjármunum sé ráðstafað sem ekki er enn búið að ákveða af réttum aðilum hvernig ráðstafa á, þ.e. löggjafarvaldinu.

Við höfum beint fsp. til ráðh. varðandi þá fyrirætlun þeirra að gera brtt. um ráðstöfun gengismunar, en ekki fengið svar. Það hefði verið tágmarkskrafa í raun og veru af okkar hálfu í stjórnarandstöðu að krefjast þess að mál þetta yrði rætt og upplýst í Ed., þar sem afgreiðsla frv. hafði ekki farið fram. Við féllum frá þessari kröfu og féllumst á að afgreiða málið úr Ed. í trausti þess að réttmætt tillit yrði tekið til óska okkar um meðferð þessa frv. hér í Nd. Það skýtur því skökku við sanngirni okkar í stjórnarandstöðu varðandi meðferð þessa máls, sú ósanngirni, sem virðist eig að beita stjórnarandstöðuna varðandi ósk hennar um meðferð málsins hér í Nd., og ég trúi ekki öðru en hæst. forsrh. endurskoði afstöðu sína að þessu leyti.

Við sjálfstæðismenn höfum líka sagt að áður en þetta frv. væri tekið til umræðu þegar í upphafi í Ed. væri eðlilegt að fylgifrv. sæju dagsins ljós, sem samkvæmt yfirlýsingu ríkisstj. frá 21. ágúst s.l. var sagt að mundu fylgja þessum brbl., og þá á ég við frv. um viðmiðun nýrrar vísitölu, þ.e. hvernig reikna skyldi kaupgjaldsvísitölu eftir að neyslugrunnur framfærsluvísitölunnar hefur verið endurskoðaður. Um það hefur ekkert heyrst og um það hefur þó verið spurt, síðast í umr. rétt áðan.

Það hefði sömuleiðis verið ástæða, ef brbl. hafa slíka þýðingu varðandi efnahagsástand og lausn efnahagsvanda sem af er látið af formælendum þeirra, að spyrjast enn á ný fyrir um hvað líður fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. Þegar fjárlögin voru lögð fram sagði hæstv. fjmrh. að fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin yrði lögð fram innan nokkurra vikna. Þetta mun hafa verið í byrjun nóvembermánaðar, ef ég man rétt. Umræður urðu um þetta hér á Alþingi fyrir jólaleyfi, og þá kvaðst hæstv. fjmrh., þrátt fyrir fyrra loforð sitt og fyrirheit og þrátt fyrir að í svokölluðum Ólafslögum sé sú lagaskylda á ríkisstj. að leggja fram fjárfestingar- og lánsfjáráætlun með fjárlagafrv., ekki geta lofað framlagningu fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar fyrir jólaleyfi. En það var gengið út frá því, og orð fjmrh. gáfu það fyllilega í skyn, að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun lægi á borðum þm. þegar jólaleyfi lyki. Því væri tilefni til umr. utan dagskrár sú staðreynd ein, að þessi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hefur ekki séð dagsins ljós og er ekki enn komin á borð þm. Ef við erum hér að ræða um frv. til l. um efnahagsaðgerðir er það lágmarkskrafa, ef við viljum fá heildarmynd af efnahagsmálum og viðhorfum í þeim efnum og útliti og framtíðarhorfum, að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sé til staðar.

Mér hefur borist í hendur afrit af áætlun Þjóðhagsstofnunar, dagsettri 17. janúar, til ríkisstj., þar sem er gerð grein fyrir framreikningi framfærsluvísitölu og kauptaxta á árinu 1983. Helstu niðurstöður þessarar áætlunar um verðbólgu eru þær, að hún verði 65 til 70% fyrri hluta ársins, fari yfir 70% um mitt ár, en gæti orðið minni síðustu mánuði ársins. Sagt er að hjöðnunin sé þó eingöngu undir því komin, miðað við forsendur dæmisins, að engin sérstök verðbólgutilefni komi fram, svo sem meiri háttar gengisbreytingar eða grunnkaupshækkanir. Samkv. fyrri reynslu, er þó sagt, virðist óvarlegt að treysta á slíka hjöðnun án sérstakra ráðstafana. Það skal tekið fram, að þessi áætlun er byggð á því að brbl. og áhrif þeirra og aðgerðir nái fram að ganga að fullu og öllu.

Hvað ætlast hæstv. ríkisstj. fyrir og hvaða máli skiptir hvort þetta frv. hlýtur afgreiðslu Alþingis deginum fyrr eða síðar? Það má alls ekki verða við réttlátum og sanngjörnum óskum stjórnarandstöðunnar. Það er verið að tala um ábyrgð og krefjast ábyrgðar stjórnarandstöðu. Ég vil fyrir hönd míns flokks ekki skjóta okkur undan slíkri ábyrgð, og við gerum okkur ljósa grein fyrir þeirri ábyrgð sem á stjórnarandstöðu hvílir, en það verður þó fyrst og fremst að gera kröfu um að ríkisstj. beri ábyrgð og standi reikningsskil gerða sinna, að ríkisstj. geri sér grein fyrir stöðu sinni. Einn þáttur í ábyrgðartilfinningu ríkisstj. hlýtur að vera að sýna sanngirni í meðferð mála og taka tillit til óska stjórnarandstöðu, einkum og sérstaklega þegar það hefur komið alveg skýrt í ljós í þessum umr. utan dagskrár að það hefur ekki efnisáhrif að verða við þessum óskum stjórnarandstöðunnar eða Sjálfstfl.

Hér hefur og þeim rökum – í upphafi máls formanns þingflokks Sjálfstfl. — verið beitt fyrir ósk okkar um að 1. umr. um þetta frv. fari ekki fram fyrr en á mánudag, að formaður fjh.- og viðskn. þessarar deildar er ekki viðstaddur í dag. Ennfremur hefur það verið upplýst, að varaformaður n. er ekki þar heldur til staðar. Nú er það eðlileg krafa og raunar sjálfsögð þingskylda nefndaformanna að vera viðstaddir umr. um þau mál sem til n. þeirra er vísað, vegna þess að í 1. umr. um frv. eiga að koma fram þau sjónarmið þm. sem þeir æskja sérstaklega eftir að séu tekin til meðferðar í störfum þingnefndar. Það er lágmarkskrafa og sanngjörn krafa að formenn hlýði á mál þdm. Þótt sumir þdm. eigi sæti í viðkomandi þingnefnd og flokkar eigi þar fulltrúa, þá er ekki til of mikils mælst að formenn n. séu til staðar þó ekki sé nema til þess að hlýða á málflutning manna við 1. umr. svo að unnt sé að beina störfum þn. í þann farveg sem þm. telja nauðsynlegan til þess að afgreiðsla mála geti gengið greiðlega fyrir sig. Ég fullyrði að sú staðreynd að formenn þingnefndar eru ekki viðstaddir, dag, ef 1. umr. ætti hér fram að fara, er til þess fallin að tefja meðferð málsins í þessari deild og þar með lokaafgreiðslu.

Ég bið menn um að líta á þetta með sanngirni og ítreka það enn á ný að ég fæ ekki trúað því, að á ósk formanns þingflokks Sjálfstfl. verði ekki fallist. Og ég tek það fram, að hefði svo verið gert í upphafi hefðu þessar umr. utan dagskrár verið óþarfar. Þær hafa nú staðið í alllangan tíma, svo að aðeins eru eftir 15 til 20 mín. til loka þessa fundur, og það er alveg ljóst að umr. verður ekki lokið í dag, heldur hlýtur hún að frestast. Því skírskota ég enn á ný, með tilvísun til þess að það hefur ekki áhrif á hvenær mál þetta hlýtur afgreiðslu úr deildinni, til þess að orðið sé við ósk formanns þingflokks Sjálfstfl.