20.01.1983
Sameinað þing: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

121. mál, varnir gegn mengun frá skipum

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. Það er raunverulega ekki efnislega sem ég tala um þennan samning sem slíkan, heldur langaði mig að beina þeirri spurningu til hæstv. utanrrh. hvort svo kunni að vera, að við höfum á undanförnum árum undirritað alþjóðlega samninga, sem eiga að koma í veg fyrir mengun sjávar, en vegna þess að þess hafi ekki verið nógsamlega gætt að fjármagn væri útvegað til að fylgja þeim samningum eftir, þ.e. þeirri aðild sem við eigum að þeim samningum, hafi þeir ekki verið eins mikils virði fyrir okkur og samningarnir gefa tilefni til. Mér er þetta mál mjög hugstætt og ég hef nefnt það hér áður að ég hef umtalsverðar áhyggjur af mengun sjávar í nágrenni Íslands.

Ég orðaði það svo fyrir nokkrum mánuðum, þegar þessi mál komu eilítið til umr. hér, að þessi mengunarmál væru þess eðlis að við þyrftum að gefa þeim meiri gaum en við hefðum gert. Þar væri um að ræða það sem kallað er á erlendu máli „dumping“ á hvers konar úrgangsefnum í Norður-Atlantshafið í fyrsta lagi. Í öðru lagi væru það ferðir kjarnorkuknúinna skipa, sem hafa í för með sér nokkra hættu, ekki mikla að vísu, vegna hugsanlegra slysa við losun á kælivatni.

Mér er kunnugt um það, vegna þess að ég hef leitað eftir upplýsingum um það hjá siglingamálastjóra og fengið mjög greinargóða skýrslu frá honum, að hann telur vanta nokkuð á það að t.d. Siglingamálastofnun hafi fengið þau fjárframlög sem nægja henni til að fylgjast með þessu alþjóðlega samstarfi. Og mér er kunnugt um það í sambandi við fund nú fyrir skömmu í Finnlandi þar sem fjallað var um samvinnu á þessu sviði, að siglingamálastofnun hafði ekkert fjármagn til að senda fulltrúa sinn á þá ráðstefnu eða þann fund. Mér er einnig kunnugt um að þeir menn sem með þessi mál fara hér á landi hafa af því umtalsverðar áhyggjur að ekki sé nóg að undirrita alþjóðasamninga um mengunarvarnir, heldur verðum við að vera í stakk búnir til að fylgja þeim eftir. Ég vil nefna sem dæmi að núna er í uppsiglingu mikil áætlun um efnagreiningu sjávar á djúpsævi, starf sem við erum aðilar að, en ég hygg að okkur skorti fjármagn til að geta tekið þátt í því samstarfi.

Nú er ég ekki að gagnrýna einn eða neinn í þessum efnum. Ég vil bara skjóta þessu að og spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann hafi orðið var við það að með undirskrift þessara samninga séum við að undirgangast skuldbindingar sem við vegna fjárskorts getum ekki staðið að fullu við. Ég þykist vita að þetta sé hæstv. utanrrh. og sjútvrh. svipað áhyggjuefni, sú mengunarhætta sem vofir yfir sí og æ og menn eru nú farnir að hafa miklu meiri áhyggjur af en ella, vegna þess að komið hefur í ljós að ýmsar umbúðir utan um úrgangsefni, sem fleygt hefur verið í Norður-Atlantshafið á síðustu árum, hafa verið að gefa sig. Mér er einnig kunnugt um að Greenpeace-samtökin hafa ritað Náttúruverndarráði Íslands bréf og lýst áhyggjum sínum af mengunarmálunum.

Þetta var erindi mitt hingað. Mér þætti vænt um ef hæstv. utanrrh. gæti veitt svör við þessum spurningum.