20.01.1983
Sameinað þing: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

121. mál, varnir gegn mengun frá skipum

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Mér er nú ekki kunnugt um aðra alþjóðasamninga, sem Ísland hafi gerst aðili að, varðandi þetta efni en þann samning sem þarna er vitnað til, um varnir gegn olíumengun, eða varnir gegn óhreinkun sem stafar af völdum olíu. Ég veit að haldnar hafa verið ýmsar ráðstefnur um þessi mál að undanförnu, en get ekki svarað því hvort þær ráðstefnur hafi alltaf verið sóttar af Íslands hálfu. Þær hafa verið sóttar að einhverju leyti, en það má vel vera að það hafi ekki alltaf verið hægt vegna fjárskorts. Þær eru margar þessar ráðstefnur og við reynum að taka þátt í mörgum, en það er erfitt að komast yfir það allt saman.

Það er sjálfsagt að ég reyni að afla upplýsinga um það sem hv. þm. spurði um. Ég mun reyna að afla þeirra upplýsinga fyrir fund utanrmn. svo að fyrir geti legið ítarlegri áætlun um hvaða kostnaður muni leiða af þessu fyrir Ísland. Það er áreiðanlegt að Ísland tekur á sig vissar skuldbindingar með þessu og það getur einhver kostnaður verið því samfara.

Hitt er svo algerlega laukrétt hjá hv. þm., sem ég fór nú ekki nánar út í í þessum inngangsorðum mínum um þennan samning, að mengun í sjónum af völdum ýmiss konar efna, þar á meðal úrgangsefna af ýmsu tagi sem varpað er í sjó, er mönnum stórvaxandi áhyggjuefni. Þessi samningur er náttúrlega sprottinn m.a. af þeim ástæðum, þó að hitt sé rétt, að sú hætta hefur náttúrlega farið gífurlega vaxandi eftir að sá samningur sem hér er um að tefla var þó gerður. Það er þess vegna mikil ástæða til að snúast til varnar gegn því, eftir því sem nokkur kostur er, og það ætla ég að sé reynt að gera með því skipulagi sem sett er upp eftir þessum samningi. Framkvæmd þessara mála og framkvæmd þessa samnings heyrir, eins og hér háttar til um verkaskiptingu, undir Siglingamálastofnun. Ég er nú ekki svo kunnugur því að geti svarað nánar því sem hv. fyrirspyrjandi var að nefna. Það má vel vera að sú stofnun hafi ekki fengið þá fjármuni sem hún hefur óskað eftir og orðið í því efni að sitja við sama borð og margar aðrar stofnanir. Eins og við vitum er erfitt að fullnægja öllum óskum í þessu efni. Það má vera að hæstv. samgrh. hafi frekari upplýsingar um þetta efni. En hvað sem því líður þakka ég hv. þm. fyrir þau orð sem hann lét falla um þetta mál vegna þess að þau undirstrika mjög vel þá brýnu þörf sem er á alþjóðaskipulagi um þessi mál.

Hitt er svo auðvitað, að það fer í þessu efni eins og öðru allmikið eftir framkvæmdinni og hversu fylgt er á eftir. En fyrst er þó að fá ákvæðin sem þetta varða.