20.01.1983
Sameinað þing: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

121. mál, varnir gegn mengun frá skipum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni hér áðan, að Siglingamálastofnun hefur verið mjög aðþrengd með fjármagn, reyndar í mörg ár, og það hefur orðið til þess að samgrn. hefur neyðst til að takmarka t.d. utanferðir og ýmislegt annað hjá stofnuninni, sem æskilegt væri, útgáfustarfsemi o.fl. Við höfum leitað mjög eftir meiri fjárveitingum til stofnunarinnar, m.a. hjá fjvn. nú við afgreiðslu fjárlaga. Þau ár sem ég þekki til hefur verið gerð ítarleg tilraun til þess. Ég geri mér fulla ,grein fyrir því að þar er um þrengingar að ræða almennt og ég er ekki að áfellast fjvn. Það hefur alltaf fengist nokkur úrbót, en staðreyndin er þó sú, að með hausti eða í lok ársins hefur ætíð orðið að rétta hlut stofnunarinnar með mjög verulegri aukafjárveitingu. En að sjálfsögðu hefur á þeim tíma sem þá er liðinn orðið að takmarka umsvif stofnunarinnar að mörgu leyti. Allt hefur það að mínu mati verið mjög skaðlegt þó ég vilji leggja áherslu á að vitanlega verður að gæta mjög að því í rekstri að vel sé farið með fjármagn.