20.01.1983
Sameinað þing: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

121. mál, varnir gegn mengun frá skipum

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka báðum hæstv. ráðh. fyrir svör þeirra. Ég vil endilega vekja athygli þingheims á þessu máli. Það vill nú svo til að við vöktum eitthvert mesta matarforðabúr veraldar, sem er landhelgin okkar, og við nýtum úr þessu matarforðabúri, sem jafnframt er fjöregg þessarar þjóðar. Ég vil endilega að menn gaumgæfi betur en gert hefur verið þær hættur sem að okkur steðja vegna mengunar í hafinu, mengunar sem eykst látlaust eftir því sem úrgangsefni í hafinu aukast, eftir því sem meiru er kastað af úrgangsefnum, ég tala nú ekki um geislavirku úrgangsefni, sem vitað er að hefur verið fleygt í hafið, Norður-Atlantshafið m.a. Ég vildi hvetja menn til að hugleiða þessi mál því að Alþingi Íslendinga þarf að taka þau fastari tökum en gert hefur verið.