20.01.1983
Sameinað þing: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

134. mál, fullgilding samnings um loftmengun

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hér liggur fyrir till. til þál. um fullgildingu samnings um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa. Fyrir allmörgum árum varð ljóst að loftmengun, sem átti upptök sín í verksmiðju í einu landi, gæti haft alvarleg áhrif á lífríki í landi í 1000 km fjarlægð. Erfitt er þó að beita venjulegum þjóðréttarreglum um skaðabótaábyrgð ríkja í slíkum tilfellum þar sem ekki er unnt að tilgreina nákvæmlega hversu mikinn þátt einstakar verksmiðjur eiga í menguninni.

Loftmengunar er sérstaklega getið í umhverfiskafla lokasamþykktar ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu og í framhaldi af starfi ráðstefnunnar voru hafnar víðtækar rannsóknir á áhrifum loftmengunar í Evrópu. Er vikið að því nánar í þeim aths. sem fylgja þáltill.

Samningurinn gerir ráð fyrir víðtæku samstarfi og upplýsingamiðlun, viðræðum, rannsóknum og eftirliti og þess er vænst að þetta samstarf geti leitt til viðunandi lausnar þessa vandamáls. Í 5. gr. segir t.d. að viðræður skuli fara fram milli annars vegar samningsaðila, sem verða fyrir loftmengun sem berst langar leiðir að eða sem hætta er á að verði fyrir slíkri mengun, og hins vegar samningsaðila sem eiga lögsögu þar sem loftmengun á eða gæti átt upptök sín.

Til þess að framfylgja samningnum mynda samningsaðilarnir með sér framkvæmdastofnun á vegum Efnahagsnefndar Evrópu, eins og segir í 10. gr. samningsins.

Ríkisstj. leitar með þessari þáltill. eftir heimild til þess að mega fullgilda þennan samning fyrir Íslands hönd. Samningurinn er frá 13. nóv. 1979.

Það má sjálfsagt segja að sem betur fer hafi Íslendingar ekki orðið mikið varir við mengun af því tagi sem rætt er um í þessari þáttill. Hins vegar er það t.d. mjög brennandi mál á Norðurlöndunum, sumum hverjum a.m.k., sem hafa orðið fyrir mengun af þessum sökum og eru á hættusvæði. Þó að við séum fjarlægari í þessu efni og hættan ekki eins nálæg, þá tel ég sjálfsagt að við gerumst aðilar að þessum samningi.

Því er ekki að leyna að það var mikill áhugi á því, einkanlega hjá Norðurlöndum, að Ísland gerðist aðili að þessum samningi til þess að hann gæti öðlast gildi. Þegar gengið var frá þessari þáltill. og prentaðar voru þær aths. sem fylgja henni höfðu 23 ríki staðfest samninginn, en til þess að hann öðlist gildi þurfa 24 ríki að staðfesta hann. Nú hefur það gerst að vísu að 24 ríki hafa þegar staðfest hann. Samningurinn mun þess vegna öðlast gildi í mars n.k.

Vissulega er hér líka um alvarlegt mál að ræða, eins og það mál sem var til meðferðar hér á undan, þó að það verði sjálfsagt að segja sem svo, að það hafi ekki brunnið eins mikið á okkur og hitt og menn hafi ekki haft af því hér á landi jafn miklar áhyggjur eins og hinni menguninni, sem rætt var um áðan.

Herra forseti. Samningurinn er að sjálfsögðu prentaður með þáltill., sem fylgir með, og ég leyfi mér að vísa til efnis hans þar. Ég leyfi mér svo að óska þess, að umr. verði frestað og till. vísað til utanrmn.