20.01.1983
Sameinað þing: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

75. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um stefnumörkun í landbúnaði, 75. máli þessa þings, sem 19 þm. Sjálfstfl. hafa flutt. Þessi till. í meginatriðum í sama formi og hún er hér í, hefur verið flutt áður tvívegis á Alþingi. Ég hef flutt fyrir henni tvívegis ítarlegar framsöguræður. Af þeirri ástæðu þykir mér ekki bera sérstaka nauðsyn til að ræða eða skýra till. eins nákvæmlega og ella hefði verið gert. Ég vil þó með leyfi forseta lesa hér tillgr. sjálfa sem leggur grundvöll að þeirri stefnu sem hér er túlkuð og er að sjálfsögðu stefna Sjálfstfl. í málefnum landbúnaðarins og dreifðra sveitabyggða yfirleitt.

„I. Treysta skal sjálfseignarábúð bænda á jörðum. Eignarréttur einstaklinga og sveitarfélaga á landi og hlunnindum verði verndaður. Landbúnaðurinn verði jafnan metinn sem sjálfstæður atvinnurekstur þar sem framsýni og hyggindi njóti sín og sú áhætta sem felst í rekstri og uppbyggingu leiði til aðhalds og ábyrgðar.

II. Grundvöllur landbúnaðar, er felst í ræktun landsins, verði treystur og verðmæti jarðargróðurs aukin með nýrri þekkingu og tækni. Unnið verði markvisst að aukinni hagkvæmni í landbúnaðinum ásamt fjölbreytni í framleiðslu og fullvinnslu búvara.

III. Framleiðsla landbúnaðarafurða miðist fyrst og fremst við það að fullnægt verði þörfum þjóðarinnar fyrir neysluvörur og hráefni til iðnaðar. Auk þess verði tekið fullt tillit til þjóðhagslegs gildis þeirra atvinnutækifæra annarra sem landbúnaðarframleiðslan veitir.

IV. Áhersla verði lögð á að treysta byggð í sveitum landsins. Miðað verði við að hefðbundnar búgreinar ásamt aukinni nýtingu hlunninda fullnægi atvinnuþörf sveitanna í núverandi mynd, en nýjar búgreinar og aukin atvinnutækifæri, m.a. í iðnaði og þjónustugreinum, auki á styrk byggðar í sveitum landsins.

V. Landbúnaðinum verði búin þau skilyrði að unnt sé að tryggja bændum sambærileg lífskjör við aðrar fjölmennar stéttir þjóðfélagsins.

VI. Íbúum sveitanna verði með lögum veitt sambærileg félagsleg réttindi og þorri annarra þegna þjóðfélagsins nýtur. Aukið verði jafnræði í aðstöðu til mennta og í þjónustu opinberra aðila án tillits til búsetu.

VII. Gætt verði hófsemi í umgengni við landið og náttúru þess. Tryggt verði, svo sem tök eru á, að varðveitt séu sérstæð náttúrufyrirbrigði, gróður, dýralíf og hlunnindi. Öllum verði gefinn kostur á að njóta samskipta við náttúru landsins og séð verði fyrir opnum svæðum til útivistar, þjóðgörðum og tjaldstæðum.“

Till. að öðru leyti, grg. og nánari skýringar á þeim markmiðum sem lagt er til að stefnt verði að, skýra sig sjálf. Eins og ég sagði áðan, þá sé ég ekki sérstaka ástæðu til að ræða efni þess hluta till. ítarlega að þessu sinni. Það má kannske líka segja að á því sé ekki mikil þörf, m.a. vegna þess að till. hefur verið send til umsagnar til bændasamtakanna, til Stéttarsambands bænda, til Framleiðsluráðs landbúnaðarins, til Búnaðarfélags Íslands og til Landnáms ríkisins. Allir þessir aðilar hafa skilað umsögnum um till. og allar þær umsagnir voru á einn veg, að till. var fagnað og jákvæð viðhorf komu fram í garð þess texta sem hún flytur. Auk þess hefur till. verið rædd nokkuð ítarlega a.m.k. einu sinni í atvmn. Sþ. og þar kom greinilega fram jákvæð afstaða frá öllum flokkum, sem þar eiga fulltrúa, í garð þessarar till. Það má því alveg fullyrða að ef það hefði ekki verið stjórnarandstaðan sem hefði staðið að þessum tillöguflutningi, þá væri búið að samþykkja till. fyrir löngu. Þetta er sá vitnisburður, sem ber þessum tillöguflutningi skýrast vitni og segir það með skýrari hætti en nokkur orð hvað hér er um jákvæða, skýra og þýðingarmikla tillögugerð að ræða.

Eins og ég sagði áðan miðast till. okkar sjálfstæðismanna fyrst og fremst við að skýra afstöðu Sjálfstfl. til málefna í íslenskum landbúnaði. Ég fagna þess vegna því, að það skuli aðilar flytja tillögur um sama efni á Alþingi. Ég fagna því, að með því séu skýrð stefnumið annarra flokka og að með þeim hætti opnist leiðir til virkrar umr. um það hvað stjórnmálaöflin í landinu eiga sameiginlegt þegar málefni íslensks landbúnaðar eru annars vegar. Af þessari ástæðu verður ekki komist hjá því að gera hér nokkurn samanburð á þessum tveimur tillögum og þá með það í huga hvort hugsanlega finnist leiðir til að afgreiða þetta mál sem sameiginlega ályktun Alþingis. Því að það er að sjálfsögðu álveg ljóst að tillögugerð sem þessi þjónar engum tilgangi þótt hún kynni að verða samþykkt með einhverjum tilteknum stjórnarmeirihluta á Alþingi, ég tala nú ekki um þann stjórnarmeirihluta sem nú er. Ef á að móta stefnu í landbúnaði, sem bændurnir í landinu og stjórnmálamenn — og raunar þjóðin öll getur tekið einhver mið af og treyst eitthvað á, þá þarf að vera um hana samkomulag hér á Alþingi.

Það er að sjálfsögðu nokkurt verk að bera þessar tillögur tvær saman. Till. ríkisstj. ber þess greinilega vott að hún er samin á eftir till. okkar sjálfstæðismanna. Sannleikurinn er sá, að það má víða finna þegar grannt er leitað, sérstaklega í grg. till. ríkisstj., nokkuð svipuð markmið og við gerum að höfuðmarkmiðum í okkar till. En það er mikill ókostur á till. ríkisstj. að þessi markmið eru ekki sett fram í tillgr. sjálfri. Þar at leiðandi er tillöguflutningur ríkisstj. miklu óskýrari og loðnari en tillöguflutningur okkar sjálfstæðismanna. Þá sakna ég þess líka að í till. ríkisstj. er ekki sérstaklega fjallað um framleiðslumarkmið. Þau eru aðeins sett inn með almennu orðalagi, en þau eru ekki skilgreind t.d. eins og gert er í 3. tölulið till. okkar sjálfstæðismanna, þar sem kveðið er svo á, að innanlandsmarkaðurinn eigi að viðhalda byggð í sveitum landsins í núverandi mynd, en aftur á móti nýjar búgreinar og ný atvinnutækifæri að koma til styrktar og stuðnings við byggðir í sveitum landsins.

Þá sakna ég þess líka í till. ríkisstj. að ekki er leitast við að sýna með hvaða hætti beri að takast á við þau framleiðsluvandamál sem hafa verið og eru í íslenskum landbúnaði. Það er forðast að skilgreina þau, það er forðast að segja frá ástæðunum fyrir þeim og það er ekki tekin afstaða til þeirra. Með sama hætti er ekki heldur fjallað um rekstrarskilyrði í landbúnaði, sem verður ekki komist hjá að meta sem einn meginþátt, þegar landbúnaðarstefna er ákveðin og aðstaða landbúnaðarins metin. Í stað þessa — og það þarf kannske engan út af fyrir sig undra þegar Alþb. og Framsfl. eru annars vegar — er talað um áætlun. Menn tala um 5 ára spá eða 10 ára spá. Þar á að fjalla sérstaklega um markaðinn hér innanlands og út frá því á að ákveða framleiðslumagnið í landinu. Og það er líka tilgreint að því á að stjórna með sérstökum hætti miðað við framleiðslu hverrar jarðar og þar fram eftir götunum. Hér koma fram miklu skýrari pólitísk sjónarmið heldur en menn kannske rekast á við lauslegan yfirlestur þessara tveggja þáltill. Annars vegar er það stefna okkar sjálfstæðismanna sem að sjálfsögðu telja að ákvörðunarvaldið eigi að vera hjá bændunum og félagssamtökum þeirra. Hins vegar eru það áætlanir og spár sem á að gera af hendi hins opinbera og síðan að leggja til grundvallar við heimildir til búrekstrar á hverri jörð á Íslandi. Þannig eru það viss tiltekin atriði, sem skilja leiðir í þessum efnum, tiltekin atriði sem má rekja til stjórnmálaflokka, stefnu þeirra og markmiða. En það breytir ekki því, að það er jafn gagnlegt að fá þessi sjónarmið fram og að um þau sé fjallað.

Nú er það svo, að það er ríkisstj. sem flytur till. um stefnu í landbúnaði. Þessi till. kom fram á síðasta degi síðasta Alþingis. Og núna, þegar ríkisstj. er bráðum búin að sitja í þrjú ár og á væntanlega alls ekki eftir að sitja lengur en þrjá mánuði, þá leggur hún fram þessa till. til þál. hér á Alþingi. Það er þó alveg sérstaklega eftirtektarvert við þennan tillöguflutning að í sjálfum stjórnarsáttmálanum, sem settur var fram hér á Alþingi 8. febr. fyrir þremur árum síðan, er kveðið svo á að landbúnaðinum á stjórnarferli núv. ríkisstj. eigi að stjórna samkv. till. sem samþykkt verði á Alþingi. Till. kemur svo til 1. umr. um líkt leyti og ríkisstj. er að skila af sér. Þetta er þess vegna boðskapur hennar til framtíðarinnar, en skýrir að sjálfsögðu ekki störf hennar að neinu marki.

Nú hefur það gerst að hæstv. landbrh. hefur flutt hér framsögu fyrir till. ríkisstj., ef framsögu skyldi kalla, því að í raun og var hér einungis ,um að ræða skýrslu um stöðu landbúnaðarins eins og hún er skoðuð frá bæjardyrum ráðh., en það var nánast engin umfjöllun um stefnumótun í íslenskum landbúnaði í hans boðskap. Þetta er á vissan hátt ákaflega auðskilið, því að stefna ríkisstj. hefur gengið þvert á a.m.k. þá jákvæðu þætti sem koma fram í tillögugerðinni um stefnumótun í landbúnaði. Ef stiklað er á stóru í þeim efnum, þá vil ég hér í fyrstu benda á að mikið hefur verið um það talað af hálfu ríkisstj. að efla þyrfti nýjar búgreinar. Árið 1979 voru gefin um þetta mikil fyrirheit, löggjöf breytt og að því er séð varð farið á stað mjög svo undir fullum seglum í þessum efnum. Ég hef hér áður á Alþingi sýnt fram á hverjar efndirnar hafa orðið í þessum efnum, m.a. í umr. í Ed. núna rétt fyrir jólaleyfi þm. Sannleikurinn er sá, að það samkomulag sem var gert við bændur árið 1979, þegar heimildir voru teknar upp í jarðræktarlögunum um að skerða framkvæmdir til vissra þátta í þeirri löggjöf en aftur á móti að verðtryggja lögin miðað við framkvæmdaþunga áranna 1978 og 1979, meðaltal þeirra ára, þau hafa verið svikin. Og það sem athyglisverðara er: í þeim efnum hefur verið gengið lengra eftir því sem árunum hefur fjölgað. Það hefur nánast ekkert fjármagn komið inn til að auðvelda ný viðfangsefni í landbúnaði.

Ég ætla ekki að tefja umr. að þessu sinni með nánari skýringum á þessu. Ég vitna til þess málflutnings sem ég hafði uppi í Ed. um þetta sama efni, og það gefst þá tími til þess að skýra það enn betur síðar í umr.

Það voru gefin sérstök fyrirheit um það að sauðfjárræktin skyldi verða óbreytt í landinu og að hlutur sauðfjárbænda skyldi verða tryggður. Þetta hefur verið efnt með því að nú er nánast eina viðleitnin, sem sést hefur í sambandi við framleiðslustjórnun, við það miðuð að fækka sauðfé í landinu. Og það sem þó er kannske enn athyglisverðara, að kjör í sauðfjárrækt hafa á síðustu tveimur áratugum aldrei farið jafnlangt niður eins og einmitt um þessar mundir. Ég hef gert sérstakar ráðstafanir til þess að meta rekstrarskilyrði í landbúnaði tvo áratugi aftur í tímann og borið þau skilyrði saman við afkomu bænda í sauðfjárrækt og í nautgriparækt og síðan haft hliðsjón af almennri tekjuþróun í landinu. Og í ljós kemur við þann samanburð að hlutur sauðfjárbænda hefur aldrei verið jafn slakur og hann er um þessar mundir. Ég minni á það sem hefur verið sagt um þessi efni að tilhlutan ríkisstj. í stjórnarsáttmála og tvívegis í stefnuræðu forsrh. og ég vitna til ummæla hæstv. landbrh. er hann viðhafði við setningu Búnaðarþings fyrir tæpu einu ári.

Árið 1979 var gert sérstakt samkomulag við bændur varðandi Stofnlánadeild landbúnaðarins, þegar ákveðið var að taka upp verðtryggingu á allan meginþorra lána til landbúnaðarins. Þetta samkomutag byggðist á því að tekjustofnar deildarinnar yrðu ekki skertir. Á hverju ári síðan hefur þetta loforð verið efnt með því að skerða framlag ríkissjóðs til Stofnlánadeildarinnar að stórum mun.

Ég hef hér minnst á rekstrarskilyrði í landbúnaði, sem við sjálfstæðismenn fjöllum alveg sérstaklega um í okkar till., og þá með þeim hætti að benda á gildi þess að búa landbúnaðinum þau starfsskilyrði að rekstrarskilyrði geti verið með nokkuð eðlilegum hætti. Eins og ég minntist hér á áðan, þá hefur skilaverðshlutfall samkv. verðlagsgrundvelli verið allt frá árinu 1960 yfir 40% nema tvö ár, þegar áburðarhækkunin varð um miðjan síðasta áratug. En þrjú síðustu ár hefur þetta hlutfall farið stöðugt minnkandi og er nú komið niður fyrir 35%. Þannig er og hefur verið búið að landbúnaðinum í tíð núv. ríkisstj. Þó eru ekki öll kurl komin til grafar. Er þá skemmst að minnast þeirrar fréttar, sem síðast hefur borist, um að gengistöp á rekstrarlánum

Áburðarverksmiðju ríkisins muni nema eitthvað í kringum 140 millj. kr. á þremur síðustu árum. Þetta er ógreitt, þessi skuld er ógreidd, og það er kannske gleggsta dæmið um það hversu lítið hefur verið hugað að hinum eiginlegu rekstrarskilyrðum í landbúnaði að á sama tíma og landbúnaðarvörur eru nær óseljanlegar úr landi er Áburðarverksmiðja ríkisins fjármögnuð með rekstrarlánum sem eru í dollurum. Gengistöp á þessu tímabili — og þá að sjálfsögðu er ekki tekið með það síðasta — nema 140 millj. kr.

Hæstv. landbrh. tilgreindi hér tvö töluleg atriði, þau einu sem ég fann í hans ræðu varðandi og sem áttu að skýra árangur í stjórn á landbúnaðarframleiðslu nú á síðustu árum. Bæði þessi atriði eru röng. Á vissan hátt skaðar það kannske ekki svo mikið að því er annað þessara atriða varðar. En það er sannarlega hættulegt gagnvart hinu.

Hæstv. landbrh. komst svo að orði að umframframleiðsla mjólkurafurða hefði numið 17 til 18%. Hann tekur árið 1978, en þá fór allt saman: tiltölulega lágt áburðarverð, ódýr fóðurbætir og hagstæð veðrátta. Þetta er mesta framleiðsluár sem orðið hefur í mjólkurframleiðslunni á síðustu árum. Og ef þetta toppár er tekið sem slíkt, þá eru þessar tölur réttar. En þetta er eina árið á síðasta áratug sem skilar þessum samanburði. Ef um væri að ræða raunhæfan samanburð af hendi hæstv. ráðh. yrði hann að taka framleiðslu næsta árs á eftir. Sannleikurinn er sá, að mjólkurframleiðslan hefur verið að magni til 5–6% umfram neysluþörfina hér innanlands, sé til fleiri ára lítið eða liðlega það. Ef menn þurfa að skýra stefnu sína með þessum hætti, þá er sannarlega ekki úr mörgu góðu að velja. En þetta er liðin tíð og skiptir ekki sköpum í þessari umr. Fullyrðing hæstv. landbrh. hér áðan um að ekki hefði þurft að fullnýta útflutningsbótaréttinn vegna árangurs í framleiðslustjórnun fyrir síðasta ár er öll hæpnari. Ástæðan fyrir því að hæstv. fjmrh.. þarf ekki að greiða út allan útflutningsbótaréttinn nú í ár er sú, að það hefur ekki tekist að selja allar landbúnaðarvörurnar úr landi. Það er vegna þess að þær eru í birgðum og verðmætin eru ekki fyrir hendi. Ef ekki hefði orðið um birgðasöfnun í landbúnaði að ræða á s.l. ári hefðu útflutningsbæturnar ekki dugað.

Annars er það kannske táknrænt dæmi um það hver afkoma bændanna í landinu er að nú er hæstv. landbrh. góðu heilli búinn að skipa sérstaka nefnd til að gera úttekt á fjárhag bænda. Og þetta gerir hæstv. landbrh. þótt ekkert kvak, engin ósk, engin 6ánægjurödd heyrðist, svo að notuð séu hans eigin orð.

Það er talað um það í grg. fyrir till. ríkisstj. að fyrir liggi miklar heimildir hjá Búnaðarfélagi Íslands sem hægt sé að nýta til mats á aðstöðu landbúnaðarins og úttekt á stefnu hans. Þetta voru heimildir sem áttu að sýna gullaldartímabilið í íslenskum landbúnaði og leggja grundvöll að því, þ.e. þessi þrjú síðustu ár. Nú geta menn enn notað þessi gögn, látið tölvurnar og tólin snúast á þveröfugan hátt við það sem áður hafði verið áformað, og fá þá út skuldir og vanskil í stað allra hinna góðu fyrirheita sem átti að leiða yfir íslenskan landbúnað með tilkomu þessarar ríkisstj. Annars er það kannske skýrasta dæmið um stöðu landbúnaðarins nú í dag, sem fram kemur í þeirri skýrslu sem alveg nýlega hefur verið dreift frá Framkvæmdastofnun ríkisins og er um mannafla og tekjur atvinnuveganna. Þar segir að ástandið sé orðið svo bágt í þeim efnum að það er ekki hægt að hafa landbúnaðinn með í þeim samanburði. Ég ætla með leyfi, herra forseti, að lesa hér niðurlag í skýringu um það efni. Þar segir svo, þ.e. ef landbúnaðurinn er ekki felldur út úr þessum samanburði, þá kemur í ljós að „þeir landshlutar þar sem bændur eru hlutfallslega fjölmennir búa við mjög lágt tekjustig og óhagstæða tekjuþróun.“ Ástandið er orðið svona núna, að þegar fjallað er um tekjur þjóðarinnar og þróun þeirra á milli ára komast opinberar stofnanir að því að ekki sé hægt að hafa bændurna í landinu með, því að það skekkir svo mikið myndina, þar sem þeir koma að sjálfsögðu inn í það dæmi mjög misjafnlega fjölmennir, eftir því hvernig landbúnaðurinn dreifist um landið.

Herra forseti. Enda þótt hér sé á ferðinni tvær tillögur um stefnu í landbúnaði, sem báðar á vissan hátt lýsa jákvæðum viðhorfum til landbúnaðarins, þá verða menn í þessari virðulegu stofnun að líta sér nær. Þetta eru tillögur inn í framtíðina, sem trúlega verða ekki samþykktar hér á Alþingi að þessu sinni. Þess vegna vil ég hér í lok máls míns leggja áherslu á þau atriði sem Sjálfstfl. telur mikilvægust í sambandi við landbúnaðarmálin eins og þau horfa við nú í dag og að það þoli enga bið að hefja starf og breyta umhverfi landbúnaðarins með þessi sérstöku áhersluatriði að leiðarljósi. Ég tek það fram, herra forseti, að það er með engum hætti hægt að gera þeim eins rækileg skil hér og þörf væri á og eins er reyndar um annan texta, sem hér kemur fram í okkar tillögum, sem ég mun skýra frekar eftir því sem þörf krefur við framhald þessarar umr.

Í fyrsta sinn sem talað hefur verið um svæðaskipulag í landbúnaðarmálum, a.m.k. svo að ég hafi orðið þess var, er í till. okkar sjálfstæðismanna eins og við fluttum hana árið 1980. Hafi verið þörf fyrir það fyrirkomulag þá, þá er það sannarlega orðin nauðsyn nú. Fyrir því eru tvær ástæður. Sjálfstfl. er andvígur kvótafyrirkomulagi. Það getur ekki gilt nema tiltölulega mjög takmarkaðan tíma af augljósum ástæðum. Þar af leiðandi verður að fá framleiðslumálunum stjórn heima í héraði þar sem einungis fáar ákvarðanir, þ.e. um framleiðslurétt hvers framleiðslusvæðis, yrðu teknar af bændasamtökunum sjálfum á grundvelli þeirrar löggjafar sem þar um gilti, en ákvæði þar að lútandi eru ekki fyrir hendi í lögum núna.

Árið 1980 þegar við lögðum þessar tillögur fram var þetta aðatforsendan fyrir áhuga okkar á svæðaskipulagi. En síðan hefur það gerst að byggðin er sífellt að breytast. Fámennari og veikari byggðirnar eru sífellt í erfiðari stöðu og þaðan leitar fólkið, þar dregst landbúnaðurinn saman. Þess vegna er höfuðnauðsyn á að viðhalda byggðinni þar með því að byggðasvæðin, framleiðslusvæðin fái tiltekinn framleiðslukvóta, sem ber að meta sem auðlegð hverrar byggðar, sem hún hefur möguleika til þess að nýta sér og getur færst á milli fólksins í þeim byggðarlögum. Á þetta legg ég alveg sérstaka áherslu og ég fagna því sem kom fram í ræðu hæstv. landbrh. um þennan þátt okkar tillögugerðar.

Annað atriði er virkara greiðslu- og rekstrarfjárfyrirkomulag í landbúnaði. Um það hefur Eyjólfur Konráð flutt sín mál hér á Alþingi og um það hefur verið fjallað og það hefur verið lítið á það hvernig þetta fjármagn nýtist bændunum í landinu. Það er alveg óefað hægt að koma þarna fyrir miklum umbótum sem mundu beinlínis snerta fjárhag bændanna sjálfra.

Í þriðja lagi þarf að breyta heimildunum um útflutningsbótaréttinn. Það er nákvæmlega skilgreint í okkar tillögum. Þar er bent á að nýting þess fjár yrði betri frá þjóðhagslegu sjónarmiði, auk þess sem það mundi koma bændunum í landinu að miklu betri notum„ ef hluta fjármagnsins væri heimilt að nota til að draga úr rekstrarkostnaði í landbúnaði, draga þannig úr framleiðslukostnaði, minnka þörfina fyrir útflutningsbætur en aftur á móti stórbæta rekstrarskilyrði landbúnaðarins. Ég tek það hér fram að til þess að þetta geti orðið virkt og skilað jákvæðum árangri, þá þarf áður að taka til, það þarf áður að gera hreint, losna við þær óreiðuskuldir sem landbúnaðurinn tekur nú við, m.a. í gegnum áburðarverðið á næsta vori.

Í fjórða lagi eru það nýjungar í landbúnaði. Um það efni get ég líka verið stuttorður. Ég hef flutt fjögur frumvörp í Ed. Alþingis og haft framsögu fyrir þeim öllum og vitna í þeim efnum til þess er þar var sagt. En einnig þar verðum við að fara öfugt að við það sem nú er gert. Við verðum að fá þetta viðfangsefni sérstökum sjóð sem fær ódýrt fjármagn. Það þarf ekki að vera mikið. Ég hef einungis í mínum málflutningi hér á Alþingi miðað við hliðstætt fjármagn og samkomulag var gert um þegar jarðræktarlögunum var breytt árið 1979. Við þurfum að setja það í Framleiðnisjóð landbúnaðarins og við þurfum að færa ákvarðanatökuna þangað. Ég hef lagt til í mínum tillögum að það væru bændasamtökin sem hefðu þar forsjá. Það byggi ég á þeirri skoðun minni að það eigi að vera það afl sem býr í þeim samtökum, sá styrkur sem þau samtök ala með sér, sem eigi að byggja upp ný atvinnutækifæri í sveitum landsins. Ég er andvígur þeirri ríkisforsjá sem nú er viðhöfð, þar sem leyfi til nýrra viðfangsefna þarf m.a. og fyrst og fremst að sækja til stjórnvalda, og gildir þar einu hver sæti í þeim ráðherrastóli.

Með þessum fjórum mikilvægu atriðum og skýringum á þeim lýk ég, herra forseti, máli mínu að þessu sinni. Ég geri mér ljóst að þessi ræða hefur verið nokkuð yfirlitskennd, en miðað við fyrri málflutning minn og fleiri sjálfstæðismanna hér á Alþingi og miðað við það að fyrir hendi eru nægar ástæður til að skýra þetta mál betur, þá lýk ég hér máli mínu að þessu sinni.