24.01.1983
Sameinað þing: 39. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

Snjóflóð á Patreksfirði

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar þm. Vestf. færa hæstv. forseta þakkir fyrir hlý og vinsamleg orð í garð fólksins á Patreksfirði. Ég vil ennfremur þakka hæstv. ríkisstj. og hæstv. forsrh. fyrir þá yfirlýsingu sem hann hefur hér flutt.

Hörmulegur atburður gerðist þegar snjóflóð féllu á Patreksfjörð s.l. laugardag með þeim afleiðingum að fjórir létu lífið og margt manna missti heimili sín.

Á slíkum stundum sem þessari er okkur Íslendingum ljóst að við erum sem ein fjölskylda og viljum bera hver annars byrðar.

Ég er þess fullviss, að allt verður gert sem unnt er til þess að mæta þeim vanda sem nú hefur komið upp á Patreksfirði, eftir því sem hægt er að bæta slíkt tjón sem þar varð.

Ég þakka velvild og samúð allra alþm.