24.01.1983
Neðri deild: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. 4. gr. í frv. til l. um efnahagsaðgerðir fjallar um ráðstöfun á gengismun og mun ég fyrst og fremst snúa orðum mínum að þeirri grein. Í þeirri grein er lagt til að 80 millj. kr. af gengismun verði varið til greiðslu óafturkræfs framlags til togara til að bæta rekstrarafkomu þeirra vegna þess aflabrests sem þeir urðu fyrir á vormánuðum s.l. árs. Í öðru lagi er lagt til að 15 millj. verði varið til loðnuvinnslustöðva samkv. nánari ákvörðun ríkisstj. Í þriðja lagi verði varið 10 millj. í Fiskimálasjóð, sem verði ráðstafað til orkusparandi aðgerða í útgerð og fiskvinnslu og til fræðstu um gæði og vöruvöndun í sjávarútvegi samkv. reglum sem sjútvrn. setur. 4.5 millj. kr. verði varið í lífeyrissjóði sjómanna. Og loks segir í 5. lið: Eftirstöðvar, þar með taldir vextir, renni í Stofnfjársjóð fiskiskipa til lækkunar á skuldum og/eða fjármagnskostnaði fiskiskipa samkv. reglum sem sjútvrn. setur.

Þegar þetta var ákveðið í ágúst s.l. áætlaði Þjóðhagsstofnun að gengismunur sá, sem hér um ræðir, yrði um 130 millj. kr. Í desembermánuði s.l. fékk ég hins vegar nýja áætlun frá Seðlabanka Ístands, þar sem hann áætlar að þessi gengismunur verði 231 millj. kr. Við þá miklu hækkun þótti rétt að athuga hvort ástæða væri ekki til að verja einhverjum hluta af þessum gengismun til annarra aðgerða í þágu sjávarútvegsins. Ríkisstj. var sammála um að opna fyrir slíkt og varð það niðurstaðan að ég hef flutt brtt. við 5. tölul. 4. gr. frv. sem hefur verið lögð fram og er svohljóðandi, með leyfi forseta: „5. tölul. 4. gr. orðist svo:

Krónur 50 millj. renni í Stofnfjársjóð fiskiskipa til lækkunar á skuldum og/eða fjármagnskostnaði fiskiskipa, samkv. reglum sem sjútvrn. setur, að höfðu samráði við stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands og Landssamband ísl. útvegsmanna.

2. Á eftir 5. tölul. 4. gr. komi nýr liður, sem verði 6. tölul., svohljóðandi:

Eftirstöðvum, ásamt vöxtum, skal ráðstafað samkv. nánari ákvörðun sjútvrn. í samráði við sjútvn. Alþingis.“

Með þessari brtt. er gert ráð fyrir að festa þá upphæð sem rennur í Stofnfjársjóð fiskiskipa við 40 millj. sem er 10 millj. kr. hærra en áætlað var þegar brbl. voru sett 21. ágúst s.l. En hins vegar, eins og ég las í 2. tölul., er gert ráð fyrir að eftirstöðvum, sem kunna að verða, megi ráðstafa til annarra þarfa sjávarútvegsins að höfðu samráði við sjávarútvegsnefndir Alþingis. Með þessu er því ekki slegið föstu, ef sjávarútvegsnefndum og sjútvrh. sýnist það réttara og ríkisstj., að allt þetta renni í Stofnfjársjóðinn, en aðaltilgangurinn er að opna fyrir notkun á þessu fé í öðru skyni ef mönnum sýnist svo.

Ég skal svo fara nokkrum orðum um það sem menn hafa þar fyrst og fremst í huga.

4. nóv. 1981 skrifaði forsrn. Framkvæmdastofnun ríkisins bréf, sem var svohljóðandi, með leyfi forseta: „Forsrn. fellst á samþykkt Framkvæmdastofnunar ríkisins frá 27. okt. s.l. um að setja á fót nefnd, sem geri úttekt á stöðu útgerðar og fiskvinnslu, og skal hún skila niðurstöðum og tillögum til úrbóta svo fljótt sem auðið er, en Byggðasjóður taki að sér á meðan að greiða úr brýnustu þörfum fyrirtækja í atvinnugreinunum, enda njóti sjóðurinn aðstoðar til þess. Forsrn. mun tilkynna sjútvrh., Fiskveiðasjóði Íslands, Landsbanka Íslands, Seðlabanka Íslands og Útvegsbanka Íslands um stofnun nefndarinnar og óska eftir tilnefningu fulltrúa frá þeim aðilum. Rn. telur rétt að fulltrúi Framkvæmdastofnunar ríkisins verði formaður nefndarinnar.“

Undir þetta skrifuðu Gunnar Thoroddsen forsrh. og Jón Ormur Halldórsson.

Í nefndina voru síðan skipaðir eftirtaldir menn: Benedikt Bogason frá Framkvæmdastofnun ríkisins, og var hann formaður, Bogi Þórðarson frá sjútvrn., Garðar Ingvarsson frá Seðlabanka Íslands, Helgi Bachmann frá Landsbanka Íslands, Ólafur Helgason frá Útvegsbanka Íslands og Svavar Ármannsson frá Fiskveiðasjóði.

Nefnd þessari var, eins og fram kemur í bréfinu, falið að gera úttekt á stöðu fyrirtækja í útgerð og fiskvinnslu og gera tillögur um fjárhagslega endurskipulagningu þeirra fyrirtækja sem nefndin teldi að þyrftu slíks við og hefðu nauðsynlegar rekstrarforsendur og eignir í lagi til þess að slíkt mætti gera. Nefndin samdi sérstakt spurnareyðublað — við getum kallað það það —, sem sent var út til fyrirtækja í útgerð og fiskvinnslu, og óskaði eftir upplýsingum eins og fram kemur á því eyðublaði. Það tók alllengri tíma að ná þessum upplýsingum inn en ráð hafði verið fyrir gert, en í þeirri lokaskýrslu nefndarinnar sem ég hef hér er birt ítarleg úttekt á 59 fyrirtækjum í útgerð og fiskvinnslu ásamt till. n. um fjárhagslega endurskipulagningu þessara fyrirtækja.

Á meðan á þessu starfi stóð og eftir að upplýsingar höfðu borist um allmörg fyrirtæki þótti nauðsynlegt að fresta ekki afgreiðslu þeirra mála sem augljós væru. Varð það til þess að ríkisstj. gekkst fyrir fjárútvegun til Framkvæmdastofnunar ríkisins og var það fé lánað um það bil 30 fyrirtækjum samkv. bráðabirgðaniðurstöðum nefndarinnar. Sú upphæð var um 80 millj. kr. Í þessu fólst einnig nokkur skuldbreyting hjá Framkvæmdastofnun. Var að því stefnt með þessum fjárhagslegu endurskipulagningaraðgerðum að koma veltufjárstuðli fyrirtækjanna sem næst 1.

Eins og hv. þm. er jafnframt kunnugt um hefur nú staðið yfir í 3 mánuði skuldbreyting hjá útgerðinni. Sú skuldbreyting hefur gengið nokkuð fljótt fyrir sig og verið þar beitt nýjum viðmiðunarreglum. Ákveðið var að skuldbreyta allt að 10% af húftryggingarmati fiskiskipa, enda væru að sjálfsögðu veð fyrir hendi og ákveðnum skilyrðum um skuldir fullnægt. Að þessu hefur síðan verið unnið á vegum ríkisbankanna og fulltrúi í sjútvrn. hefur þar verið með í störfum. Líkur eru til þess að skuldbreytt verði um 500 millj. kr. samtals og geri ég mér vonir um að því verki ljúki mjög fljótlega.

Að sjálfsögðu hefur þessi skuldbreyting jafnframt haft töluverð áhrif á þær aðgerðir sem sú nefnd sem ég nefndi áðan taldi nauðsynlegar, þannig að orðið hefur að endurskoða ýmsar niðurstöður nefndarinnar með tilliti til þeirrar fyrirframgreiðslu sem ýmis fyrirtæki hafa fengið við skuldbreytinguna. Að mati nefndarinnar og Framkvæmdastofnunar standa þó eftir nokkur fyrirtæki, líklega 10–15, sem ekki ná því markmiði, sem sett var, að koma veltufjárstuðli fyrirtækjanna í 1 án sérstakrar viðbótarlánsfyrirgreiðslu. Í mörgum tilfellum er um að ræða fyrirtæki sem ekki hafa aðstöðu til að skuldbreyta eins og að var stefnt, skortir e.t.v. viðunandi veð eða, eins og stundum hefur verið sagt, skulda ekki á réttum stöðum, því að um það var samið við Seðlabanka Íslands að hann tæki skuldbreytingabréfin upp í yfirdrátt viðskiptabanka við Seðlabankann, en í sumum tilfellum hefur ekki verið um slíkan yfirdrátt að ræða.

Sú aðstoð, sem felst í tilfærslu á gengismun í Stofnfjársjóð fiskiskipa, er mjög algeng við gengisfellingar. Hún kemur að sjálfsögðu þeim aðilum í Stofnfjársjóði til góða sem skulda í erlendum gjaldeyri og ekki óeðlilegt að þær skuldir séu að nokkru niðurfærðar eftir gengisfellingu með slíkum aðgerðum, þar sem þær hækka að sjálfsögðu við gengisfellinguna og lenda mjög þungt á útgerðaraðilum.

Í þessu skyni ákvað Alþingi m.a. að ráðstafa 20 millj. kr., þ.e. framlagi ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs á árinu 1982, og svo til viðbótar samkv. þeirri till. sem hér liggur fyrir 40 millj. kr. af gengismun. Hitt er svo ljóst, að það eru alls ekki öll fyrirtæki í sjávarútvegi sem njóta slíkrar fyrirgreiðslu. Sum fyrirtæki eru ekki með erlendar skuldir í Fiskveiðasjóði og hafa því ekki neinn hagnað af þessari tilfærslu í stofnfjársjóðinn. Mörg þessara fyrirtækja eru hins vegar í verulegum erfiðleikum og falla þá undir þá úttekt, sem nefnd um stöðu útgerðar, sem ég nefndi áðan, gerði og hefur skilað skýrslu um.

Sagt hefur verið að óeðlilegt sé að taka hluta af gengismun í þessu skyni. Ég vil upplýsa hv. alþm. um að það er út af fyrir sig alls ekki nýtt. Ég læt nægja að vísa hér í ráðstöfun á gengismun frá 1978 og 1979. 5. sept. 1978 voru gefin út brbl. og þar segir m. a. í 3. gr., með leyfi forseta:

„50% af því, sem kemur í gengismunarsjóð af andvirði þeirra afurða, sem taldar eru undir a-lið þessarar greinar, svo og öllu því, sem kemur af andvirði annarra sjávarafurða, skal varið a) 50% til að greiða fyrir hagræðingu í fiskiðnaði og b) 50% til að létta stofnfjárkostnaðarbyrði eigenda fiskiskipa“ — m.ö.o. látið renna í Stofnfjársjóð fiskiskipa.

Á grundvelli þessara brbl. nr. 95/1978 er síðan gefin út reglugerð nr. 336 frá 1978 og þar segir, með leyfi forseta, í 2. gr.:

„Fjórðungi þess fjár, sem kemur í gengismunarsjóð af andvirði þeirra afurða, sem taldar eru í a-lið 3. gr. brbl. nr. 95/1978, svo og helmingur þess, sem kemur af andvirði annarra sjávarafurða, skal varið til að greiða fyrir hagræðingu í fiskiðnaði samkv. ákvæðum reglugerðar þessarar. Skal fé þetta renna til þess lánaflokks Fiskveiðasjóðs Íslands, sem stofnað var til með reglugerð nr. 218 8. júní 1978 til hagræðingar í fiskiðnaði.“

Hér stendur svo í 3. gr.: „Af fé þessu skal veita lán til hraðfrystihúsa og annarra fiskvinnslustöðva til hagræðingar og fjárhagslegrar endurskipulagningar“ — ég endurtek: „Til fjárhagslegrar endurskipulagningar, m. a. til vélakaupa, endurnýjunar á vélum og vinnslurásum og annarra ráðstafana, sem horfa til hagræðingar að mati sjóðsstjórnar.“

Þá voru jafnframt gefin út brbl. 18. maí 1979 um ráðstöfun á gengismun. Þar segir svo m. a. í 3. gr., með leyfi forseta:

„1) 50% skal veitt til hagræðingar í fiskiðnaði og til þess að leysa sérstök staðbundin vandamál.

Lánin skulu einkum veitt til tæknilegrar hagræðingar, svo sem til vélakaupa, endurnýjunar á vinnslurásum og til að koma upp kældum fiskmóttökum. Þar sem sérstaka nauðsyn ber til að tryggja atvinnuöryggi, koma í veg fyrir atvinnuleysi eða ná fram hagkvæmari rekstrareiningum er þó einnig heimilt að veita lán til fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja í fiskvinnslu.“

Ég er einnig hér með lista yfir lán samkv. þessum lögum og reglugerð frá 1978 og 1979 og er þar um háar upphæðir að ræða. Samtals er úr gengismunarsjóði ráðstafað yfir 2 milljörðum kr. Þessi listi ber það einnig með sér, að hér er gert svipað og gert hefur verið á grundvelli skýrslu nefndar um stöðu útgerðar. Leitast var við að koma veltufjárstuðli fyrirtækja í viðunandi horf, í kringum 1, og heitir sá lánaflokkur Fjárhagsleg hagræðing í þeim listum yfir fyrirtæki sem ég hef hér fyrir framan mig.

Í þessu sambandi hefur nokkuð verið um það rætt og réttilega á það bent, að í þessum tilfellum rennur féð í gegnum Fiskveiðasjóð Íslands. Ég tel það að mörgu leyti eðlilega ráðstöfun. Staðreyndin er hins vegar sú, að sú fjárhagslega endurskipulagning, sem ráðist var í að tillögu Framkvæmdastofnunar ríkisins með skipun nefndar um stöðu útgerðar og fiskvinnslu, fór fram á vegum Byggðasjóðs, þ.e. í gegnum Byggðasjóð hefur þegar verið varið um það bil 80 millj. kr. í þessu skyni. Áætlað er að þörf þeirra fyrirtækja sem ekki hafa þegar fengið aðstoð eftir þessari leið sé um 50–60 millj. kr. og að sjálfsögðu er þá eðlilegt að því verki verði lokið í gegnum Byggðasjóð, en ekki flutt yfir í Fiskveiðasjóð. Hins vegar hef ég tjáð forstjóra Byggðasjóðs að ég telji eðlilegt að a.m.k. hluti, t.d. helmingur, þess fjármagns sem þannig er ráðstafað renni við endurgreiðslu til Fiskveiðasjóðs, en helmingur verði áfram hjá Byggðasjóði vegna lánveitinga Byggðasjóðs til sjávarútvegs.

Einnig er þess að gæta, að í mörgum þeim tilfellum sem hér um ræðir er ekki síst um atvinnumál að ræða. Svo er t.d. hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, sem hefur stöðvast vegna greiðslu- og rekstrarfjárerfiðleika. Þar er fyrst og fremst um atvinnuspursmál að ræða, staðbundið vandamál, sem að ýmsu leyti fellur betur undir verksvið Byggðasjóðs en verksvið Fiskveiðasjóðs. Þannig gæti ég nefnt fleiri tilfelli, en svipaðs eðlis. Ríkisstj. hefur því ekki talið óeðlilegt, með tilvísun til þess sem ég hef nú rakið, að þessu fjármagni, ef sjávarútvegsnefndir Alþingis eru því sammála, verði varið í gegnum Byggðasjóð.

Herra forseti. Ég þarf út af fyrir sig ekki að fara mörgum fleiri orðum um þetta. Ég vek athygli á því, að það eru ýmsar aðgerðir í gangi til þess að halda útgerð og fiskvinnslu á sæmilega réttum kili þrátt fyrir verulega erfiðleika, sem að þessari atvinnugrein steðja, fyrst og fremst vegna þess að aflaverðmæti dróst saman á síðasta ári um 16%, og það munar um minna. Auk þess verður að sjálfsögðu þessi grein mjög svo fyrir barðinu á hinni gífurlegu verðbólgu, sem hér herjar og brennir upp rekstrarfé fyrirtækjanna. En ég vil þó bæta hér við nokkrum upplýsingum um athugun sem að er unnið í sjútvrn.

Ég dreifði til hv. þm., sem sæti eiga í sjávarútvegsnefndum, skýrslu sem gerð var á vegum rn. um afkomu nýrra togara á árinu 1980. Þá var sérstaklega athuguð afkoma 17 togara. Þessi athugun hefur nú verið endurtekin. Hún nær til togara sem bætast í flotann eftir 1977 og hefur verið safnað mjög ítarlegum upplýsingum um 27 skip. Í ljós kemur að fjármagnskostnaður þessara skipa er miklu meiri en talið er í meðaltali því sem Þjóðhagsstofnun leggur til grundvallar við útreikninga á afkomu útgerðar í landinu. Munar þar um nálægt 100%. Þjóðhagsstofnun hefur talið að fjármagnskostnaður útgerðar væri á bilinu 12–15%, en samkv. þessari úttekt er fjármagnskostnaður þessara skipa að meðaltali um 24%.

Þarna er ýmsu um að kenna. Í fyrsta lagi hafa mörg þessi skip verið mjög dýr í smíðum, en þó er einna mest áberandi að mörg þessi skip eru fjármögnuð með dollaralánum. Dollarinn hækkaði mjög mikið, sérstaklega á tveimur síðustu árum, langtum meira en verðlag í landinu. Raunvextir á dollaralánum urðu árið 1981 um 23–24% umfram verðbólgu.

Þarna er sem sagt um gífurlega mikinn umframfjármagnskostnað að ræða tvö ár, þ.e. 1981 og 1982, og má rekja þennan mikla fjármagnskostnað skipanna að töluverðu leyti til þessarar staðreyndar. Þó er ekki því einu um að kenna. Þessi skip eru mjög dýr í smíðum og auk þess lenda þau í þeim aflabresti, sem ég hef áður nefnt og varð á síðasta ári.

Ég er þeirrar skoðunar, að vandamál þessara skipa verði að skoða alveg sérstaklega. Ég mun því leggja þessar upplýsingar fyrir hv. sjávarútvegsnefndir Alþingis og ræða við nm. um leiðir í því skyni. Ég skal ekki rekja hér hvað kemur til greina, en vek þó athygli á því að í fyrri tilfellum hefur slíkum óeðlilegum fjármagnskostnaði verið dreift á lengri tíma með lengingu lána og jafnvel ríkisábyrgðum í því skyni.

Að lokum vil ég geta þess, að það veldur verulegum vandræðum í öllum aðgerðum til aðstoðar útgerðinni að þeim verður ekki með góðu móti komið við t.d. í gegnum Fiskveiðasjóð einan af þeirri ástæðu að ýmis skip hafa greitt sínar skuldir í Fiskveiðasjóði og fyrirtækin þá í vandræðum af öðrum ástæðum. Að mörgu leyti væri æskilegt að færa öll fiskveiðiskip yfir í Fiskveiðasjóð og gera síðan Fiskveiðasjóði kleift að framkvæma þær aðgerðir sem af opinberri hálfu eru taldar nauðsynlegar fyrir útgerðina hverju sinni. En í því sambandi vil ég leggja á það mikla áherslu að þá verður að gera Fiskveiðasjóði slíkt kleift fjárhagslega. Fiskveiðasjóður er í mjög erfiðri fjárhagsstöðu nú vegna gífurlega mikilla vanskila útgerðarinnar og á hann verða ekki lagðir fleiri baggar eins og nú stendur.

En aðalmálið nú er það, þó ég hafi reynt að gera nokkra viðbótargrein fyrir ýmsum aðgerðum í þágu útgerðarinnar, hvort hið háa Alþingi fellst á að breyta þessari grein í frv. þannig að eftirstöðvum umfram 40 millj., sem rynnu þá í Stofnfjársjóð fiskiskipa, megi að höfðu samráði við sjávarútvegsnefndir Alþingis ráðstafa til annarra aðgerða í þágu sjávarútvegsins, sem ég hef drepið á. Ef það verður ekki gert er ljóst að útvega verður Framkvæmdasjóði fjármagn til að ljúka við þá fjárhagslegu endurskipulagningu, sem meira en hálfnuð er. Til hennar hefur verið varið eins og ég sagði nálægt 80 millj. kr. Það verður þá varla á annan máta gert en með erlendu lánsfé. Ég verð að viðurkenna að ég hef viljað sporna gegn því í lengstu lög að erlend lán verði tekin í þessu skyni, en ég mun að sjálfsögðu fallast á það sem fjh.- og viðskn. telur eðlilegast í þessu sambandi og er til viðræðu við nefndina hvenær sem hún óskar um þetta mál.