24.01.1983
Neðri deild: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Vegna þeirra umr. sem urðu um þetta mál fyrir helgi vil ég aðeins taka það fram, að fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur þegar hafið umfjöllun sína um þetta mál með fundarhaldi nú í morgun, enda þótt frv. sé enn ekki formlega til n. komið. Þannig höfum við stjórnarandstæðingar staðið við það samkomulag, sem við buðumst til þess að gera fyrir helgina, um að greiða götu þessa máls eins og frekast við væri komið. Við Alþfl.-menn munum að sjálfsögðu standa við okkar hlut þessa samkomulags og tel ég því alveg ástæðulaust að gera ráð fyrir að ég þurfi að fresta ræðu minni kl. 4. Ég held ég hljóti að geta lokið því af sem ég þarf að flytja fyrir þann tíma. Við höfum að sjálfsögðu ekkert á móti því að ganga hér til fundarhalda í kvöld ef þurfa þykir. Þetta vildi ég að fram kæmi.

Það er út af fyrir sig ástæðulaust að fara mörgum orðum nú við þessa umr. um frv. það sem hér liggur fyrir, því að þetta frv. hefur verið mjög ítarlega rætt bæði hér í Alþingi og í opinberri umfjöllun úti í þjóðfélaginu. Ég vil þó ítreka það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði hér áðan, að í grg. með frv. lofaðist ríkisstj. til þess að grípa til ýmissa ráðstafana í kjölfar setningar brbl. sem fram fór í ágústmánuði s.l. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands talaði í því sambandi um viðamiklar efnahagsaðgerðir, en ekkert af þessum viðamiklu aðgerðum hefur enn séð dagsins ljós. Ég vil því ítreka þá fsp., fyrst til forsrh. og væntanlega einnig til hæstv. félmrh., hvenær vænta megi frv. um nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun og hvort ekki sé staðföst ákvörðun ríkisstj. að leggja slíkt frv. fram á Alþingi á allra næstu dögum eins og hún hefur margítrekað.

Í öðru lagi vildi ég skýra frá því, að í yfirlýsingu ríkisstj., sem fylgdi brbl., var þess jafnframt getið að viðræður yrðu teknar upp við samtök bænda um endurskoðun útflutningsbótakerfisins, sem hefur verið mjög harðlega gagnrýnt af okkur Alþfl.-mönnum eins og allir vita. Fyrir jólin var það upplýst að engar slíkar viðræður hefðu átt sér stað af hálfu landbrn., þannig að engin tilraun hafi verið gerð af hálfu ríkisstj. til að standa við þessa yfirlýsingu frá því í ágústmánuði s.l. Ég vil því ganga eftir því við hæstv. forsrh., þar sem hæstv. landbrh. er ekki í salnum — nú, hann er hér að ræða við hæstv. forsrh., þá vildi ég spyrja þá að því saman, — hvort ríkisstj. hafi nokkuð frekar gert í því máli frá því að upplýst var að ekkert hefði verið í málinu gert fyrir jólin.

Í þriðja lagi hef ég áhuga á að spyrjast fyrir um hvenær væntanleg sé löggjöf um að stjórnendur ríkisstofnana, ráðuneyta og ríkisbanka verði framvegis ráðnir til aðeins 5 ára í senn. Þetta var enn ein yfirlýsing sem fylgdi brbl. frá því í ágúst. Það hlýtur að hafa gefist meira en nóg ráðrúm til að ganga frá frv. að slíkri löggjöf. Ég óska eftir upplýsingum um hvenær við þm. megum vænta þess að fá það mál til meðferðar.

Í þriðja lagi leyfi ég mér að spyrjast fyrir um hvenær vænta megi þess að áform ríkisstj. um erlendar lántökur sjái dagsins ljós í frv. til lántökulaga, því að í 12. lið í yfirlýsingu ríkisstj. frá því í ágúst s.l. er skýrt tekið fram að erlendar lántökur muni verða takmarkaðar til samræmis við markmið um viðskiptajöfnuð og að í þessu skyni verði dregið úr heildarfjárfestingu og óbeinum aðgerðum beitt til þess að draga úr innflutningi o.s.frv. Þessi háleitu markmið hæstv. ríkisstj. munu að sjálfsögðu ekki sjá dagsins ljós fyrr en frv. til lánsfjárlaga hefur verið lagt fram hér á Alþingi og ég auglýsi eftir því. Hvenær mun það gerast?

Í fjórða lagi hefur verið gefin yfirlýsing um að ríkisstj. muni efna til viðræðna við viðskiptabanka og sparisjóði um lengingu lána til atvinnuvega og húsbyggjenda. Ég óska eftir að fá upplýst hvaða niðurstöður hafi orðið af þeim viðræðum og hvenær þess megi vænta að viðskiptabankar og sparisjóðir efni þetta fyrirheit hæstv. ríkisstj., ekki aðeins við atvinnuvegi heldur húsbyggjendur um lengingu lána þessara aðila.

Í fimmta lagi segir í tölulið 18 í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. að hún muni stefna að aukinni hlutdeild starfsmanna og meðábyrgð í stjórnun fyrirtækja og stofnana. Hér er um að ræða mikið áhugamál Alþfl., sem hann hefur flutt mörg frumvörp um á Alþingi. Við Alþfl.menn höfum áhuga á því, og sjálfsagt sumir stuðningsmenn ríkisstj. einnig, að eitthvað gerist í þessu máli, sem ríkisstj. gaf yfirlýsingu um í ágúst. Við höfum þegar lagt fram frv. um atvinnulýðræði hér á Alþingi, sem mér vitanlega hefur ekki fengið jákvæðar undirtektir hjá ríkisstj. í heild, þó að það mál hafi fengið jákvæðar undirtektir hjá Alþb., sem á aðild að ríkisstj. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. forsrh.: Hvenær megum við vænta þess að yfirlýsing hæstv. ríkisstj. fari að skila einhverjum árangri, a.m.k. hingað inn á Alþingi?

Loks langar mig, frekar fyrir forvitni sakir, til þess að spyrjast fyrir um það sem segir í 19. gr. yfirlýsingar ríkisstj. frá því í ágústmánuði s.l., þar sem hún tekur fram að ríkisstj. muni þar sem ástæða þykir til beita sér fyrir frestun á umfangsmiklum byggingarframkvæmdum opinberra stofnana og fyrirtækja í allt að 18 mánuði. Almenningur skildi þetta t.d. svo, að þarna væri ríkisstj. að boða frestun á hinum umfangsmiklu byggingarframkvæmdum Seðlabanka Ístands hér í Reykjavík. Ég vil spyrjast fyrir um hvaða ákvarðanir hafa verið teknar í þessu sambandi, hvaða byggingarframkvæmdum hefur verið frestað — eða hefur hæstv. ríkisstj. e.t.v. ekki séð ástæðu til að beita sér fyrir neinu slíku þegar hún skoðaði málið betur?

Þetta eru þær fsp. sem ég hef að gera við þessa umr. málsins, en öðrum fsp. gefst mér kostur á að beina til aðila í þeirri nefnd sem ég á sæti í og hefur þegar hafið umfjöllun sína um þetta mál, eins og ég sagði áðan. Það er sem sé ljóst að ég lýsi eftir þeim yfirgripsmiklu aðgerðum í efnahagsmálum sem miðstjórn Alþýðusambands Íslands talaði um í samþykkt sinni og ríkisstj. á enn eftir að draga fram í dagsins ljós.

Herra forseti. Efni þess frv. sem hér liggur fyrir er að öðru leyti til ákaflega einfalt. Það felur aðeins í sér, eins og kunnugt er, fjögur efnisatriði.

Í fyrsta lagi gerir það ráð fyrir helmingslækkun á verðbótum á laun, sem kom til framkvæmda þann 1. des. s.l.

Í öðru lagi gerir það ráð fyrir að á móti skuli vera greiddar láglaunabætur í sama mánuði, sem nema samtals innan við 3% af þeirri launalækkun sem átti sér þá stað. M.ö.o. hyggst ríkisstj. endurgreiða fólki, sem laun voru af tekin í desembermánuði s.l., um það bil 3% af þeirri fjárhæð sem laun fólksins voru lækkuð um í formi láglaunabóta. Það er efnisatriði númer tvö.

Efnisatriði númer þrjú í frv. er í 4. gr. frv. og síðar. Það fjallar um ráðstöfun gengismunar vegna gengisbreytingar sem hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir í tengslum við þessar efnahagsráðstafanir.

Fjórða efnisákvæðið í frv. er hækkun á vörugjaldi á almennum neysluvörum, sem fluttar eru inn frá útlöndum, t.d. á algengum neysluvörum eins og hráefni til súpugerðar og öðrum slíkum matvælum, en með þeim hætti hugðist ríkisstj. með nýjum og hærri skatti afla sér fjár til að geta greitt hinar svokölluðu láglaunabætur, sem áttu að hlífa verkafólki í landinu við þyngsta högginu af kjaraskerðingunni, sem varð þann 1. des. s.l.

Annað felst ekki í þessum margumtöluðu brbl. en þessar ráðstafanir: helmingslækkun á verðbótum á laun, 3% af þeirri fjárhæð endurgreiðir ríkissjóður launafólki í formi láglaunabóta, gengismun er ráðstafað til tiltekinna fyrirtækja og aðila í sjávarútvegi og vörugjaldið illræmda er hækkað. Annað felst ekki í þessum svokölluðu umfangsmiklu efnahagsaðgerðum hæstv. ríkisstj.

Um efnisatriðið ráðstöfun gengismunar get ég verið ákaflega fáorður. Til slíkra úrræða hefur oft verið gripið áður. Í meginatriðum er hér „aðeins“ um að ræða millifærslu innan tiltekinnar atvinnugreinar. Það er verið að ráðstafa verðmætum, sem skapast vegna lækkunar á skráðu gengi íslenskrar krónu innan greinarinnar, og flytja það frá einum framleiðandanum til annars. Út af fyrir sig geta það verið rök, eins og hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan, að slíkt hafi verið gert áður. Það er hins vegar lærdómsríkt að við síðustu gengisfellingu, sem var um áramótin, var gengismunur ekki tekinn, svo hæstv. ráðh. virðist þá hafa komist að niðurstöðu um að ekki væri rétt að grípa til úrræða sem hann greip til í brbl. frá því í ágúst. En ég geri út af fyrir sig engar sérstakar aths. við þessa ráðstöfun gengismunar hér og nú. Ég mun að sjálfsögðu, eins og mínir flokksbræður, skoða brtt. hæstv. sjútvrh. við þessi ákvæði nánar. Við höfum ekki fengið hana til skoðunar fyrr en hann kynnti hana rétt áðan og munum skoða hana í sambandi við þá ráðstöfun sem frv. ella gerði tillögur um og taka afstöðu að lokinni þeirri skoðun.

Um helmingslækkun verðbóta get ég einnig verið mjög stuttorður. Það er gamalkunn aðgerð, sem oft hefur verið gripið til áður af stjórnvöldum, að reyna að hamla gegn vaxandi verðbólgu með því móti að lækka verðbætur á laun til almennings. Það eina sem er sérstakt við þessa ráðstöfun nú er e.t.v. það, að þetta er mesta launalækkun í einu vetfangi sem orðið hefur með þessum hætti. Þetta er Íslandsmet í slíkri aðgerð, sem vissulega á sér fordæmi. Engin ríkisstj. hefur áður gripið til jafnmikillar launalækkunar og gripið var til með þessari aðgerð. En það er samt sem áður e.t.v. ekki það sem er vítaverðast við þá aðgerð sem hér er gripið til og athugunarverðast.

Það er sjálfsagt að viðurkenna það, og ég skal gera það hér og nú þótt í stjórnarandstöðu sé, að við efnahagsörðugleika eins og við Íslendingar höfum átt við að etja á undanförnum árum verður því ekki forðað að allur almenningur verði fyrir kjaraskerðingu. Þegar þjóðartekjur dragast saman hljóta kjör fólksins í landinu að versna. Hitt er allt annað mál, að sú aðferð sem hér er notuð og miðast eingöngu við að hægt sé að draga úr verðbólguhraða á næstu 3–4 mánuðum skilar engum árangri þegar til lengri tíma er litið. Sú aðgerð sem á að hafa áhrif á verðbólguþróun á 3–4 mánaða tímabili hefur engin áhrif á verðbólguna þegar við horfum yfir lengra tímabil. Hvaða áhrif á verðbólgustigið í dag skyldu t.d. þær launalækkanir hafa haft sem gerðar voru fyrir einu, tveimur, þremur eða fjórum árum? Engin. Það skiptir raunverulega engu máli fyrir ástand efnahagsmála á Íslandi í dag þó svo menn hafi á síðasta ári, árinu þar áður eða fyrir fjórum árum gert einhverjar breytingar um greiðslu verðbóta á laun. Öfugmæli er að vissulega skilar slík aðgerð árangri ef menn eru að hugsa um skammtímaverðbólgumælingu til 3–4 mánaða. En sú aðgerð sem skilar árangri á þeim mælikvarða skilar engum árangri þegar til lengri tíma er lítið. Sú fórn sem launafólk er látið færa með þessum hætti er fyrir fram runnin út í sandinn. Og menn vita það af reynslunni nú orðið, þegar til hennar er gripið, eins og sjá má af því, herra forseti, að áhrif af þeirri ákvörðun sem ríkisstj. tók í ágúst um að skerða verðbætur um helming í des. með brbl., eru nú þegar runnin út í sandinn. Nú er ljóst að vegna þeirra aðgerða sem gripið var til um áramótin hefur gengið verið lækkað og það er einnig ljóst, og því hefur verið lýst yfir, að áframhaldandi hröð gengisfelling blasir við okkur og hefur verið að eiga sér stað á umliðnum vikum. Áhrif þessarar gengisbreytingar á verðlagið í landinu munu þýða að núna stefnum við í um 80% verðbólgu á næstu 12 mánuðum. Við stöndum m.ö.o. í nákvæmlega sömu sporum og við stóðum í fyrir 2–3 mánuðum, áður en fólk var neytt með brbl. til að færa þá fórn sem það færði 1. des. s.l. Nú, þann 24. jan. í upphafi ársins 1983, hefur fórnin, sem fólk var látið færa með brbl. hinn 1. des. s.l., þegar orðið til einskis, þannig að verðbólguhraðinn sem nú blasir við er nákvæmlega sá sami og hann var talinn mundu verða þegar brbl. voru sett.

Árangurinn af launalækkuninni hefur sem sé enginn orðið. Fórnin hefur runnið út í sandinn á einum og hálfum mánuði. Ef menn ætla áfram að rökfæra eins og menn gerðu áður en brbl. voru sett, þá horfast menn nú í augu við það, að ef menn ætla að færa verðbólguna á næsta 12 mánaða skeiði úr 80% niður í 60% verða þeir, ef menn ætla að nota þessar hefðbundnu aðferðir, að grípa til þess ráðs þann i. mars n.k., þegar næst kemur að því að greiða verðbætur á laun, að helminga þær verðbætur út frá þeirri röksemd að ella yrði verðbólgan jafnvel yfir 80%, en með þessu móti væri hægt að fá hana niður fyrir 60. Þannig eru menn stöðugt að éta upp aftur og aftur sömu ákvarðanirnar. Eini munurinn er sá, að hraði verðbólgunnar verður stöðugt meiri. Aðgerð af þessu tagi, sem dugði kannske 6 mánuði fyrir 4–5 árum, dugar ekki lengur en í 11/2–2 mánuði nú. Það er vegna þess að við erum komnir á nýtt verðbólgutímabil, nýtt verðbólguskeið. Við erum ekki lengur á skeiði 40% verðbólgu. Við erum komnir upp í 60–80% verðbólgu og launalækkanir eins og þær sem dugðu til skammvinns árangurs fyrir 5 árum í svona 6 mánuði duga ekki lengur en í 2–3 mánuði miðað við árferði núna. Þetta vildi ég aðeins segja um þá aðgerð sem felst í 1. gr. frv. og er meginaðgerð frv. Fórnin, sem launafólk var látið færa, er þegar runnin út í sandinn. Menn standa nú þegar í sömu sporum og menn stóðu í áður en brbl. voru sett og sem efnahagsaðgerð er þetta plagg ekki einu sinni pappírsins virði sem frv. er ritað á.

Um láglaunabæturnar þarf ég ekki heldur að fara mörgum orðum, því ég held að þjóðin þekki þá hörmungarsögu af eigin raun. Á fundi fjh.- og viðskn. í morgun vakti ég athygli á því, að í 2. gr., um láglaunabæturnar, eru ákvæði um að ríkisstj. sé heimilt að ákveða að sérstakar bætur verði greiddar úr ríkissjóði til láglaunafólks á árinu 1982. Þetta ákvæði í brbl. sem ríkisstj. setti áleit hún að væri nægilegt umboð til sín til að ráðstafa þessum fjárhæðum sjálf og ein án atbeina Alþingis. Ég vil leiðrétta þann ranga skilning hjá mörgu fólki að Alþingi hafi fengið um það að fjalla hvernig þessum láglaunabótum yrði ráðstafað. Í reglugerð, sem fjmrn. hefur gefið út án þess að leita samráðs við Alþingi eða alþm., hefur leiðin verið valin um hvernig megi úthluta þessu fé, en það er ekki nóg með það. Við þessa reglugerðarsamningu tekur fjmrn. sér vald til að breyta ákvæðum brbl. Í ákvæðum brbl. segir að þessar bætur skuli greiddar úr ríkissjóði til láglaunafólks, en reglugerðin fjallar ekki um láglaunafólk. Hún fjallar um lágtekjufólk. Það vita ýmsir þm. hér að verið getur mjög alvarlegur munur á milli annars vegar láglaunafólks, sem lögin ákveða, og hins vegar lágtekjufólks, sem reglugerðin snýst um. En það er ekki aðeins það sem hæstv. ráðh. hefur gert. Hann hefur einnig tekið sér vald til þess; sem frv. veitir honum ekki, að ákveða að fólkið sem lægstu launin ber úr býtum skuli ekkert fá. Þar held ég að hafi ekki verið skilningur nokkurs manns, hvorki í hópi almennings né í hópi þm. Í reglugerð ráðh. hefur verið sett ákvæði um að fólk, sem hafði á árinu 1981 tekjur undir 2.5 gömlum millj., skuli engar láglaunabætur fá. Hvað er láglaunafólk ef ekki þetta fólk? Hvaðan kemur ráðh. vald til að ákveða með þessum hætti í reglugerð að það fólk sem við skörðust kjörin býr skuli engar bætur fá?

Þá kom einnig fram í umfjöllun um þetta mál á sameiginlegum fundi fjh.- og viðskn. beggja deilda fyrir áramótin, að Alþýðusambandsforustan hefði verið til kvödd til að vera ríkisstj. til samráðs um þessa reglugerðarsamningu. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fékk hins vegar ekki að vera með í ráðum. Það var alveg ljóst á forustumönnum Alþýðusambandsins, sem mættu á fundi fjh.- og viðskn., að þeir gáfu ekki yfirlýsingu um að þeir væru sammála þessari leið. En það var alveg ljóst af þeirra orðum, að þeir voru hafðir með í ráðum og þeir hreyfðu ekki neinum alvarlegum aths. við þá leið sem hæstv. ráðh. hafði valið. Núna hlaupa þessir menn hins vegar fram fyrir skjöldu, þegar liggur fyrir hvaða mistök hafa orðið við þessa úthlutun, og bera ekki aðeins allt af sér, sverja ekki aðeins fyrir að hafa komið þarna nálægt, heldur gerast allra manna harðastir í gagnrýni á framkvæmdina á því kerfi sem þeir voru hafðir með í ráðum um hvernig yrði byggt upp. Ég þurfti að óska eftir því fimm sinnum á fundi fjh.- og viðskn. í morgun áður en loksins var á það fallist að forsvarsmenn þessara aðila yrðu kallaðir á fund með n. og þeim sérfræðingum fjmrn., sem gengu frá reglunum í samráði við þessa aðila, og yrðu látnir standa þar fyrir máli sínu augliti til auglitis við þá menn sem ég veit að höfðu samráð við þá um hvernig frá málinu skyldi gengið. Látum þá sjá hvort þeir eru jafnfljótir til að fullyrða upp í opið geðið á samstarfsmönnum sínum úr fjmrn. að þeir hafi ekkert vitað og að engu verið spurðir, eins og þeir hafa gert á opinberum vettvangi. (Gripið fram í.) Nei, það er það ekki vegna þess að við vorum upplýstir um það á fundinum í morgun að ýmsar af þeim upplýsingum sem komið hefðu fram og gagnrýni eftir á frá þessum aðilum væru ekki bara byggðar á misskilningi, heldur á beinum rangindum. Þá er rétt að þeir sem fullyrða að um beinar rangfærslur og ósannindi sé að ræða standi einnig fyrir máli sínu gagnvart forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar. En það er ósköp mannlegt og skiljanlegt, að eftir að framkvæmdin hefur orðið með þessum hætti skuli menn í forustu fyrir svona voldugum almannasamtökum, sem hafa verið hafðir með í ráðum bak við tjöldin, ekki vilja við neitt kannast. Það er skiljanlegt og mannlegt, en það er ekki stórmannlegt.

Herra forseti. Alþfl. hefur lagt það til og flutt um það frv. hér á Alþingi, sem nú liggja fyrir, að í staðinn fyrir að menn taki á þessum vanda með þessum hefðbundnu aðgerðum, sem allir þekkja, dugðu í 6 mánuði fyrir 5 árum, en duga nú ekki nema í 11/2 mánuð, gerbreytum við þeirri efnahagsstefnu sem skapar ávallt þennan sama vanda aftur og aftur með nokkurra mánaða millibili.

Við höfum lagt til í fyrsta lagi, að með breytingum á lögum um tekju- og eignarskatt verði komið á afkomutryggingu heimilanna, þar sem þjóðfélagið ábyrgist öllum þegnum sínum tiltekið lágmarkslífskjarastig, sem verðbólga, skattahækkanir og aðrir óviðráðanlegir atburðir geta ekki hróflað við.

Í öðru lagi leggjum við til að með breytingum á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins og fjárlögum verði stigið fyrsta skrefið í afnámi útflutningsbóta á landbúnaðarafurðir í áföngum, en í staðinn verði landbúnaðinum veittur tímabundinn framleiðslu- og framleiðnistyrkur til stuðnings við nýjar og ábatasamar bú reinar og uppbyggingu iðnaðar í dreifbýlinu.

Í þriðja lagi liggur hér frammi frá okkur frv. um tímabundna stöðvun á innflutningi fiskiskipa og till. um að áhersla verði lögð á að efla hagræðingu og tækniframfarir í fiskvinnslu og breytingar í þá átt verði gerðar á lögum og reglum um lánveitingu stofnlánasjóðanna.

Í fjórða lagi höfum við lagt til að kosin verði á Alþingi nefnd til að gera í samráði við sjómenn og útvegsmenn tillögur um veiðileyfastjórn á fiskveiðum þannig að full og hagkvæm nýting fáist á íslenskum fiskimiðum og hagstæðustu útgerðaraðstæður fái að njóta sín.

Í fimmta tagi flytjum við frv. um að allt sparifé almennings verði samstundis verðtryggt til að tryggja hag sparifjáreigenda og skapa á ný nægilegt framboð á lánsfé. Jafnframt liggur fyrir frá okkur frv. um breytingu á útreikningsreglum lánskjaravísitölu, þannig að greiðslubyrði af verðtryggðum lánum aukist aldrei umfram hækkun verðbóta á laun.

Í sjötta lagi höfum við lagt fram hér á Alþingi frv. til að mæta sérstaklega áhrifum verðtryggingarstefnunnar gagnvart húsbyggjendum með veitingu sérstakra viðbótarlána úr bankakerfinu til húsnæðisöflunar.

Í sjöunda lagi höfum við lagt til að á næstu þremur árum verði ný erlend lán takmörkuð við skuldbreytingar og erlenda kostnaðarþætti arðbærra framkvæmda, en önnur erlend lántaka verði bönnuð með lögum.

Í áttunda lagi höfum við lagt fram frv. um að Framkvæmdastofnun ríkisins verði lögð niður í núverandi mynd, en byggðastefna verði mörkuð með afgreiðslu Alþingis á fjármögnunar- og framkvæmdaáætlun í byggðamálum til fjögurra ára í senn.

Þetta eru ekki bara einhver falleg orð í innantómri yfirlýsingu ríkisstj. eða stjórnmálaflokks. Þetta eru allt saman þingmál, frv. að lögum, sem Alþfl. hefur lagt fram á þessu þingi og eru nú til umfjöllunar og meðferðar á Alþingi. Samþykkt þeirra mundi þýða að íslenska þjóðin væri að gerbreyta ekki bara efnahagsstefnunni sem stjórnvöld hafa fylgt, heldur líka þeim starfsaðferðum sem tíðkast hafa hjá stjórnvöldum, hjá ríkisstj., hjá Alþingi og hjá embættismönnum um meðferð þessara mála. Aðeins slík kerfisbreyting getur skilað árangri vegna þess að slík breyting er varanleg, en ekki skammtímaráðstöfun eins og bráðabirgðaaðgerð hæstv. ríkisstj.

Það frv. til staðfestingar á brbl., sem hér er til afgreiðslu, gerir á hinn bóginn einungis ráð fyrir kaupskerðingu hjá launafólki. Slík ráðstöfun ein sér er ósanngjörn og hún skilar engum árangri. Alþfl. er því andvígur þessu frv. og munu þm. hans greiða atkv. gegn 1. gr. þess. — [Fundarhlé.]