24.01.1983
Neðri deild: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef hingað til farið að hætti höfðingja míns í þessu máli og haft um sem fæst orð og mun ekki gera þessar efnahagstillögur að umræðuefni almennt. En þegar hér kom fram í dag brtt. hlýtur, þrátt fyrir það, herra forseti, að beðið hefur verið um að málalengingar yrðu ekki hafðar í frammi, að vera eðlilegt að þm. fái að tjá sig um hana, ekki síst þar sem í dag, þegar hæstv. sjútvrh. talaði fyrir þessari till., var vitnað í skýrslu sem mér er ekki annað kunnugt um en að hafi verið dreift hér í þinginu sem trúnaðarmáli. Ég hefði ekki gert þá skýrslu að umræðuefni nema vegna þess að í hana var vitnað. Ég hef ekki heldur hugsað mér að fara að lesa skýrslu þessa upp. En það hlýtur að vekja þm. nokkra furðu að skýrsla sú sem liggur til grundvallar brtt., sem áreiðanlega er umdeild, en það er hvernig fara skuli með gengismun, skuli ekki birt þm. því að sjútvrn. er falið að fara með þetta meira og minna að eigin geðþótta, eins og hv. þm. Vilmundur Gylfason sagði hér áðan. Þetta kallaði hv. þm. Vilmundur Gylfason millifærða siðspillingu, svo að líklega á ég að beina spurningum mínum til hæstv. dómsmrh., en ég mun samt snúa mér að hæstv. forsrh. í þessu tilviki.

Það sem vekur athygli er í fyrsta lagi það, að þegar við fjölluðum fyrir jólin um áætlaðan gengismun man ég ekki betur en um væri talað 120 millj. Á örfáum vikum hækkar þessi gengismunur um hvorki meira né minna en 80 millj. Sú spurning hlýtur að vakna, hvaðan upplýsingar um óseldar afurðir séu fengnar og hvað það séu áreiðanlegar upplýsingar? Að mínu viti sem þm. sem þarf að taka afstöðu til slíkra hluta eru þetta ekki nógu góðar upplýsingar. Þær verða að vera nokkru nákvæmari til þess að hægt sé að taka á þeim mark. Þegar trúnaðarskýrslan, sem hæstv. ráðh. vitnaði til í dag, er skoðuð styrkist kannske enn grunur manns um hversu óáreiðanlegar upplýsingar við þm. höfum til að byggja á. Þar kemur t.d. fram, sem ég hygg að sé prentvilla og leyfi mér að halda því fram að óskoðuðu máli, að nefnd sú sem skipuð var í nóvember 1981 hafi sent út 800 bréf. Ég held að það geti tæpast verið. Ég spái því að óskoðuðu máli að þarna hljóti að eiga að standa 200, en skal þá taka leiðréttingu ef hún berst. En hvort sem bréfin voru 800 eða 200 kemur fram að eftir endurtekinn eftirrekstur bárust alls 100 svör og að um er að ræða fyrirtæki sem hafa haft um 30% af öllum heildartekjum sjávarútvegsins í landinu. Það er harla lítið til að byggja á. Síðan er talað um að 59 fyrirtæki hafi verið skoðuð nánar. Þau eru orðin nokkuð fá. Þá kemur listi yfir fyrirtæki sem ekki svöruðu.

Ég verð að líta á það sem nokkra lítilsvirðingu gagnvart stjórnskipaðri nefnd að þessi fyrirtæki, sem ærið oft eru hér á borðum okkar með beiðni um hvers kyns stórkostlega fjárhagsfyrirgreiðslu, og ber ekki að undrast það um höfuðatvinnuveg landsmanna, skuli — 42 fyrirtæki af þessum 100 eins og hér segir — senda gögn sem ýmist berast of seint eða voru ófullnægjandi. Manni gæti dottið í hug, þegar maður sér hvaða fyrirtæki þetta eru, að þetta hafi einmitt verið fyrirtækin sem skulduðu réttum aðilum, þ.e. bönkunum, og áttu þar af leiðandi ekki von á fyrirgreiðslu í þetta skipti. En eftir stendur, að til þess að slík vinna beri einhvern varanlegan árangur gæti maður ímyndað sér að þörf væri á að úttektin ætti sér stað á öllum fyrirtækjum til þess að nefndin kæmi með einhverjar haldbærar till.

Það kann að vera að hæstv. sjútvrh. sé ánægður með vinnu þessarar nefndar. Ég get ekki tekið undir það. Ég sé ekki að þessi nefnd geri annað en tína til þau fyrirtæki sem hún telur að þurfi að njóta góðs af þessum gengismun. Þarna eru engar efnislegar till., engar till. um breyttan rekstur. Þetta eru einfaldlega till. um meiri peninga. Og ég hlýt þá að spyrja hæstv. forsrh.: Hvers vegna var ekki vinna þessarar nefndar nýtt betur til að gera till. um einhverjar varanlegar úrbætur?

Við þekkjum öll þá sögu, eins og hér hefur komið fram hjá ýmsum ræðumönnum, að fyrirtækin fjárfesta mjög oft nokkuð glæfralega að því er virðist, þegar vel árar, vegna þess að það er alltaf hægt að koma hingað og segja: Nú höfum við ekki veltufé. Þetta er algengur leikur. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni að þetta er alveg óleyst mál. Við vitum þetta öll og okkur er það alveg ljóst, bæði stjórnarþm. og stjórnarandstöðuþm., að það er afskaplega lítið varanlegt í þessum till. Og ef upplýsingar, sem við erum að byggja á, eins og upplýsingar um óseldar birgðir, eru álíka áreiðanlegar og gefnar af jafnmikilli samviskusemi og þær upplýsingar sem þessi nefnd fékk er ekki traustvekjandi fyrir þm. að byggja á þeim.

Ég skal ekki, herra forseti, lengja þetta mál að sinni, en ég tel að eðlilegt sé að óska eftir að skýrslur sem þessar séu birtar þm., þannig að menn viti í raun og veru nokkuð um hvað þeir eru að tala. Þessar athugasemdir hlýt ég að láta hér í ljós.