24.01.1983
Neðri deild: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hér er til 1. umr. í hv. Nd. frv. til staðfestingar á brbl. sem hæstv. ríkisstj. setti í sumar og eru lög sem fjalla fyrst og fremst um launaskerðingu og skattahækkanir í þeim tilgangi sem nefndur er í fskj. með frv. og þeim bráðabirgðaráðstöfunum sem hæstv. ríkisstj. efndi til seint í ágústmánuði.

Áður en ég vík að efni málsins tel ég ástæðu til þess, af því að ég hef gert það að venju í þessum ræðustól, að benda á hve slæmt það er að þegar staðfestingarfrv. vegna brbl. eru lögð fram á hv. Alþingi skuli í stað grg. eða athugasemda, eins og gengur og gerist þegar venjuleg frv. eru lögð fram, koma fskj., sem er að sjálfsögðu ekkert annað en brbl. sjálf og þess vegna prentaður upp sá texti sem felst í sjálfu staðfestingarfrv. Það hlýtur að vera hægt að breyta þessu. Það hlýtur að vera eðlileg krafa þeirra sem á hv. Alþingi starfa, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh. láti grg. með einstökum greinum brbl. fylgja slíkum staðfestingarfrv. Ekki síst á þetta við þegar frv. fjalla um flókin efni, eins og stundum vill verða og á við a.m.k. í nokkrum greina frv. sem hér er til umr.

Í öðru lagi langar mig til að bera brigður á að brýna nauðsyn hafi borið til lagasetningar þessarar í sumar í ágústmánuði. Það hefði verið eðlilegra að kalla þing saman og láta hv. Alþingi fjalla um málið. Það var tiltölulega auðvelt þegar þess er gætt að hér í þingflokksherbergjum fóru fram um sömu mundir fundir stjórnmálaflokkanna um þetta mál, þar sem afstaða var tekin til brbl., og þess vegna mættu langflestir hv. þm. í sjálfu þinghúsinu. Nú má halda því fram, að ekki hafi gefist kostur á að leggja þetta frv. fram sem venjulegt frv. á slíku þingi, sem hefði verið kallað saman í sumar, en þá ber þess að geta, að einmitt þegar hæstv. ríkisstj. lét þetta frv. frá sér fara í formi brbl. í ágústmánuði lá það fyrir að einn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj., hv. 6. þm. Suðurt., hafði gert hæstv. ríkisstj. grein fyrir því að hann teldi sig ekki vera lengur stuðningsmaður hennar. Þetta þýddi það að sjálfsögðu að hæstv. ríkisstj. var ljóst á þessum tíma að hún hefði ekki nægan meiri hl. í Nd. Alþingis og varð þess vegna að leita samráðs hjá stjórnarandstöðunni, ef hún ætlaði sér að koma nauðsynlegum málefnum fram á hv. Alþingi. Það var m.a. á þessum grundvelli sem yfirlýsing þingflokks Sjálfstfl. var mótuð, en í henni var bent á nauðsyn þess að kalla þá þegar saman þing, ganga frá nauðsynlegustu málum á því þingi, þ. á m. kjördæmamálinu, rjúfa þing síðan, strax í haust, og efna til kosninga það snemma að ný ríkisstjórn gæti tekið við og haft á bak við sig góðan þingmeirihluta, sem nauðsynlegur er til þess að fást við þau vandamál sem blasa við íslensku þjóðlífi. Í stað þess að fara að þessum ráðum kaus hæstv. ríkisstj. að sitja án þess að geta stjórnað.

Þá langar mig og að minnast á það varðandi það frv. sem hér er til umr., að það hlýtur að vera mjög óeðlilegt að setja í brbl., með tilliti til þess ákvæðis í stjórnarskránni sem fjallar um brbl., ákvæði sem framlengja skatta, sem voru þá þegar í gildi, til 31. des. á s.l. ári, eins og vörugjaldið var, og framlengja þá um heilt ár eða til 31. des. á árinu 1983. Hæstv. ríkisstj. lýsir því m.ö.o. yfir í ágústmánuði á árinu 1982, að brýna nauðsyn beri til að framlengja skatta, sem voru í gildi þar til 31 des. eða fjórum mánuðum síðar, til jafnlengdar næsta ár á eftir. Ég tel að þetta, sem þarna hafi verið gert, hljóti að fara á svig við það ákvæði stjórnarskrárinnar sem heimilar handhafa forsetavalds að gefa út brbl.

Það fer ekki framhjá neinum, að hér á Alþingi hefur í vetur myndast nokkurs konar þrátefli þar sem hæstv. ríkisstj. getur ekki komið fram málum án samstarfs við stjórnarandstöðu og stjórnarandstaða getur ekki fellt hæstv. ríkisstj., en hefur þó afl atkv. til þess að stöðva viss mál án þess þó að geta breytt ákvæðum í heilum lagafrv. Það hlýtur þess vegna að vera forsenda fyrir öllum varanlegri efnahagsráðstöfunum, sem grípa þarf til á næstunni, að hæstv. ríkisstj. segi af sér, rjúfi þing og efni til kosninga. Aðeins þannig má búast við því að skýrar línur fáist í stjórnmálin, en það er auðvitað forsenda þess að hægt sé að takast á við vandamálin.

Það kom mér satt að segja á óvart að hlusta á ræðu hv. 4. þm. Reykv., nýlega sjálfkjörins formanns Bandalags jafnaðarmanna, þegar hann lýsti því yfir að hann væri á móti því frv. sem hér er til umr. og byggði það m.a. á því — og þó aðallega á því — að þetta frv. væri til leiðréttingar á samningum sem þegar hefðu verið gerðir og þetta frv. sýndi glögglega þá röngu leið sem stjórnvöld gripu ætíð til til þess að leiðrétta slíka samninga. Þessi hv. stuðningsmaður fimmflokkakerfis hér á landi, hv. 4. þm. Reykv., hefur samt sem áður lýst því yfir að hann sé fylgjandi eða geti alla vega séð sér fært að sitja hjá við atkvgr. um frv. til laga um Olíusjóð fiskiskipa og fleira í þeim dúr, sem er 159. mál þingsins og lagt fram hér í Nd. En þegar það mál er skoðað kemur í ljós að einmitt í því frv., frv. um Olíusjóð fiskiskipa, eru stjórnvöld að grípa inn í samninga með nákvæmlega sama hætti og gert er í brbl. og öðrum þeim ráðstöfunum sem gerðar eru til að leiðrétta það sem hefur verið gert af ábyrgum aðilum. Það má því halda því fram, svo notuð séu ummæti hv. þm., að í slíkum vendingum eigi sér stað siðlaus millifærsla á málefnum eða hugsjónum, ef hann vill tala um hugsjónir í þessu sambandi.

Það sem auðvitað skiptir máli, herra forseti, í þessari umr., sem hér fer fram, og í umr. um meiri háttar mál á Alþingi þessa dagana er að úr því verði skorið hvenær kosið verður næst. Hv. formenn Alþb. og Framsfl., Svavar Gestsson og Steingrímur Hermannsson, hafa báðir lýst því yfir að þeir hafi viljað láta kosningar fara fram fyrir löngu, helst strax í haust, og þeir séu tilbúnir að láta kosningar fara fram hvenær sem er og helst sem allra fyrst. Nú er það svo, að samkv. íslenskum lögum er þingrofsréttur hjá forseta lýðveldisins, en það er forsrh. sem er handhafi þess réttar í raun. Það er þess vegna aðeins hæstv. forsrh. sem getur stöðu sinnar vegna lýst því yfir hvenær þing skuti rofið. Það hlýtur að vera eðlilegt í umr. um jafnveigamikið mál og hér er fjallað um, sem eru bráðabirgðaráðstafanir og duga aðeins um næstu vikur, að ætlast til þess að hæstv. forsrh. segi frá því í þessum umr., þegar hann tekur til máls hér á eftir, hvort hann sé samþykkur þeim yfirlýsingum sem formenn beggja stjórnarflokkanna hafa gefið í þessu máli. Ég veit reyndar að hæstv. forsrh. hefur sagt að kosningar geti farið fram um eða eftir sumarmál, ef ég man það rétt, en á þeirri yfirlýsingu, sem er æðiloðin, má þó skilja að svo kynni að fara að þetta gæti dregist á langinn. Jafnvel hefur stundum heyrst að hæstv. forsrh. kjósi að halda stjórninni á lífi, ef ég má nota það orð að halda dauðri stjórn á lífi, — við skulum kannske fremur segja: á floti. (GJG: Dauðri stjórn á lífi!) Það er varla hægt. Það er rétt ábending hjá hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni, sem lýsir því yfir hér að ekki sé hægt að halda dauðri stjórn á lífi. Það er athyglisverð yfirlýsing hv. þm., að hann skuli vera sammála mér um að þessi stjórn sé í raun dauð. En það er auðvitað hægt lögum samkv. eða stjórnarskránni samkv. að framlengja kjörtímabilið eða hafa kosningar ekki fyrr en í byrjun desember. Eftir slíkri yfirlýsingu er auðvitað beðið. Það væri vel til fundið á þessu máli, sem hefur verið til meðferðar á hv. Alþingi um langt skeið, að hæstv. forsrh. segði frá því skýrt og skorinort hvort hann sé sammála meðráðh. sínum varðandi þetta mál.

Það er alkunna, að sú hæstv. ríkisstj. sem nú situr hefur á undanförnum árum fylgt stefnu sem kennd hefur verið við niðurtalningu, niðurtalningarstefnu, en það var stefna sem stærri stjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, barðist fyrir fyrir síðustu kosningar og vann út á nokkurn sigur í þeim kosningum. Þessari stefnu var fylgt að þeirra sögn og er hægt að sanna það með tilvitnunum í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj. þar sem byggt er á þessum hugmyndum, en einmitt í þeim sáttmála kemur skýrt fram að ætlunin var að telja niður verðbólguna, sem átti að gefa þá niðurstöðu, að á s.l. ári, árinu 1982, átti verðbólgan hér á landi að vera sú sama og í nágranna- og/eða viðskiptalöndum. Hefði þessi niðurtalningaraðferð skilað þeim árangri sem höfundar væntu væri verðbólga hér á landi innan við 10%, en þær tölur heyrast frá nágrannalöndum, bæði Bandaríkjunum og Bretlandi, að verðbólga þar hafi farið lækkandi að undanförnu og sé u.þ.b. 5%. (GJG: Atvinnuleysi hefur vaxið.) Það er rétt hjá hv. alþm. Guðmundi J. Guðmundssyni. Það er ágætt að hann skyldi minna mig á að atvinnuleysi hefur vaxið í þessum löndum, þó ekki í sama hlutfalli. En það er athygli vert hér á landi, að á sama tíma og við höldum úti óðaverðbólgu og verðbólga stefnir líkast til í 70 til 80% á yfirstandandi ári er mikil hætta á því að atvinnuleysi verði í landinu. Þá stendur íslenska þjóðin frammi fyrir tvöföldu vandamáli, óðaverðbólgu og fjöldaatvinnuleysi, en ekki aðeins öðru vandamálinu eins og hingað til. Þetta er ósköp eðlilegt vegna þess að það atvinnuleysi sem hér gæti skapast er afleiðing þeirrar óstjórnar sem m.a. hefur komið fram í óðaverðbólgu hér á landi.

Í framsöguræðu sinni, sem flutt var s.l. miðvikudag, fjallaði hæstv. forsrh. nokkuð um þau efnisatriði sem komu fram í máli manna við umr. um þingsköp, sem fóru fram sama dag. Benti hann ýmsum hv. alþm. á að eðlilegra væri að bera fram þær fsp. sem þá voru bornar fram í sjálfri umr. um brbl. Ekki efast ég um að jafnþingvanur maður og hæstv. forsrh. hafi rétt fyrir sér í þessum efnum, en um leið verð ég að telja að með þessari skoðun sinni hafi hann jafnframt fallist á að það sé eðlilegt að hæstv. frsm. svari þeim fsp. sem koma fram við 1. umr. um málið. Á undan mér hafa þeir hv. 1. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Vestf. lagt fram miklar spurningar til hæstv. ráðh., þ. á m. hæstv. forsrh., og tel ég eðlilegt að hér á eftir svari hæstv. forsrh. þeim fsp.

Í þingskapaumr. á miðvikudaginn var kom fram sú beiðni, að hæstv. sjútvrh. legði þá þegar eða sem allra fyrst, ekki síðar en við 1. umr., fram brtt. um ráðstöfun gengismunar. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir að hafa brugðist við með viðeigandi hætti og lagt fram þá brtt., þótt ég sé ekki sammála efni þeirrar till.

Í öðru lagi var á það bent í þingskapaumr. á miðvikudaginn í síðustu viku, að hv. þm., sem hér er staddur í salnum eins og heyra má á áhuga hans á ræðu þeirri sem nú er flutt, yrði að fá tækifæri til að lýsa skoðun sinni við 1. umr. á svokölluðum láglaunabótum, sem ákveðnar voru fyrir jólin og hafa valdið talsverðu fjaðrafoki, ef ekki miklu umtali, í þjóðfélaginu að undanförnu, og fær hann ugglaust tækifæri til þess síðar í þessari umr.

Loks var það mjög áberandi í umr. sem fór fram um þingsköp á miðvikudaginn var að menn lögðu áherslu á að hæstv. ríkisstj. gerði Alþingi grein fyrir því hvort ekki ætti að leggja fram svo kölluð fylgifrv. áður en endanleg afgreiðsla brbl. yrði á Alþingi. Þar er auðvitað fyrst og fremst átt við það frv. sem ríkisstj. lofaði að leggja fram og samningar tókust um á milli stjórnarflokkanna í ágústmánuði, þ.e. um nýtt verðbótakerfi eða viðmiðunarreglur sem svo hafa verið kallaðar, en þá er gengið út frá því sem segir í 1. lið yfirlýsingar ríkisstj., sem er fskj. með frv. og er dagsett 21. ágúst 1982, og ég les hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Að undangengnum frekari viðræðum við aðila vinnumarkaðarins verði tekið upp nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun; með hliðsjón af hugmyndum viðræðunefndar um vísitölumál, þannig að verðbætur á laun verði greiddar samkv. nýju viðmiðunarkerfi eftir 1. des. 1982.“

Í þessum texta segir skorinort að tekið verði upp nýtt viðmiðunarkerfi og ekkert loforð er gefið um að það samráð sem talað er um við aðila vinnumarkaðarins skuli breyta niðurstöðum eða hafa veruleg áhrif á þær niðurstöður sem virtust vera, því að í þessari 1. gr. er bent á að hliðsjón skuli höfð af hugmyndum viðræðunefndar sem þá þegar lágu fyrir. En það sem hins vegar má deila um er hvað það þýðir þegar stendur í slíkum texta: eftir 1. des. 1982. Allir dagar eftir 1. des. 1982 gætu þar komið til greina og engin leið er að sjá í þessum texta hvenær eigi að byrja á þessu. En þó held ég að flestir Íslendingar, ef ekki allir, skilji þennan texta svo, að kerfið hefði átt að taka upp frá 1. des. s.l. Nú óska ég eindregið eftir því, að hæstv. forsrh. geri hv. Alþingi grein fyrir því hvað hafi átt að felast í þessum texta, í fyrsta lagi hvort hæstv. ríkisstj. hafi ekki náð samkomulagi um þetta mál s.l. sumar í ágústmánuði, hvort einhver breyting hafi orðið á slíku samkomulagi sem hafi tafið framlagningu málsins og hvort ástæða sé til að ætla að hæstv. forsrh. leggi nú áherslu á að mál þetta, sem hér er til umr. verði afgreitt án þess að viðmiðunarfrv. sjái dagsins ljós. Það hefur heyrst og sést í blöðum að Alþb.-menn hafi gengið gegn samþykkt sem gerð hafi verið í ríkisstj. á sínum tíma. Sé það rétt hlýtur hæstv. forsrh. að skýra frá því, svo mikilvægt sem þetta mál er ef menn ætla að ná tökum á vandamálum sem skapast vegna verðbótakerfisins.

Það er fjölmargt annað, sem kemur fram í yfirlýsingu ríkisstj. frá því í sumar, sem ástæða væri til að fjalla verulega um. Það kemur t.d. fram í þessari yfirlýsingu, að meginmarkmið ríkisstj. með setningu brbl. hafi verið fjögur.

Í fyrsta lagi skyldi draga úr viðskiptahallanum þannig að á næstu tveimur árum, þ.e. 1983 og 1984, megi ná hallalausum viðskiptum við önnur lönd. Nú er það ljóst, að viðskiptahallinn á síðasta ári er líklega á milli 11 og 12% af þjóðarframleiðslunni og líkur eru á að viðskiptahallinn á yfirstandandi ári verði að minnsta kosti 8% nema til komi aðrar aðgerðir en þær sem þegar hefur verið lýst og þegar hefur verið gripið til. Ég fæ ekki séð að þessar bráðabirgðaráðstafanir, þessi brbl., geti með nokkru móti náð tilgangi sínum. Þvert á móti virðast vera líkur til þess að viðskiptahallinn verði áfram, en viðskiptahalli þýðir það í raun að skuldir erlendis aukast og má búast við því, ef fram heldur sem horfir, að skuldir íslensku þjóðarinnar erlendis verði 55%, ef ekki meira, af þjóðarframleiðslunni á yfirstandandi ári. Vissulega ber að taka tillit til þess í þessu sambandi að þetta hlutfall hækkar meðal annars vegna þess að gert er ráð fyrir samdrætti þjóðarframleiðslunnar, en það er af þeim stofni sem reiknað er.

Í öðru lagi ætlaðist hæstv. ríkisstj. til þess að undirstöður atvinnulífsins treystust með þeim aðgerðum sem gripið var til í sumar. Þar segir jafnframt, að þær séu gerðar til þess að auka framleiðni og framleiðslugetu þjóðarinnar. Og ég spyr: Er líklegt að það fylgifrv., sem samþykkt var síðustu dagana fyrir jól um breytingar á orlofslögunum, auki framleiðslugetu þjóðarbúsins og framleiðni þegar það er upplýst að ráðuneytisstjóri fjmrn. hefur sagt að ríkið þurfi að ráða milli 230 og 240 starfsmenn til viðbótar ef halda á úti sömu þjónustu og starfsemi og ríkið stendur fyrir nú? Auðvitað gildir nákvæmlega sama um aðra atvinnustarfsemi í landinu, um þá atvinnuvegi sem standa undir allri starfsemi í landinu.

Í þriðja lagi var sagt að verja ætti lægstu laun. Það var gert með svokölluðum láglaunabótum sem alkunna er. Í fjórða lagi skyldi veita viðnám gegn verðbólgu, sem nú er gert ráð fyrir að verði á milli 60 og 80%, svo að ég vitni beint til forstjóra Þjóðhagsstofnunar, sem flutti erindi litlu fyrir jól, en gert er ráð fyrir að verðbólgan fari í 75% á þessu ári, verði ekki frekar að gert.

M.ö.o.: öll fjögur meginmarkmið ríkisstj. hafa brugðist. Það er kannske ekkert við því að segja og helstu rökin gegn þessu sjónarmiði mínu eru e.t.v. þau, að ef þetta hefði ekki verið gert hefði verðbólgan orðið enn meiri. En ég spyr á móti: Sætta menn sig við 75% verðbólgu og atvinnuleysi eða ber þeim stjórnvöldum sem að slíku standa að segja af sér og efna til kosninga? Þetta er auðvitað spurning um siðferðilegt mat, en um leið pólitískt, en á þessu ber að vekja athygli.

Það mætti fara mörgum orðum um alla þá töluliði sem koma fram í yfirlýsingu ríkisstj. Þar er m.a. sagt að undirbúið verði sérstakt átak í markaðs- og sölumálum íslenskra afurða erlendis. Það er eðlilegt að spurt sé hvernig að þessu hafi verið staðið. Þar segir að aukin áhersla verði lögð á sparnað og spornað við útþenslu í opinberum rekstri. Hvernig var að því staðið? Var það gert með afgreiðslu síðustu fjárlaga? Ekki fæ ég séð að svo hafi verið því að í þeim fjárlögum var beinlínis gert ráð fyrir að rekstrarútgjöldin, eyðsluútgjöldin, héldu áfram að vaxa, en niðurskurðurinn bitnaði fyrst og fremst á framkvæmdum. — Í þessu sambandi er kannske hægt að skjóta því að, að enn hefur lánsfjárlagafrv. ekki séð dagsins ljós. Ber þó hæstv. ríkisstj. lagaskylda að láta lánsfjárlagafrv. fylgja fjárlögum hverju sinni og því var lofað í nóvember að lánsfjárlagafrv. yrði lagt fram á Alþingi „á næstu vikum“.

Í yfirlýsingu ríkisstj. er talað um starfsskilyrði atvinnuveganna. Auðvitað þarf hv. Alþingi að kjósa nefnd til þess að fara í þetta mál. Þar er talað um í fimmtánda lagi, í yfirlýsingunni, að unnið verði að því að samræma aðstöðugjald á atvinnurekstur. Þar er minnst á Byggingarsjóð ríkisins, þær 85 millj. sem teknar voru með aukinni skattheimtu til þess að vinna að litlu, en þó nokkru, upp á móti því þegar ríkissjóður tók til sín meginþorra af þeim tekjum sem fást vegna launaskatts, en launaskattur var auðvitað fundinn upp á sínum tíma til að standa undir fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins. Og í sautjánda lagi segir í yfirlýsingunni, að ríkissjóður muni efna til viðræðna við viðskiptabanka og sparisjóði um lengingu lána til atvinnuvega og húsbyggjenda. Hvar stendur þetta mál?

Auðvitað hljótum við við 1. umr. málsins að eiga heimtingu á því hér á hv. Alþingi að frá því sé sagt hvar þessi mál standi öll. Þó mun ég ekki frekar fjalla um það, ekki gefst færi til þess að sinni, en svona mætti halda áfram um flestalla þá liði, tuttugu og einn að tölu, sem þarna er um að ræða, að undanskildum þó 21. lið, sem fjallar um orlof, sem átti að breytast eftir samráð við aðila vinnumarkaðarins, atvinnurekendur og launþega. Það er einmitt slíkt samráð sem oft er skálkaskjól hjá okkur og okkar stjórnvöldum.

Ég mun ekki heldur, þótt fyllsta ástæða væri til, — ég get gert það með öðrum hætti, með því að leggja fram fsp., — spyrjast fyrir um það hvað hafi orðið um svipaðar yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. sem lagðar voru fram með bráðabirgða aðgerðum sem efnt var til um áramótin 1980 og 1981. Þar var fullt af yfirlýsingum, en þær hafa horfið í tímans rás. Með sama hætti mætti líka spyrja um fjölmörg önnur atriði sem komu fram í efnahagsskýrslu ríkisstj. í janúar á s.l. ári, en það var einmitt um það leyti sem hæstv. ríkisstjórn gafst upp í slagnum við verðbólguna og ákvað að sitja þótt hún gæti ekki neinu stjórnað.

Herra forseti. Þeir sem hafa talað á undan mér í þessu máli hafa gert mjög ítarlega grein fyrir sjónarmiðum stjórnarandstöðuflokkanna til þessa máls. Reyndar er þetta mál búið að vera svo lengi í meðförum Alþingis að flestir eru nokkuð klárir á því að þær ráðstafanir sem efnt var til með þessum brbl. hafa ekki náð markmiðum sínum nema að mjög litlu leyti. Það kemur í ljós þegar ástand mála er skoðað, að viðskiptahallinn var 11–12% á s.l. ári, eins og ég hef áður sagt, og svo kann að fara að hann nemi um 3000 millj. kr. á yfirstandandi ári. Það er jafnframt ljóst að langvarandi taprekstur undirstöðugreinanna hefur orðið hér á landi, jafnvel í besta árferði eins og var hér á árunum 1980 og 1981, og það hefur ekki verið reynt að ná árangri með raunhæfum hætti í þeim efnum. Það hefur jafnframt komið fram að heildarsparnaður þjóðarinnar hefur minnkað verulega að undanförnu, fjárfesting í atvinnuvegunum hefur dregist saman, efnt hefur verið til stórkostlegra skattahækkana, þannig að annað eins hefur ekki þekkst hér á landi, mikill samdráttur hefur orðið í þjóðarframleiðslu og þess vegna hafa lífskjörin versnað, því auðvitað verða lífskjör ekki til í kjarasamningum heldur með því að verðmæti skapist hjá atvinnuvegunum, og loks stefnir í enn nýtt Íslandsmetið í verðbólgunni.

Það er því alveg sýnt að þessi kaupskerðingar- og skattalækkunarlög, sem hæstv. ríkisstj. setti í sumar, eru lög sem fyllsta ástæða er til að standa gegn á hv. Alþingi, þó ekki væri nema til þess eins að sú hæstv. ríkisstj. sem nú situr fari frá og kosningar geti orðið sem allra fyrst.

Að allra síðustu langar mig til þess að minnast á þá brtt. sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram og fjallar um breytingu á 4. gr. brbl. Í því sambandi er gert ráð fyrir að stórum hærri upphæð en sagt var frá á s.l. sumri eigi að renna til þeirra ráðstafana sem þar getur um. Hv. síðasti ræðumaður gerði þetta nokkuð að umtalsefni og óskaði eftir því að hæstv. sjútvrh. skýrði með hverjum hætti þessi nýja tala væri komin til og hvernig þessar 80 til 90 millj., ef ég man rétt, ættu sér skýringu. Ég held að hér sé á ferðinni það, að nú eigi að taka gengismun af þeim birgðum skreiðar sem eru til í landinu. Það er verið að gera ráð fyrir, en sú vara liggur geymd með miklum kostnaði fyrir þá sem hafa lagt út fyrir þessari vöru, sem eru skreiðarverkendur í landinu, að taka gengismun þegar þeir, sem enginn veit hvenær verður, losa sig við þá vöru. Gegn þessu hljótum við að standa og munum standa því hér er um það að ræða að enginn veit hvað fæst fyrir þessa vöru, enginn veit hvenær hún verður seld og enginn veit hvenær hún verður greidd. Það hlýtur þess vegna að vera eðlilegt að þeir sem geyma skreiðina fái að njóta svokallaðs gengishagnaðar þegar að því kemur. Ég et viss um að hæstv. sjútvrh. hefur fengið tækifæri til að ganga um t.d. hjá vestfirskum skreiðarframleiðendum, t.d. Íshúsfélagi Ísfirðinga, fengið að ganga þar upp á hæðina hjá ágætum vini sínum og skoða þær birgðir sem þar liggja sem enginn veit hvenær viðkomandi losnar við. Er eðlilegt að það sé fyrir fram verið að taka upp þessar eignir?

Herra forseti. Það hefði verið fyllsta ástæða til þess að lesa hér upp úr Fjármálatíðindum, úr grein sem Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, sem er nú einskonar gjaldeyrisgjaldkeri þjóðarinnar, skrifar og er einskonar grafskrift eða minningargrein um þessa ríkisstjórn, en vegna þess hve tíminn hefur hlaupið frá okkur í dag og við teljum ekki ástæðu til að lengja þessar umr. mun ég ljúka máli mínu. Það er hins vegar fyllsta ástæða til þess að menn fái góðan tíma til að kanna þessi mál, en ekki sé tafið við langar umr. En ég vil benda hv. þm. á þessa grein því þar kemur fram með mjög glöggum hætti, eins og höfundur er þekktur fyrir, hvers vegna þessari hæstv. ríkisstj. hefur mistekist stjórn efnahagsmálanna.