24.01.1983
Neðri deild: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir og einnig síðasti ræðumaður gerðu áætlanir um gengismun að nokkru umræðuefni. Þessar áætlanir eru fengnar frá Seðlabanka Íslands. Þegar gengi var fellt 21. ágúst mun Þjóðhagsstofnun hafa aflað umbeðinna upplýsinga um gengismun og áætlað þá, samkv. upplýsingum um birgðir sem hún fékk frá framleiðendum, að gengismunur yrði samtals um 140 millj. Þessa áætlun endurskoðaði Seðlabankinn í desember og áætlaði þá, eins og ég sagði áðan, að gengismunur yrði 231 millj.

Nú hefur Seðlabankinn farið vandlega í þessar tölur og ég er hér með áætlun frá 20. þ.m. Þar segir: „Samtals inngreiddur gengismunur 20. jan. ásamt vöxtum fyrir árið 1982 123 millj. 500 þús.“ Það er að sjálfsögðu af öllum greinum, frystum fiski, saltfiski og skreið. „Áætlaður óinnkominn: 1. Freðfiskur frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna 20 millj., frá Sambandi ísl. samvinnufélaga 5 millj., eða samtals 25 millj. 2. Saltfiskur samkv. upplýsingum frá SÍF 6 millj. 3. Skreið samkv. upplýsingum frá skreiðarútflytjendum 54 millj. Samtals óinnkomið 85 millj.“ Síðan segir: „Samtals áætlaður gengismunur 208 millj. 500 þús.“ Þetta er sem sagt nokkru lægra en áætlað hafði verið í desember. Nú er spurt: Hvernig stendur á svona mismun? Það er ágætis spurning. Ég kann nú eiginlega ekki svör við henni önnur en þau, að upplýsinga var aflað í allmiklum flýti 21. ágúst og þessar stofnanir segja mér að þá hafi gengið erfiðlega að fá á skömmum tíma nákvæmar upplýsingar um hve miklar birgðir væru til í landinu. Síðan hefur það að sjálfsögðu skýrst mjög.

Vegna þess sem hv. þm. Friðrik Sophusson sagði um gengismun af skreið vil ég vekja athygli hans á því, að brtt. mín breytir engu um það að brbl. gera ráð fyrir að gengismunur sé tekinn af skreið. Brtt. mín breytir aðeins því hvernig ráðstafað er þeim gengismun sem inn kemur. Ég er hins vegar mjög ósammála honum um það sem hann sagði um skreiðina. Ég bið hv. þm. að fletta upp í Morgunblaðinu frá s.l. hausti. Þá birtist ákaflega athyglisverð grein eftir reikningsglöggan mann í því virta blaði. Hann vakti athygli á því að besta fjárfestingin á Íslandi í dag væri að eiga skreið, því að skreiðarbirgðirnar hafa verið á 29% vöxtum og síðan á 33% þegar hún selst. Það er að vísu nokkur áhætta eins og í margs konar fjárfestingu. (Gripið fram í: Þekkir ráðh. einhvern sem vildi fjárfesta í skreið?) Ég þekki marga sem eiga fjármagn í skreið. Ég þekki marga sem hafa efni á að geyma fjármagn sitt í skreið og horfa til þess tíma þegar hún fer úr landi eftir svona gífurlega mikla breytingu á dollaranum. Ég held að hv. þm. mættu fletta upp í þessari grein í viðkomandi blaði.

Hitt er svo annað mál, að það eru margir sem ekki hafa efni á því að festa fjármagn sitt í skreiðinni, því þeir fá ekki nema hluta að láni. Þetta hefur að sjálfsögðu valdið mörgum fyrirtækjum verulegum greiðsluerfiðleikum á meðan þau eiga fjármagn sitt bundið í skreiðinni. Það er alveg rétt. Þetta tengist þeirri peningamálastefnu sem fylgt hefur verið í bönkum. Það hefur verið lögð áhersla á að draga verulegt fjármagn inn og með því reynt að draga úr þeirri þenslu sem verið hefur í þjóðfélaginu. En þeir sem hafa efni á að geyma fjármagn sitt í skreiðinni, sagði viðkomandi lærður viðskiptafræðingur í Morgunblaðinu, þeir fjárfesta mjög vel. (Gripið fram í: Hann er nýkominn úr skóla.) Ég er viss um að hv. þm. mundi feginn þiggja lán með 29% vöxtum ef hann fengi það svo endurgreitt með 101%. Jafnvel þó hann sé ekki nýkominn úr skóla veit ég að hann skilur það.

Hafa menn ekki talað um að afurðalánin væru ákaflega hagkvæm í þessari breytingu sem verður á okkar gjaldmiðli? (Gripið fram í: Væri ekki nær að breyta því?) Það má vera, en það er allt annað mál. Ég er bara að tala um staðreyndina, sem hefur verið, að afurðalánin hafa verið 29% á sama tíma og dollarinn hefur breyst um yfir 100%. Það sem er selt í dollurum og fjármagnað með afurðalánum á 29% vöxtum, að vísu eru viðbótarlánin aðeins hærri, held ég að sé óhjákvæmilega góð fjárfesting ef maðurinn getur ráðið við þau 30 eða 40% sem hann þarf sjálfur að hafa þennan tíma í viðkomandi birgðum.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan, að út af fyrir sig breytir brtt. mín engu um þetta. Ég vona að hv. þm. sé mér a.m.k. sammála um það. Hvort skreiðarframleiðendur hafa efni á að borga þetta eða ekki, um það má deila. Þeir borga þetta ekki fyrr en varan fer úr landi, þeir borga ekki fyrr en þeir fá hana greidda í dollurum og þeim er breytt í íslenskar krónur, þannig að ég sé ekki að verið sé út af fyrir sig að skattleggja þá, eins og hér hefur verið haldið fram.

Ég vek athygli á því að gengi var breytt það mikið 21. ágúst að talið var eðlilegt að taka gengismun af birgðum. Gengi var breytt minna núna við gengisfellinguna í upphafi ársins, m.a. með tilliti til þess að taka ekki gengismun. Í raun og veru má segja að þetta tvennt helst nokkuð í hendur. Þetta er bætt með þeirri gengisfellingu sem ákveðin var.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir spurði um skýrslu sem ég nefndi hér áðan, skýrslu nefndar um vandamál útgerðarinnar, og furðaði sig á að slík skýrsla skuli ekki birt svo að menn gætu gert sér grein fyrir því hvernig fjármagni er ráðstafað. Skýrsla þessi inniheldur trúnaðarmál viðkomandi fyrirtækja og upplýsingarnar eru fengnar á þeirri forsendu. Því er ekki heimilt að birta skýrsluna almenningi. Hins vegar legg ég á það áherslu að bæði sú nefnd sem fjallað hefur um þessi mál og stjórn Framkvæmdastofnunar og reyndar fleiri athuga að sjálfsögðu mjög vandlega þær upplýsingar sem þarna koma fram. Það er misskilningur hjá hv. þm. að fé sé ausið í þessi fyrirtæki án margs konar skilyrða. T.d. er athugað hvort eigið fé viðkomandi fyrirtækja sé nægjanlegt og þá í mjög mörgum ef ekki flestum tilfellum sett það skilyrði að eigið fé fyrirtækjanna sé aukið. Í mörgum tilfellum er sett skilyrði um aukna hagræðingu, ef ákveðnir liðir í rekstrinum eru taldir óeðlilegir, o.s.frv.

Þetta er nákvæmlega það sama og við höfum gert ár eftir ár, þegar nefndir sérfræðinga hafa kannað einstök fyrirtæki og gert tillögur um breytingar til hagræðingar í rekstri. Slíkar tillögur hafa iðulega verið tengdar loforði um lán, enda verði þetta framkvæmt.

Ég er hér með aðra skýrslu, sem fjallar um slíka framkvæmd 1978 og 1979 og má segja að væri unnin á grundvelli úttektar þriggja manna nefndar, sem þáv. hæstv. sjútvrh. Kjartan Jóhannsson skipaði, og vann raunar á nákvæmlega sama máta.

Ég vona að ég hafi svarað þessum tveim spurningum.