24.01.1983
Neðri deild: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1506 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég skal verða við þeim tilmælum sem forseti bar fram hér áðan. En mig langar til, í framhaldi af því sem hæstv. sjútvrh. sagði varðandi brtt. þá sem hann hefur flutt og greinargerð hans áðan um gengishagnað, upptöku gengishagnaðar samkv. því frv. sem hér er til umr., að vekja athygli á einu. Eins og hæstv. ráðh. sagði eru það 54 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að komi inn vegna gengishagnaðar af skreið, þ.e. 6.5%. Væri nú ekki skynsamlegra að falla frá því að greiða í gengismunarsjóð þessa upphæð af skreiðarbirgðum, sem í landinu eru frá 1982, og að þeir aðilar sem eiga skreiðina fái það fjármagn og ríkisstj. aðstoði þá og láni þeim út á skreiðarbirgðirnar á meðan þær fara ekki úr landi? Ég held að þetta væri mun skynsamlegra og ég er sannfærður um að þetta mundi leysa vanda fjölmargra fyrirtækja sem eiga í erfiðleikum í dag og hæstv. ráðh. ber fyrir brjósti. Þau mundu fá með þessu móti töluvert mikið fjármagn nú og gætu leyst úr aðsteðjandi vanda á eigin spýtur.

Ég vek athygli ráðh. á því að hjá keppinautum okkar á skreiðarmörkuðunum, Norðmönnum, hefur ríkisstj. beitt sér fyrir sérstakri sjóðmyndun til þess að tryggja útflytjendum skreiðar að þeir fái það verð sem reiknað hefur verið með fyrir skreiðarframleiðslu og með því móti hvatt þá til að halda skreiðarframleiðslu áfram.

Ég á sæti í þeirri nefnd sem fjallar um þetta frv. og ég hef óskað eftir greinargerð um þessi mál þar á fundi, en ég vildi varpa þeirri hugmynd fram til ráðh. hvort þetta væri ekki skynsamlegri leið heldur en að taka gengishagnað og færa hann til Byggðasjóðs til þess að úthluta þar e.t.v. eftir allt öðrum sjónarmiðum en þeir stofnfjársjóðir gera sem eru í eigu þeirra aðila sem fiskvinnslu og útgerð stunda.