24.01.1983
Neðri deild: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef áður úr þessum virðulega ræðustól sagt álit mitt á þeim bráðabirgðaráðstöfunum sem gerðar voru í sumar og hefðu átt að koma hér á dagskrá þá, svo að ég skal reyna að verða stuttorður. Það er öllum landsmönnum ljóst nú að þessar ráðstafanir eru alls ekki á einn eða annan hátt tengdar baráttu gegn verðbólgu. Þær eru verðbólguhvetjandi. Ég veit ekki hvort ég átti að heyra í hv. formanni fjh.- og viðskn., en úr því að ég heyrði til hans þegar ég sagði að ráðstafanirnar væru verðbólguhvetjandi fremur en hitt, þá vildi ég gjarnan að hann kæmi hér upp sem fagmaður á því sviði og útskýrði hvað hækkanir á vörugjöldum, viðbótarvöruflokkar í vörugjaldstekjum til ríkissjóðs, þýði þegar ríkisstj. gerir sparnaðarráðstafanir fyrir sjálfa sig með niðurskurði á vísitölu. (HÁ: Það er nefndarfundur í fyrramálið.) Það er nefndarfundur í fyrramálið, já. Þess vegna bjóst ég við að við gætum talað saman þar en ekki hér.

Allar þær ráðstafanir sem felast í þessu baráttutæki ríkisstj. sem efnahagsfrv. er eru verðbólguhvetjandi. Og ég get ekki með nokkru móti séð að þegar tekið er af gengismun frá birgðaeigendum útflutningsafurða þjóðarinnar séu þeir jafn vel settir og áður. Það er langt frá því. Það er ofvaxið mínum skilningi, jafnvel þótt hæstv. sjútvrh. vilji fá mig til að skilja það, að þeir séu vel settir með þetta fjármagn í útflutningsafurðum, sem ekki eru í augnablikinu seljanlegar, liggja hér á þungum geymslukostnaði með þunga fjárfestingu frá bönkum, sem ekki þora að fjárfesta í afurðunum, vegna þess að þetta eru keðjuverkandi áhrif, eins og t.d. þegar Seðlabankinn neyðir viðskiptabankana, sem fjármagna afurðirnar á lager, til þess að taka fleiri hundruð prósent dýrari lán í Seðlabankanum.

Það er kannske eitt til viðbótar, sem hv. formaður fjh.- og viðskn., formaður bankaráðs Seðlabankans telur líkast til arðbært eins og kom fram hjá hæstv. sjútvrh., en ég get ekki skilið. Ég vildi gjarnan fá skýringu á svari hans til mín, þegar ég greip fram í áðan, ef hann má vera að því að hlusta. (Gripið fram í.) Gott. Hann talaði um að það væru fleiri krónur sem fengjust væntanlega einhvern tíma þegar skreiðin seldist. Fleiri krónur, mikið rétt, en það eru verðlausari krónur. Halda menn virkilega, heldur hæstv. sjútvrh. að fyrir þær krónur fáist sama magn af skreið til að selja aftur seinna? Þetta gengur á verðmæti eigenda sjávarútflutningsáfurða að sjálfsögðu. Það þýðir ekki að tala hér eins og verið sé að tala við nýútskrifaða viðskiptafræðinga. Kaupmátturinn er alls ekki hinn sami. Og þá er búið að draga frá gengismun og það er búinn að hlaðast á vöruna aukakostnaður í geymslu, það er búið að hlaðast á hana fjármögnunarkostnaður, þannig að jafnvel þótt dollarinn hafi hækkað um 100% á árinu, þá dugar það bara ekki til til að standa undir öllum kostnaði, þrátt fyrir niðurgreiðslu á fjármagni, miðað við það sem Seðlabankinn tekur af viðskiptabönkunum.

Það er talað um að auka eigið fé fyrirtækjanna. Hvernig þá? Halda menn að það sé álitið arðbært að leggja hlutafé í fyrirtæki sem tapa fé linnulaust, ár eftir ár? Hvaðan á þetta nýja fé að koma? Það næst ekki nema ágóðinn komi af starfseminni sjálfri, en til þess er ekkert svigrúm eins og efnahagsástand þjóðarinnar er í dag. Það er ekkert svigrúm fyrir fyrirtæki, hvort sem þau eru í útflutningi eða ekki — og kannske ennþá síður ef þau stunda útflutning, til að reka fyrirtækin eins og þarf til að þau skili ágóða. Það er ekki nokkur möguleiki á því. Það er hrein sjálfsblekking ef menn halda að einstaklingar fáist til að leggja nýtt fé í slíkan rekstur sem sjávarútvegurinn er orðinn. Það eru bara framlög til taprekstrar.

Ég segi fyrir mína parta að mér er ekki nokkur leið að skilja þá ráðstöfun ríkisstj. að leggja skatt á þann atvinnuveg sem á að fara að styrkja. Að leggja skatt á styrkþegann og styrkþeginn er undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar. Þetta er alveg furðulegt. fyrirtæki. Það er það, það er alveg furðulegt fyrirtæki. Ég get ekki með nokkru móti skilið að blankur einstaklingur geti tekið lán hjá sjálfum sér til þess að halda áfram að fjármagna sínar þarfir. Það get ég ekki skilið. Ég held að það verði að staldra við og athuga hvert við stefnum í þessu máli, og í lánamálum og peningamálum þjóðarinnar í heild, því að þetta er allt keðjuverkandi. Við erum á villigötum eins og er.