25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég átti satt að segja ekki von á því að heyra úr þessum ræðustóli ræðu á borð við þá sem hv. 8. landsk. þm. flutti hér áðan. Ég hélt að slíkar ræður tilheyrðu fortíðinni, tilheyrðu sögunni. Og ennþá meira hissa varð ég þegar hv. þm. kom aftur í þennan ræðustól og flutti ræðu sem var að ýmsu leyti ennþá forstokkaðra íhald, ennþá meira afturhald og aftan úr grárri forneskju, liggur mér við að segja.

Ég skil ekki hvernig hugsandi fólk getur haft á móti því að upplýsinga sé aflað, að þekkingu sé safnað til að byggja ákvarðanir á og til að fylgjast með því sem er að gerast í kringum okkur. Ég skil ekki hvernig hægt er að hafa á móti slíku. Það er auðvitað sjónarmið út af fyrir sig — þeim sem það vilja — að stinga hausnum í sandinn og sjá ekki það sem gerist í sínu næsta nágrenni. Það er greinilegt að hv. 8. landsk. þm. vill viðhafa þá aðferð.

Hið sama gildir hins vegar ekki um flokksbróður hennar, hv. 11. þm. Reykv., formann þingflokks Alþb., sem hefur gert sér sérstakt far um að kynna sér öryggis- og varnarmál. Þess hefur séð stað í þeim ræðum sem hann hefur flutt hér á þingi að hann hefur lagt vinnu í það. Ég er ekki sammála þeim ályktunum sem hann dregur af sinni þekkingarleit í þessum efnum, ég er ósammála þeim. En hann notar rétta aðferð. Hann stingur ekki hausnum í sandinn. En þeim sem það vilja gera og hafa í þeim efnum asklok fyrir himin að ekki sé fastara að orði kveðið, er það auðvitað frjálst.

Það er kannske ævinlega svo, að þegar Alþb. hefur setið nokkra hríð í ríkisstj. án þess að fá nokkru áorkað í þessum málum, þá koma einstakir þm. og gera sig breiða í þessum ræðustól til að sýna hernámsandstæðingum að þeir séu ekki með öllu gleymdir. Þetta tækifæri var notað núna eins og við var að búast. En hitt blöskrar mér ævinlega, þegar talsmenn Alþb. koma hér og segja þjóðinni hversu miklu betri Íslendingar þeir séu heldur en hinir, sem vilja þátttöku Íslands í varnarsamstarfi vestrænna þjóða og vilja að hér séu hafðar uppi varnir. Þetta blöskrar mér ævinlega og þó ekki síður þegar því er haldið fram að nánast mundi íslensk tunga og íslensk menning liða undir lok ef ekki væri hér þessi sérvitringahópur herstöðvaandstæðinga. Slíkt bull tekur auðvitað engu tali. Þetta fólk hefur engu bjargað. Hins vegar skil ég það, að hv. 8. landsk. þm. og þeim Alþb.-mönnum fleiri skuli svíða það sárt að skoðanir þeirra eiga ekki meiri hljómgrunn með þjóðinni en raun ber vitni. Það er þessi sami litli hópur sem hefur sig í frammi. Hann sýnist svo sem hvorki hafa minnkað né stækkað s.l. 30 ár, 30–35 ár. Ég skil ósköp vel að undan þessu skuli svíða. En þetta fólk hefur ekki verið þess umkomið að bjarga íslenskri menningu, síður en svo.

Ég virði það, eins og ég sagði hér áðan, að formaður þingflokks Alþb. hefur verið talsmaður þeirra í þessum efnum og gert sér far um að afla sér upplýsinga og fylgjast með því sem verið hefur að gerast á þessum vettvangi. Hann hefur ekki stungið hausnum í sandinn.

Ég held að þau vinnubrögð sem hvatt er til með þeirri málsmeðferð að vísa þessari till. frá, sem fjallar um það að afla upplýsinga á mikilvægu öryggishagsmunasviði Íslendinga, séu ekki til fyrirmyndar.