27.10.1982
Efri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

41. mál, fóstureyðingar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka ræðumönnum öllum fyrir þátttöku í þessum umr. Ég þarf ekki að vík ja að því sem hv. 4. landsk. þm., meðflm. minn, sagði, en það voru að sjálfsögðu góðar ábendingar, sem þar komu fram, og ég þarf ekki heldur að ítreka þær.

Hins vegar er ýmislegt í því, sem aðrir ræðumunn sögðu, sem ástæða væri að víkja að. Ég efast ekki um. ég geng út frá því að allir ræðumenn séu mér sammála um að of mikið sé gert af fóstureyðingum. Ég geng líka út frá því að þeir séu mér sammála um að eitthvað þurfi að gera til þess að fækka fóstureyðingum. En okkur greinir á um ýmis veigamikil atriði, hvernig á að gera það. Og sumt af því sem kom fram í ræðum þessara hv. þm. er þess eðlis að ég get ekki látið það sem vind um eyru þjóta.

Ég kem þá fyrst að því sem hv. 2. þm. Austurl, sagði.

Hann minntist á að það hefðu verið miklar deilur um þessi mál þegar og áður en lögin 1975 voru sett. Þetta vitum við allir, okkur er það öllum ferski í minni. Hv. 2. þm. Austurl. sagði að frv. það sem samþykki var og gert að lögum 1975 hafi verið málamiðlun milli ólíkra skoðana. Þetta er líka rétt. Hv. þm. vék sérstaklega að þáv. heilbr.- og trmrh., Matthíasi Bjarnasyni, í þessu sambandi. Það er rétt að hann beitti sér fyrir málamiðlun í þessum málum, og frv. sem samþykkt var 1975 var að forminu til ekki um frjálsar fóstureyðingar eins og frv. sem fyrirrennari hans í ráðherrasæti heilbrigðis- og tryggingamála hafði lagt fram og mælt með. Hins vegar var það svo, að fyrrv. heilbrmrh., fyrirrennari Matthíasar Bjarnasonar, tók þátt í umr. um frv. 1975 og hann var að forminu til óánægður með frv. Hann sagði efnislega á þessa leið: En gott og vel, þetta mun þýða í framkvæmd sama og frjálsar fóstureyðingar. Og því miður hefur framkvæmdin orðið slík, að það hefur staðist sem þessi fyrrv. ráðh., Magnús heitinn Kjartansson, sagði um þetta mál. Það var rétt ályktað hjá honum. Það er það sem hefur skeð, að í framkvæmd hafa þessi lög þýtt frjálsar eða nær frjálsar fóstureyðingar á Íslandi.

Menn hafa verið að tala um að það þyrfti að fá upplýsingar um framkvæmd laganna. Það er lítið handbært í því efni og ég held að það sem á skortir séu ekki upplýsingar, heldur það að draga ályktanir af þeim upplýsingum, sem við höfum handbærar, ef menn vilja bæta úr því ástandi sem nú er.

Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir því, að áður en fóstureyðing megi fara fram verði að liggja fyrir skrifleg rökstudd grg. tveggja lækna, eða læknis og félagsráðgjafa sé eingöngu um félagslegar ástæður að ræða. Það þarf að liggja fyrir rökstudd skrifleg grg. Ef ágreiningur er, ef konan vill ekki hlíta niðurstöðu þessarar nefndar, þá getur hún vísað málinu til landlæknis og yfirnefndar. Síðustu upplýsingar sem ég hef um þetta handbærar hér hjá mér eru frá 1979. Þá hafði engin áfrýjun komið til landlæknis eða yfirnefndarinnar, engin, nema eitt árið komu upp tvær, en þá stóð svo á að konurnar, sem þar áttu hlut að máli, voru að fara fram á fóstureyðingu í annað sinn á sama ári, það hafði engum verið áfrýjað. Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta það að konurnar hafi látið sér segjast og ekki notað þennan áfrýjunarrétt eða hefur þeim verið neitað um fóstureyðingu? Ég held að enginn, a.m.k. þeirra sem eru framkvæmd þessara mála kunnugir, láti sér slíkt til hugar koma. Það verður fyrst og fremst dregin sú ályktun að ekki sé um neinar neitanir að ræða. Og það er ekki einungis að ekki sé um neinar neitanir að ræða, heldur gengur þetta þannig eftir færibandi að það er ekki einu sinni leitað til þessarar undirnefndar. Þetta eru nú framkvæmdirnar. En ég vil taka það fram að þetta á við fóstureyðingar þegar fóstur er innan við 12 vikna og flestar fóstureyðingar eru á því tímabili.

Ég held að við þurfum ekki að velta mikið vöngum yfir því hvers vegna fóstureyðingum hefur fjölgað svo mjög sem raun ber vitni um síðan þessi lög voru sett. Þeim hefur fjölgað — mér liggur við að segja og ég hygg að það sé rétt — eingöngu vegna ákvæðisins um að heimila fóstureyðingar af félagslegum ástæðum. Af fóstureyðingum, sem eru um 550 á ári, — því miður hefur mér láðst að koma með skýrslu þar sem þessar tölur eru teknar upp — eru 20–30 fóstureyðingar af læknisfræðilegum ástæðum og álíka margar af bæði læknisfræðilegum og félagslegum. Hinar eru allar eingöngu af félagslegum ástæðum. Það mætti halda hér áfram að gefa ýmiss konar upplýsingar til stuðnings þeirri fullyrðingu, sem ég hef hér haldið fram, að fóstureyðingar á Íslandi eru nú frjálsar eða svo gott sem frjálsar.

Þetta frv. felur í sér að banna fóstureyðingar af félagslegum ástæðum. Hv. 5. þm. Reykv. gat þess að við flm. frv. værum ekki alfarið á móti fóstureyðingum. Við viljum leyfa fóstureyðingar af læknisfræðilegum ástæðum og ef kona hefur orðið þunguð af refsiverðum verknaði. En ég skildi hv. þm. þannig, að vegna þess að við vildum ekki útiloka fóstureyðingar, þá væri það viðfangsefnið að ákveða hvar mörkin ættu að vera. Og auðvitað er það. Við teljum að eðlilegustu mörkin séu þau að fóstureyðingar af félagslegum ástæðum séu ekki leyfðar. Það er greinilegt og það er á þeirri forsendu að félagsleg vandamál verða ekki leyst nema með félagslegum ráðstöfunum.

Hv. 3. landsk. þm. sagði að það væri ábyrgðarhluti að þvinga konu til þess að eiga barn eða fæða barn sitt. Það er enginn verknaður að sjálfsögðu til þess að fagna, en þvingunum verður nú víða að beita, og ef það er ekki réttlætanlegt að beita þvingunum til þess að verja mannslíf, hvenær ætti það þá að vera réttlætanlegt? Ég tek mér í munn þetta orð hv. ræðumanns, þvinga. Ég held nú að í lífinu, í raunveruleikanum liggi málið ekki þannig fyrir. Það er hægt að telja konu hughvarf án þess að hún sé þvinguð, og það sem mest er um vert, ef fátækt er ástæðan fyrir óvilja hennar til þess að fæða barnið, vegna þess að hún telji að hún geti ekki séð forsvaranlega fyrir því, þá held ég að ekki sé neitt að lasta eða óttast í þessum efnum.

Ég held að menn verði að hafa þetta í huga þegar menn ræða um þetta. Ég vona að ég sé ekki minni forsvarsmaður frelsis en hver annar, sem hér hefur talað, og það situr síst á mér að gera lítið úr því. En það er eitt frelsi sem ég er á móti. Ég er á móti frelsi eins til þess að hefta frelsi annars. Það er það sem hér er um að ræða. Og það er frelsi til þess sem er mikilvægast, það er frelsi til þess að mega lifa. Það er á slíkum viðhorfum sem þessum sem þetta frv. byggist. Ég vænti þess að eftir því sem menn hugleiða betur það vandamál, sem við eigum við að stríða, og það skelfilega ástand, sem er í þessum málum í dag, verði menn fúsari til samvinnu um að bæta þetta ástand. Ég segist vænta þess. Það er vegna þess að ég geng út frá að hv. ræðumenn líti á fóstrið sem mannlegt líf, en ekki eins og eitthvert kýli, sem sé tekið með venjulegri læknisaðgerð, því ef við lítum þannig á þetta værum við ekki að ræða sérstök lög um fóstureyðingar.

Ég held ég ræði ekki frekar um einstök atriði sem fram komu. Hv. 2. þm. Austurl. sagðist hafa mikla trú á íslenskum konum. Ég efa ekki að hann hafi það. Ég tel mig líka hafa mikla trú á íslenskum konum. Ég hef þá trú á íslenskum konum að það verði þeim ekki óyfirstíganlegt að gegna sínu móðurhlutverki og að við þurfum ekkert að óttast í því efni, allra síst þegar við leggjum okkur fram, eins og við flm. þessa frv. viljum að gert sé, með félagslegri aðstoð eins og fram kemur í fylgifrv. með því frv. sem við nú ræðum.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði um að lögin væru ekki nógu skýr. Ég held að það sé misskilningur. Ég held að lögin séu vel skýr. Að vísu er eitt- og það tók ég fram í minni ræðu hér fyrr — að það er óljóst í sumum tilvikum hvað á að túlka sem félagslegar ástæður, það er rétt. Ég held að það verði alltaf óljóst og að aldrei verði í þeim skilningi hægt að gera lögin skýr nema með þeim ráðum, sem við flm. leggjum til, að útiloka allar félagslegar ástæður sem heimild til fóstureyðingar.

Herra forseti. Ég sagði í mínum upphafsorðum að ég þakkaði hv. þm. sem hafa tekið til máls í þessum umr. Við erum ekki sammála sumir í mjög þýðingarmiklum atriðum, en þessar umr. hafa verið málefnalegar. Ég óttast ekki málefnalega meðferð á þessu máli hér í hv. deild og þeirri nefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, að þá megi ekki vænta þess að frv. geti fengið jákvæða afgreiðslu.

Herra forseti. Ég vil segja þingheimi frá því sem ég hvíslaði í eyra hæstv. forseta. Ég mundi, þegar ég var að flytja mína ræðu, að hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, form. heilbr.- og trn., hafði spurt mig í gær hvort umræður um málið færu fram í dag. Ég sagði honum að ég mundi verða vestur á fjörðum, en hann lagði áherslu á að geta fengið að taka þátt í þessum umr. Ég hef því óskað eftir að umræðunum yrði ekki lokið, heldur frestað, svo að Davíð Aðalsteinsson fái tækifæri til þess að taka þátt í þeim.

(Forseti: Ég mun verða við þessari ósk. Umræðu um dagskrármálið er því frestað og málið tekið út af dagskrá.)