25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

47. mál, ráðunautur í öryggis- og varnarmálum

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hv. 10. þm. Reykv. er það mjög í mun að fá till. til meðferðar í nefnd. Ég get svo sem vel fallist á þá ósk hans, tel það sanngirnismál að hann fái málið þar til meðferðar. Ég hef ekkert á móti því og ég tel alveg ástæðulaust að vera að setja á meiri háttar kappræður um það mál út af fyrir sig, eins og hann gerði tilraun til hér áðan. Það er sanngirnismál að þetta fari í nefndina. Svo skulum við ræða málið áfram þegar það kemur úr henni, þegar og ef það kemur úr henni. Um það vitum við auðvitað ekki. Þá getum við kannske einnig fjallað betur um efni þessarar till. Hún hefur verið rædd hér nokkuð áður, í dag af hv. 8. landsk. þm., Guðrúnu Helgadóttur. Sömuleiðis hefur þetta mál oft verið rætt áður af bæði mér og öðrum hér úr þessum ræðustól. Ég tel enga ástæðu til þess að fara frekar út í það núna og eyddi þess vegna ekki mörgum orðum að því hér áðan. Ég taldi ekki þörf á því, en mér finnst sjálfsagt að taka þessa till. til sanngjarnrar athugunar, enda veit ég að hv. þm. Friðrik Sophusson þekkir það að við Alþb.-menn reynum yfirleitt að vega hlutina og meta af fullri sanngirni. Við munum einnig að sjálfsögðu gera það í þessu máli.

Ástæðan til þess að ég kom hér upp áðan var auðvitað fyrst og fremst sá málflutningur sem uppi var hafður af tveimur talsmönnum Alþfl. Síðan hafa náttúrlega fleiri bæst í þennan kór eins og gengur. Ég ætla ekki að eyða frekari orðum að því nema segja það að lokum. Hv. þm. Friðrik Sophusson kvartaði undan því að hafa heyrt þá ræðu alloft sem ég flutti hér áðan. Hann á eftir að heyra hana sjálfsagt nokkrum sinnum enn. Ég dreg ekkert af mér að flytja þessa ræðu vegna þess að ég tel að það sé góður málstaður, sem ég hér berst fyrir og aðrir þeir sem hafa svipaðar skoðanir á þessum málum og ég og Alþb. Við drögum því ekkert af okkur í þeim efnum og hv. þm. Friðrik Sophusson verður að búa sig undir að hlýða á þær ræður allmargar enn. Við höldum þær þangað til okkar málstaður hefur unnið þann sigur sem hann á skilið í þessu landi.