25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

102. mál, fjárhagsstaða láglaunafólks og lífeyrisþega

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, Jóni Árm. Héðinssyni, Magnúsi H. Magnússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur leyft mér að flytja till. til þál. um könnun á fjárhagsstöðu láglaunafólks og lífeyrisþega. Till. er svohljóðandi með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram sérstaka könnun á fjárhagsstöðu og afkomu láglaunafólks og lífeyrisþega, þar sem m.a. verði sérstaklega könnuð áhrif myntbreytingarinnar á hag þeirra sem lægst hafa launin.“

Það er tilgangur þm. Alþfl. með flutningi þessarar till. að fela ríkisstj. að láta fram fara sérstaka könnun til þess að fá fram óyggjandi upplýsingar um kjör láglaunafólks og lífeyrisþega til að auðvelda úrbætur er miði að því að tryggja afkomu þeirra Íslendinga sem búa við lökust kjör.

Í stefnuræðu, sem hæstv. forsrh. flutti Alþingi og þjóðinni 25. okt. s.l., kom fram að ríkisstj. hefur ákveðið að láta fara fram sérstaka úttekt á fjárhagsstöðu íslenskra bænda.

Flm. þessarar till. vilja á engan hátt gera lítið úr mikilvægi þess, að gerð verði úttekt á fjárhagsstöðu íslenskra bænda, alls ekki. En við sem að þessari till. stöndum erum hins vegar þeirrar skoðunar, að það sé ekki síður brýnt að gera úttekt á fjárhagsstöðu láglaunafólks og lífeyrisþega. slík úttekt mun áreiðanlega leiða ýmislegt athyglisvert í ljós og hún á jafnframt að geta verið mikilvæg leiðsögn um það, hvar brýnast sé að beita sér fyrir úrbótum og hvaða ráðstafanir skuli gera til að tryggja megi sem best afkomu þeirra sem minnst mega sín.

Þess er skemmst að minnast, hverja umræðu hinar svokölluðu láglaunabætur hafa orsakað í þjóðfélaginu. Þar hefur ýmislegt skondið og skrýtið komið upp á, að því er virðist, og staðreynd er að þeir sem úr minnstu hafa að spila, svo sem einstæðir foreldrar í sumum tilvikum og lífeyrisþegar, hafa engar bætur fengið. Hins vegar eru þess ýmis dæmi, sem margfræg eru og nefnd, að fólk sem er sæmilega stætt og stöndugt hefur fengið þessar bætur.

Ég skal vissulega viðurkenna að það er ekki auðvelt né heldur einfalt að ná því fram sem þarna var tilgangurinn, þ.e. að ná til þeirra sem mest þurfa. En því miður sýnist manni að þarna hafi ekki tekist til sem skyldi. Við erum þá alla vega reynslunni ríkari og vonandi tekst betur til og finnast heppilegri aðferðir en þarna varð raun á. Það er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, að þeir sem minnst hafa fengu stundum minnst og oftast ekkert.

Það er ennfremur skoðun okkar að í slíkri könnun sem þessi till. gerir ráð fyrir skuli m.a. sérstaklega kanna áhrif myntbreytingarinnar á hag þeirra sem lægst hafa launin. Það er alveg auðséð að ef svo heldur fram sem horfir með verðbólguþróun, þá líður að því fyrr en varir að aftur þarf að taka núll af krónunni. Þá væri ágætt að búið væri að skrá og skrifa hjá sér þá reynslu og þá lærdóma sem draga má af því hvernig til tókst með myntbreytinguna, þar sem öllum er nú ljóst að mörg smávaran hækkaði um mörg hundruð prósent. Menn þekkja allir dæmi um skrúfur og karamellur og nagla og því um líkt, sem hækkaði allt í einu um mörg hundruð ef ekki í sumum tilvikum þúsund prósent. Þar var sennilega framið rán frá almenningi með blessun yfirvalda, því miður. Margt smátt gerir auðvitað eitt stórt. Það hefur aldrei verið kannað með nemum hætti hve mikla kjararýrnun þessi smávöruhækkun hefur haft í för með sér, en við teljum tvímælalaust æskilegt að slík könnun fari fram.

Það er sannfæring okkar sem stöndum að þessari till. að meðal láglaunafólks og lífeyrisþega á Íslandi séu kröpp kjör og fátækt almennari en margur hyggur, þrátt fyrir gnægtaþjóðfélagið. Úr því viljum við bæta. Slík könnun eins og hér er gert ráð fyrir á fjárhagsstöðu láglaunafólks og lífeyrisþega er ein af forsendum þess, að unnt sé að marka stefnu og móta aðgerðir til úrbóta í þessum efnum.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til allshn.