25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

109. mál, Ilmenitmagn í Húnavatnssýslum

Flm. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Á þskj. 111 flytjum við þrír þm., auk mín hv. þm. Páll Pétursson og hv. þm. Stefán Guðmundsson, till. til þál. um framhaldsrannsóknir á Ilmenitmagni í Húnavatnssýslum, eiginleikum þess og vinnsluhæfni. Með leyfi forseta les ég till. eins og hún birtist á þskj.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram frekari rannsóknir á þeim Ilmenitsvæðum, sem þekkt eru í Húnavatnssýslum, og leita nýrra svæða þar sem titanríkt basískt berg kynni að vera í verulegum mæli.

Skal rannsóknin beinast að magni titans og annarra verðmætra efna í berginu og vinnsluhæfni þeirra. Niðurstöðum rannsóknarinnar skal fylgja frumáætlun um arðsemi, vinnslu, mannaflaþörf, fjárfestingarkostnað, markaðshorfur svo og önnur atriði sem rannsóknaraðilar telja máli skipta.“

Eins og í grg. með þáltill. segir er vitað um nokkra staði í Húnavatnssýslum þar sem IImenit er að finna, en Ilmenit er bergtegund sem oft inniheldur titan og aðrar málmtegundir.

Þeir staðir, sem nú eru þekktir í Húnavatnssýslum þar sem Itmenit er að finna, eru Steinsvað á Víðidalsá, Urðarfell upp af bænum Melrakkadal í Víðidal, Hólar og Skessusæti austan og norðan Í Víðidalsfjalli, Deildarhjalli, sem er venjulega kallaður Hjallinn, í Vatnsdalsfjalli og fleiri staðir þar um slóðir, svo sem Borgarvirki og Hnjúkur í Vatnsdal.

Dýrmætasta efnið sem hérlent Ilmenit inniheldur er málmurinn titan, sem af kunnáttumönnum er sagður verðmætur. Einnig hefur mælst með þeim takmörkuðu rannsóknum sem hér hafa farið fram töluvert magn af járni í berginu.

Þegar ég var ungur drengur í skóla lærði ég af bókum að á Íslandi væru engir málmar í jörðu. Sem betur fer hefur sú kenning afsannast. Við vitum nú þegar að við eigum ein og önnur verðmæti í jörðu, í fjöllum okkar og dölum.

Þessi þáltill. fjallar fyrst og fremst um rannsóknir á magni titans og annarra málma sem samhliða vinnslu þess væri hagkvæmt að nýta. Titan er sagt til margra hluta nytsamlegt. Sem dæmi um notkun þess er að það er notað eitt sér sem málmur. Titan er léttur málmur. Titan er mikið notað sem íblöndun við aðra málma. Stærsti hluti titans fer þó til framleiðslu á málningarvörum. Við þekkjum væntanlega öll titanhvítu t.d. Þá er það einnig notað sem einangrun á suðuþráð og karbítþráð svo og við pappírsvinnslu, plastvinnslu o.fl.

Ég ætla ekki hér að halda fyrirlestur um eðli eða eiginleika þeirra málma sem í fjöllum Húnavatnssýslna finnast, til þess skortir mig yfirsýn og þekkingu. Það sem fyrst og fremst vakir fyrir flm. með flutningi þessarar till. er að vekja hv. Alþingi og hæstv. ríkisstj. til umhugsunar um að við Íslendingar eigum ekki einungis orku til iðnaðar, heldur kunnum við einnig að eiga hráefni í landinu sjálfu til að grundvalla iðnað okkar á og þar með notkun þeirrar orku sem við eigum. Í máli mínu hef ég fyrir hönd flm. bent á einn þessara möguleika.

Flm. gera sér grein fyrir því, að undirstaða þess að við vitum hverra kosta við eigum völ á sviði iðnaðar og annarrar verðmætasköpunar á Ístandi úr íslenskri jörð er rannsóknir. Hv. alþm. tala oft og tíðum fjálglega um vandamál íslensks iðnaðar. Skýrslur hafa verið gefnar út um hækkun í hafi á þeim aðföngum sem iðnfyrirtæki hefur unnið úr hér á landi og hefur það valdið deilum. Hversu nærtækara væri ekki að vinna verðmæti úr íslenskri jörð með íslenskri orku og með íslenskum höndum.

Flm. leggja engan dóm á hagkvæmni þeirra iðnaðarkosta sem till. fjallar um. Við gerum aðeins tillögu um rannsóknir þar að lútandi. Við gerum tillögur um rannsóknir á vinnslumöguleikum þeirra efna sem till. fjallar um. Flm. telja að hér geti verið um stórt mál að ræða og óverjandi sé að þeir möguleikar, sem þarna kynnu að leynast, séu ekki rannsakaðir þó nokkurt fé muni að sjálfsögðu kosta.

Flm. þessarar þáltill. eru talsmenn hvers konar iðnaðarmöguleika í landinu. Þó við berum í þessu tilfelli fram till. um rannsóknir á auðæfum húnvetnskra fjalla og dala, þá er það í sjálfu sér ekki okkar eina takmark að þar fari fram rannsóknir og hvergi annars staðar.

Tilefni þess að við óskum eftir þeim rannsóknum og áætlunum sem till. gerir ráð fyrir er að við óttumst að ef ríkisvaldið hlutast ekki til um að rannsóknir verði gerðar á náttúruauðæfum landsins stöndum við uppi ráðalaus og vegvillt, e.t.v. með auðæfin allt í kringum okkur, flytjandi hráefni til iðnaðar frá fjarlægum heimsálfum óvitandi um auðæfi þeirrar jarðar sem við stöndum á.

Í grg. með þáltill., sem ég las áðan, er vísað til skýrslu sem Iðnþróunarstofnun Ístands og Orkustofnun gáfu út árið 1978 um íslenskt Ilmenit. Í þessari skýrslu er ýmsan fróðleik að finna um þær takmörkuðu rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu sviði. M.a. er þar getið um rannsókn sem gerð var á Itmeniti eða gabbrói úr Steinsvaði í Víðidalsá. Rannsóknir sýndu að titaninnihald bergsins reyndist 4.4%, en við þyngdarskiljun ákveðinnar kornastærðar tókst að auðga það upp í 25% titanoxíðs, auk 52% járns, og var talið að betur mætti gera.

Ég læt nægja að geta um þetta eina dæmi, en það sýnir okkur að þarna eru verðmæti til staðar sem vert er að gefa gaum. Hvort vinnsla þeirra er hagkvæm við núverandi aðstæður skal hér ósagt látið, en einmitt það atriði m.a. er þeim rannsóknum, sem þáltill. gerir ráð fyrir, ætlað að leiða í ljós.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa þessi orð öllu fleiri, en vísa til grg. sem þáltill. fylgir. Að lokinni þessari umr. legg ég til að umr. verði frestað og till. vísað til hv. atvmn. þingsins.