25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

109. mál, Ilmenitmagn í Húnavatnssýslum

Flm. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Agli Jónssyni fyrir hans orð, þó ég skildi ekki alveg, sem mér heyrðist í upphafi, hvers vegna hann væri að setja flutning þessarar þáltill. í sambandi við prófkjörsmál, ef ég heyrði rétt. Þetta er 109. mál þingsins. Ætli þau séu ekki orðin 170 núna. Það bendir til þess að allnokkuð sé liðið frá því að þessi till. var flutt. Ég vonast til þess að hann hafi alla vega ekki verið kominn með neinn prófkjörsskrekk þegar þessi till. var flutt. Sá skrekkur hefur ekki gert vart við sig hjá mér ennþá.

Að því slepptu tók ég það greinilega fram að ekki væri okkar eina takmark að rannsóknir færu fram á húnvetnskum fjöllum eða í húnvetnskum dölum. Ég tók það fram, að tilefni þess að við óskuðum eftir þessum rannsóknum og áætlunum sem till. gerir ráð fyrir er að við óttumst að ef ríkisvaldið hlutaðist ekki til um að rannsóknir yrðu gerðar stæðum við uppi ráðalaus og vegvillt. Ég hef síður en svo á móti því með þessum till.- flutningi, og,raunar gef að vissu leyti undir fótinn með það, að rannsóknir fari víðar fram, svo sem eins og í Eystra- og Vestra-Horni í kjördæmi hv. þm. sem hér talaði næstur á undan mér. En till. beinist einungis að því, að við reynum að vinna að rannsóknum á þeim auðæfum sem við eigum í landinu sjálfu, kannske áður en við förum að flytja hráefni til iðnaðarframleiðslu til landsins yfir höf og álfur. Ég held að svona till.- flutningur muni einmitt flýta fyrir málinu.

Rannsóknir á titaninnihaldi Ilmenits munu fyrst hafa verið gerðar á Ilmeniti úr Steinsvaði í Víðidalsá. Þær gerði Baldur Líndal verkfræðingur fyrir mjög mörgum árum.

Hv. þm. telur að það sé kannske ekki á næstu grösum, eftir því sem mér skildist best, að þessi vinnsla geti átt sér stað. Má svo vel vera. Til þess vantar okkur rannsóknir. En í grg. er bent á að ýmsa málma, sem unnir hafa verið úr jörðu og unnir eru úr jörðu, er verið að vinna úr snauðari námum en áður hefur verið gert. Í grg. er dæmi um kopargrýti. Unnið var kopargrýti 1942 þar sem grjótið innihélt 1.1%. Árið 1977 eru unnar námur með 0.65% innihaldi og áætlun um að árið 2000 verði námur unnar sem eru með 0.03% innihaldi. Án rannsókna vitum við ekki hvar við stöndum, hvenær hagkvæmt er að nýta þær námur sem við kynnum að eiga hér á landi, og mér þykir nokkurs virði að það sé þekkt hverra kosta við eigum völ þarna, þannig að þegar að því kemur að þetta þykir vinnsluhæft, þessar námur sem við eigum, þegar það fer að líta þannig út að þær séu vinnsluhæfar miðað við það sem gerist víðs vegar í heiminum, þá þurfi ekki að fara að byrja á rannsóknum, heldur hafi rannsóknir verið gerðar áður og við vitum nokkurn veginn hvar við stöndum.

Þetta er aðalinnihaldið í þessu öllu. En að við séum að tefja fyrir mátinu með þessum tillöguflutningi, eins og hv. þm. lét liggja að, því hafna ég alveg. Ég get alveg fallist á það, og eins og ég hef tekið fram áður er jafnvel gefið undir fótinn með það, að rannsóknir verði gerðar víðar en till. gerir ráð fyrir, en ég held að slíkar rannsóknir þurfi að fara fram sem fyrst og kannaðir séu þeir möguleikar sem við Íslendingar eigum á þessu sviði svo og öðrum sviðum í svipuðum tilfellum.