26.01.1983
Efri deild: 32. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

144. mál, vernd barna og ungmenna

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Undanfarin misseri hefur það gerst hér, sem gerst hefur einnig víðast hvar í löndunum í kringum okkur, að orðið hefur svokölluð vídeó-sprenging eða vídeó-bylting. Fyrirtæki, sem leigja út kvikmyndir og ýmiss konar efni á myndböndum, hafa sprottið upp eins og gorkúlur — ekki aðeins hér á þéttbýlissvæðum höfuðborgarinnar, heldur og hvarvetna, að ég hygg, í þéttbýli út um allt land. Þessi fyrirtæki hafa á boðstólum kvikmyndir af ýmsu tagi, upp og ofan eins og gengur og gerist, góðar myndir, slakar myndir og allt þar á milli og raunar niður í það að hafa hér á boðstólum myndir sem engum manni eru boðlegar. Um þetta hefur margt verið rætt og ritað og raunar mun það liggja fyrir að nokkur hluti þeirra myndbanda, sem hér eru á markaði í slíkum leigum, er ekki fenginn með eðlilegum hætti. Þá á ég við það, að ekki hafa verið greidd af þeim tilskilin gjöld og þau hafa ekki verið flutt inn löglega.

Nú býst ég við að mikill meiri hluti þeirra manna sem reka slík fyrirtæki sé með allt sitt á hreinu og hafi farið að lögum. En hins eru örugglega dæmi, og um það hefur verið fjallað í blöðum nýlega, að hér er töluvert af efni sem er, svo sagt sé hreint út, stolið, og er auðvitað miður að slíkt skuli látið óátalið.

Annar þáttur þessa máls er sá, að töluvert af því efni, hluti þess efnis sem hér er á boðstólum, er ofbeldismyndir og klámmyndir — ofbeldismyndir sem engum manni geta gert gott og sem sumar hverjar eru bannaðar í löndunum hér í kringum okkur. Skemmst er þess að minnast í þessum mánuði þegar einn af blaðamönnum Þjóðviljans — og ég hélt að ég ætti ekki eftir að upptifa það að þakka blaðamanni Þjóðviljans, en hann á vissulega þakkir skilið fyrir það frumkvæði, — hafði upp á kvikmyndinni Cannibal Holocaust, sem hvarvetna erlendis hefur verið gerð upptæk á myndbandaleigum þar sem talið er að þar hafi raunverulegt morð verið framið fyrir framan myndavélina. Þetta mál hefur nú verið kært og gengur sína eðlilegu leið fyrir dómstóla landsins. Þeir sem að þessu stóðu eiga vissulega þakkir skilið. En ég fullyrði að það eru fleiri myndir hér á myndbandaleigum sem bannaðar hafa verið á Norðurlöndum, og kem ég betur að því seinna.

Það er auðvitað óviðunandi ástand að hér skuli starfandi kvikmyndaeftirlit, sem skoðar allar myndir sem sýndar eru í kvikmyndahúsunum, en síðan skuli tugir fyrirtækja, sem leigja út efni á myndböndum sem streymir inn á heimilin í landinu, vera óháðir og undanskildir öllu eftirliti. Það eru sem sagt engar reglur í gildi um það, hvernig með slíkt efni skuli fara. Það er engum takmörkunum háð og þar eru allar gáttir opnar. Og það verður að segjast eins og er, að hæstv. menntmrh. og hans virðulega rn. hafa ekki verið sérlega framsækin eða fljót að taka við sér í þessum efnum.

Ég leyfi mér að flytja hér ásamt hv. 2. þm. Reykn. frv. til l. til breyt. á lögum um vernd barna og ungmenna, en í lögum þessum eru ákvæði um sýningar kvikmynda og kvikmyndaeftirlit. Sú breyting sem við leggjum til að verði gerð á lögunum um vernd barna og ungmenna er í þá veru, að sú stefna verði mörkuð í lögum að ekki megi sýna börnum innan 16 ára kvikmyndir er ætla má að haft geti skaðleg áhrif á sálarlíf þeirra eða siðferði. Í öðru lagi að slá því föstu svo að ekki verði um villst, að kvikmyndir á myndböndum og myndplötum skuli háðar kvikmyndaeftirliti eins og allar aðrar kvikmyndir sem almenningi eru ætlaðar. Og í þriðja lagi að kveða skýrt á um að óheimilt sé að leigja eða sýna börnum innan 16 ára myndefni sem þeim er talið skaðlegt.

Við leggjum til að upphaf VI. kafla laga um vernd barna og ungmenna breytist og verði svohljóðandi, með leyfi forseta — ég les aðeins fyrri hluta þessa kafla laganna, sem breytist:

„Enga kvikmynd má sýna börnum innan 16 ára aldurs, sem ætta má að geti haft skaðleg áhrif á siðferði eða sálarlíf barna eða á annan hátt.

Ráðh. tilnefnir að fengnum tillögum barnaverndarráðs sérstaklega þar til hæfa menn til 5 ára í senn til að annast skoðun kvikmynda, sem sýndar eru í kvikmyndahúsum, og úrskurða um sýningarhæfni kvikmynda, sem seldar eru eða leigðar á myndböndum eða myndplötum.

Skoðunarmenn skulu meta, hvort mynd sé óhæf til sýningar börnum innan 16 ára aldurs eða á tilteknum aldursskeiðum innan þess aldurs, áður en sýningar á henni hefjast fyrir almenning í kvikmyndahúsum eða hún er tekin til sölu eða útleigu á myndböndum eða myndplötum.

Eigendur kvikmyndahúsa skulu kveðja skoðunarmenn til þess að skoða kvikmyndir áður en þeir hyggjast taka þær til sýningar.

Seljendum eða leigjendum kvikmynda á myndböndum eða myndplötum er óheimilt að leigja börnum innan 16 ára aldurs myndefni, sem haft getur skaðleg áhrif á börn samkv. framanskráðu. Jafnframt er óheimilt að selja eða leigja slíkt myndefni til fullorðinna, nema þeir undirriti yfirlýsingu um að þeir ábyrgist að myndefnið verði ekki til sýningar fyrir börn.

Sé myndefni þannig flokkað erlendis, að það teljist þar varhugavert til sýningar börnum eða svo má ætla af öðrum ástæðum, er seljendum eða leigjendum myndbanda og myndplatna skylt að fá fyrir fram úrskurð skoðunarmanna kvikmynda um sýningarhæfni myndefnis gagnvart börnum. Ríkisútvarpið annast skoðun kvikmynda, sem það sjónvarpar.“

Nú gerðist það nokkru eftir að við höfðum flutt þetta frv. til breytinga á lögum um vernd barna og ungmenna að fram kom stjfrv. til laga um bann við ofbeldiskvikmyndum. Það frv. er, að ég hygg, á dagskrá Nd. í dag, hvort sem það kemur þar til umr. eða ekki. Vissulega ber að fagna því, að þetta stjfrv. skuli fram komið. Ég held að þessi tvö frv., sem fjalla um svo skyld efni, ættu nefndir þær sem fá þessi mál til umfjöllunar að fjalla um í sameiningu. Það má vera að frv. ríkisstj. gangi nokkru lengra en frv. okkar 2. þm. Reykn., en hins vegar eru í okkar frv. ýmis fyllri ákvæði að því er varðar vernd barna og ungmenna, þannig að ég held að það væri ekki úr vegi að um þetta væri fjallað af væntanlega allsherjarnefndum beggja deilda í sameiningu. Mergurinn málsins er auðvitað ekki sá, hver flytur málið, heldur að efnisatriði þess nái fram að ganga og það verði tryggt að börn og ungmenni njóti verndar gagnvart þeim ofbeldisóhroða sem veður uppi í þessu þjóðfélagi. Ég mundi því hvetja til þess að um þetta yrði fjallað þannig að bæði málin væru skoðuð í senn.

Ég get þess hér, að í frv. ríkisstj. er sem fskj. listi yfir kvikmyndir sem bannaðar eru í Noregi og Svíþjóð. Ég fullyrði það hér og nú, að þó nokkrar af þessum myndum, sem þar eru bannaðar, eru til leigu hér í höfuðborginni. Ég fullyrði ekki meira hér en ég treysti mér til að standa við og nefni þess vegna aðeins þrjár myndir, sem ég veit með fullri vissu um, að því tilskildu að ekki sé um að ræða aðrar myndir með nákvæmlega sömu nöfnum. Það er í fyrsta lagi myndin Cruising frá 1980, sem hér er á boðstólum. Í öðru lagi kvikmynd frá sama ári, sem heitir því aðlaðandi nafni Terror, ógn. Og í þriðja lagi mynd frá sama ári, sem heitir The Warriors eða stríðsmennirnir. Allar þessar þrjár myndir fullyrði ég að eru hér á boðstólum, og hef raunar grun um að þær séu töluvert fleiri þó að ég treysti mér ekki til að fullyrða um það.

Aðeins til marks um hvert magn af myndum nú stendur almenningi til boða á myndböndum skal þess getið um Myndbandaleigu kvikmyndahúsanna eina, sem hefur margar ágætar myndir og hefur lagt sig fram um að hafa íslenskt efni, þó í allt of litlum mæli sé, á boðstólum líka, að ég sé ekki betur við lauslega samantekt en það fyrirtæki eitt sé með hátt á 5. hundrað kvikmyndir á boðstólum. Þær eru auðvitað misjafnar eins og gengur og gerist. Margt eru þekktar úrvalsmyndir, en sumt er líka rusl sem bannað er á Norðurlöndunum.a.m.k. tvær af þeim myndum sem bannaðar eru og taldar eru upp í fskj. við frv. ríkisstj. eru til leigu á þessari myndbandaleigu og víðar er áreiðanlega að finna slíkt efni.

Nú velta menn því kannske fyrir sér: Hvers vegna er verið að hafa á móti þessu? Hvers vegna er verið að gera hér aths.? Jú, ég held að það sé alveg tvímælalaust að við eigum að vinna gegn því að myndir þar sem ofbeldi er lofað og dásamað skuli eiga greiða leið inn á heimili.

Það hafa margar rannsóknir verið gerðar á áhrifum ofbeldis í sjónvarpi og kvikmyndum á börn og unglinga. Í febrúarhefti bandaríska tímaritsins Reader’s Digest, sem er, þó ekki sé það kannske vísindarit, áreiðanlegt rit a.m.k., er fjallað um þetta í grein og þar eru vægast sagt ýmis atriði sem eru ógnvekjandi. Sagt er frá því þar, að táningur, grunnskólanemi, horfði á leikgerð frægrar morðsögu og réði síðan meginhluta fjölskyldu sinnar bana.

Kvikmyndin Deer Hunter, sem hér hefur verið sýnd, hefur orðið þess valdandi að fleiri en eitt ungmenni hafa leikið þann leik, sem kallaður hefur verið rússnesk rúlletta, að setja eitt skot í marghleypu og snúa síðan skothylkjahólfinu og taka í gikkinn. Fleiri en eitt ungmenni hafa gert það. Sagt er frá 12 ára gamalli stúlku sem tók of stóran skammt af svefnlyfjum vegna þess að foreldrar hennar höfðu bannað henni að gera það sem hún vildi gera. Hún sagði: Ég sá stúlku gera þetta í sjónvarpinu. Henni batnaði og þá tóku foreldrar hennar hana í sátt.

Fyrir 10 árum, eftir töluvert ítarlegar rannsóknir, gaf landlæknisembætti Bandaríkjanna út skýrslu þar sem fram kom að samhengi milli ofbeldis í sjónvarpi og andfélagslegrar hegðunar væri nægilega vel sannað til þess að þegar í stað ætti að grípa til aðgerða. Samt hefur ekkert verið gert. Talið er að ofbeldisverk gerist í bandarísku sjónvarpi a.m.k. sex sinnum á hverri klukkustund á þeim tíma sem flestir horfa. Þeir þættir sem ætlaðir eru börnum um helgar, á sunnudagsmorgnum og laugardagsmorgnum aðallega, eru taldir ennþá verri. Rannsókn sem gerð hefur verið, þar sem rúmlega 100 þús. einstaklingar hafa komið við sögu, bendir eindregið til þess að bein tengsl séu milli þess í hve ríkum mæli menn horfa á ofbeldi í sjónvarpi og þess ofbeldis sem þeir gera sig seka um. Talið er að venjuleg bandarísk fjölskylda eyði um það bil 491/2 klukkustund fyrir framan sjónvarpstækið á viku. Unglingur sem er að brautskrást úr grunnskóla hefur að öllum líkindum eytt tvöfalt meiri tíma fyrir framan sjónvarpstækið heima hjá sér en hann hefur eytt í skólanum. Sá tími sem slíkur unglingur hefur varið til að horfa á sjónvarp er í kringum 10 ár, ef miðað er við 40 stunda vinnuviku, og þá er talið að hann hafi orðið vitni að a.m.k. 150 þús. ofbeldisverkum, þar af sennilega 22 þús. morðum.

Þær kannanir, sem vísindamenn hafa gert á þessu sviði, benda eindregið til þess að ofbeldi í sjónvarpi og kvikmyndum hafi varanleg og alvarleg áhrif í fyrsta lagi. Í öðru lagi er bent á það, að ofbeldiskvikmyndir og þættir í sjónvarpi af slíku tagi losi um hömlur þannig að ef slík hneigð er fyrir hendi hafi slíkir þættir veruleg áhrif til að lækka varnargarðana, til að losa um hömlurnar. Ennfremur er bent á það, að bara það óheyrilega magn sjónvarpsefnis sem unglingar horfa á og þeim stendur til boða hafi afar neikvæð áhrif, — ekki aðeins á hegðan og framkomu, heldur einnig á námsárangur í skóla.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vil aðeins benda á þá hættu, sem ég held að þetta mikla framboð af ofbeldisefni hafi í för með sér, og hve brýn og rík nauðsyn er að stemma stigu við því að rusl og óþverri af þessu tagi eigi greiðan aðgang að börnum og unglingum. Einhver kann að telja að hér sé um einhvers konar ritskoðunartilhneigingar að ræða, en því neita ég alfarið. Þarna er fyrst og fremst um hreinsun að ræða.

Ég minnist þess, að í Svíþjóð var fyrir nokkrum vikum eða mánuðum gert átak til að hreinsa út af markaðinum þetta rusl. Það gerðist fyrst eftir að sjónvarpsmenn höfðu boðið menntmrh. landsins í sjónvarpið og sýnt honum svart á hvítu — eða öllu heldur í eðlilegum litum — sýnishorn af þeim óþverra sem mönnum stóð til boða að fá leigðan. Þá var gripið til ráðstafana. Ég held að þetta sé mjög brýnt, að á þessu verði tekið, og ég fagna því að af hálfu ríkisstj. skuli fram komið frv. sem stefnir í sömu átt.

En ég vil líka á það benda að á þessu máli eru ýmsar fleiri hliðar, eins og t.d. þau sjálfstæðu sjónvarpskerfi sem upp hafa risið og þar sem eftirlit er með ákaflega mismunandi hætti með því efni sem sýnt er. Fyrir utan þau skaðlegu áhrif sem lélegt efni kann að hafa í þessum myndbandakerfum hafa þau því miður líka haft þau áhrif í ýmsum byggðarlögum úti á landi, að þau kvikmyndahús, sem þar hafa verið starfrækt, eru að gefast upp. Það held ég að sé þróun sem er af hinu slæma.

Auðvitað er þetta þáttur stærra máls, en ég held að við þurfum að setja hér niður nefnd, svo sem gert hefur verið víða annars staðar, til þess að fjalla um hvaða stefnu við ætlum að fylgja í þessum málum öllum að því er varðar þessa nýju fjölmiðlunartækni. Það hefur bara ekkert verið um það talað, því miður. Stundum hefur það hvarflað að manni að yfirvöld hér fylgdu sömu stefnu og bandarískir eigendur kvikmyndahúsa gerðu þegar sjónvarpið hófst þar í landi. Þeir vonuðu bara að sjónvarpið mundi fara, þetta væri eitthvað sem hyrfi, þetta væri einhver dægurfluga. En svo einfalt er málið hreint ekki. Þetta er hlutur sem er kominn og þetta er hlutur sem verður. Og við eigum ekki að láta þessa þróun gerast stjórnlaust. Við eigum að hafa stjórn á henni til góðs. Við eigum að hafa áhrif á hvað gerist. Við eigum að nýta kosti þessarar nýju tækni, bæði við fræðslu, kennslu og ekki síður sem dægradvöl og skemmtan. En við eigum ekki að láta þetta vaða yfir okkur stjórnlaust og eftirlitslaust. Það er engum til góðs. Það er öllum til skaða.

Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.