26.01.1983
Efri deild: 32. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

144. mál, vernd barna og ungmenna

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég ætla að segja hér aðeins örfá orð.

Það er rétt, eins og fram kom hjá hæstv. utanrrh., að hér er um mjög þarft mál að ræða — mál sem má ekki vera þögn um. Oft vill það verða svo, þegar góð mál eru á ferðinni og þeim fylgir góð framsaga og menn koma aðalatriði málsins til skila, að mönnum þykir kannske ekki þörf á því að fara mjög náið út í málið að öðru leyti, en vilja gjarnan styðja það engu að síður. Auðvitað er þetta mál í heild víðtækt. Það er miklu víðtækara en svo að það sé í stuttu máli hægt að gera grein fyrir því, enda hefur það þegar verið gert af hv. fyrra flm.

Vídeóæðið, sem gengur yfir og er í raun og veru tilefni þessa frv., hefur auðvitað verið óheillavænlegt og á eftir að hafa ómæld áhrif. Inn í allt það mál blandast vitanlega hin ógeðfelldu gróðasjónarmið, sem hafa orðið þar alls ráðandi og valda auðvitað mestu um að það er gripið til hverra þeirra ráða sem geta verið í þágu þessa alræmda sjónarmiðs, sem öllu á að ráða og maður heyrir stundum að eigi að ráða allri þjóðfélagsgerðinni, þ.e. arðsemissjónarmiðið, gróðasjónarmiðið.

Það þarf auðvitað ekki að fara mörgum orðum um það, hvaða áhrif þær myndir hafa, sem hér hafa verið umræddar, á börn og unglinga. Nóg er samt af alls konar lesmáli og öðru slíku, sem þau hafa tiltölulega greiðan aðgang að og gefur þeim í senn ranga mynd af lífinu annars vegar og er hins vegar með hrikalegar lýsingar af voðaatburðum, ofbeldi og öðru því um líku. Auðvitað eru menn allt of seinir að taka við sér í þessum efnum. Ég hlýt þó að lýsa yfir því, að til viðbótar stuðningi við þetta frv., meginefni þess og markmið, hlýt ég að fagna því að fram er komið stjfrv. um þetta mál. Það er að vísu rétt að það er heldur seint fram komið, miðað við þá þróun sem verið hefur í gangi, og ber vissulega að harma hvað menn hafa verið seinir að taka við sér í þessum efnum.

Sjónvarpið okkar er auðvitað sérkapítuli, og vissulega er það rétt hjá hæstv. utanrrh. Ég veit ekki hvor okkar horfir meira á sjónvarp — kannske ég öllu meira, miðað við þær lýsingar sem hann gaf á sinni sjónvarpsnotkun. En þá sé ég oft á síðkvöldum að gjarnan mætti þar vera um öllu heppilegra efni að ræða og viðkunnanlegra, og stundum kemur fyrir að fram af manni gengur. Ekki eru allir íslensku þættirnir þar til fyrirmyndar. Er þá skemmst að minnast þeirra frægu félagsheimilisþátta, sem manni sýndist fyrst og fremst að ættu að sýna hinn eina sanna landsvísuidjót eða ættu a.m.k. að sýna hvað fólk úti á landi væri yfirleitt framúrskarandi illa gert til allra hluta og aðalmarkmið þess í lífinu væru eitthvað sem snerti klám og brennivín. Það er auðvitað sérkapítali og skal ekki farið út í hér.

En það er auðvitað hörmulegt, að þegar sjónvarpið getur örugglega fengið hæfa menn, hæfa rithöfunda og hæfa menn, til þess að stjórna þáttum af þessu tagi og koma þeim til skila, menningarlegum þáttum, skuli vera farið út í þau ósköp sem t.d. félagsheimilisþættirnir urðu. Ég þykist vita að það hefur aldrei verið markmið útvarpsráðs að svo færi. Ég hef rætt þetta við formann þess ráðs, sem hefur svo sannarlega, að því er hann segir, oft svitnað allhrikalega við það að horfa á þá þætti og jafnvel óskað eftir því að þurfa ekki að bera neina ábyrgð á neinum þeirra, þó að auðvitað væru þeir misjafnir. Þeir voru ekki allir jafnbölvaðir, satt er það.

Ég skal ekki fara mikið út í þetta mál, en því miður verður ekki hjá því komist, af því að um fjölmiðla er talað almennt, að veita því eftirtekt hvað fjölmiðlar okkar, ríkisfjölmiðlar og ég tala nú ekki um dagblöð, eru farnir hreinlega að velta sér upp úr hörmulegum atburðum, hvort sem það eru slys, mannslát, morð eða annað því um líkt. Ég get ekki stillt mig um að koma þessu að hér í framhaldi af þessari umr., því að hér er vægast sagt um óhugnanlegt mál að ræða. Og auðvitað er þessi stefna fjölmiðlanna, og m.a. blaðanna sem velta sér upp úr þessum hörmungum með þessum gífurlega ítarlegu frásögnum, sem eiga að þjóna lesendunum svona vel, að því er þeir segja sem að þessu standa, í þá veru að auðvitað eru það gróðasjónarmiðin ein sem þarna ráða. Það er til þess að blaðið seljist betur. Það munar sennilega töluverðu á því að nefna ósköp venjulega frétt, sem hrópuð er hér úti í Austurstræti, eða ef hægt er að vera með jafnkrassandi upphrópun fyrir blaðinu í dag eins og Morð í gær! eða eitthvað því um líkt.

Ég vildi aðeins taka undir meginmál það sem hér hefur komið fram hjá hv. flm. og áhuga hans á þessu máli. Hann er vissulega lofs verður, enda kemur hann nálægt þessum málum á öðrum vettvangi eða þeim vettvangi, sem kannske er viðkvæmastur, þar sem er sjónvarpsvettvangurinn. Einnig tek ég undir með hæstv. utanrrh. varðandi það, að menn gái sérstaklega að sér varðandi þann ríkisfjölmiðil sem er í stofunni hjá okkur öllum og við nýtum misjafnlega mikið, en þó börn og unglingar kannske allra mest, að við séum þar sérstaklega vel á verði.