26.01.1983
Efri deild: 32. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

144. mál, vernd barna og ungmenna

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég vildi þakka hæstv. utanrrh. og hv. þm. Helga Seljan, 2. þm. Austurl., þær góðu undirtektir sem frá þeim hafa hér heyrst við þetta frv.

Ég hef í rauninni ákaflega litlu við það að bæta sem þegar er komið fram, en vegna þess að hér hefur sjónvarpið verið nokkuð gert að umtalsefni og með hverjum hætti skoðun kvikmynda, sem sýndar eru í sjónvarpi, fer fram, þá vildi ég bara að það kæmi fram að hér er ekki gert ráð fyrir neinni breytingu frá því sem verið hefur. Þetta ákvæði hefur verið svona frá því að íslenskt sjónvarp tók til starfa, að það hefur sjálft annast skoðun kvikmynda og efnis sem þar er sýnt, og ég hygg að þetta sé til samræmis því sem er á Norðurlöndunum annars staðar. En auðvitað má um þetta deila. Fyrst og fremst hygg ég að þetta hafi verið sett til einföldunar. Það er ærið verk fyrir þá sem skipa þetta svokallaða kvikmyndaeftirlit að skoða þær myndir sem sýndar eru hér í kvikmyndahúsunum þótt ekki bættist við nær allt efni sem sýnt er í sjónvarpinu líka, sem er kannske 2–3 klukkustundir á dag. Að vísu má segja að það þyrfti ekki að skoða allt, sem sýnt er, frá upphafi til enda.

En það er auðvitað alveg rétt, að í sjónvarpi er sýnt töluvert af ofbeldi. Oft er það þannig, að það er ofbeldi í þágu hins góða málstaðar, sem er kannske alhættulegast, eins og hæstv. utanrrh. gat hér um. En framhjá þessu er sjálfsagt erfitt að komast. Það ofbeldi, sem sýnt er í sjónvarpsmyndum og sjónvarpsþáttum, er þó kannske ekki endilega sömu gerðar og sá óhroði sem er í þeim ruslmyndum sem hafa ofbeldi, líkamameiðingar, klám og óþverra að innihaldi einu saman, þar sem er nánast ekkert annað. En í sjónvarpi er þess gætt, og það er mjög eindreginn vilji útvarpsráðs og hefur margoft komið fram, hvað varðar myndir sem ekki eru ætlaðar börnum, þar sem talin eru atriði sem ekki eru við hæfi barna, að þess sé sérstaklega og rækilega getið og þær séu seint á dagskrá, þær séu eins seint á dagskrá og mögulegt er. Það hefur oftlega verið gagnrýnt í útvarpsráði þegar bæði föstudag og laugardag eru myndir sem ekki eru við hæfi barna. Það er vond dagskrárgerð. Það hefur líka verið gagnrýnt þegar slíkt efni er snemma kvölds og það hefur líka verið gagnrýnt þegar slíkt efni hefur verið sýnt án þess að við því hafi verið varað. Það hefur því miður komið fyrir, og þó að viðleitni sé uppi af hálfu sjónvarpsins til að slíkt gerist ekki gerast slík óhöpp engu að síður á stundum, sjaldan sem betur fer.

En ég hygg að seint verði ofbeldi upprætt úr dagskrá sjónvarpsins. Ég held að slíkt sé raunar ekki mögulegt, en auðvitað ber að kappkosta að við því sé þá varað, það sé á þeim tíma sem ætla má að börn séu hvað síst að horfa. En þetta er auðvitað mál sem ákaflega erfitt er að komast framhjá. Ofbeldi er ekki eingöngu í myndum sjónvarps og í kvikmyndahúsum. Það er, eins og hér hefur réttilega verið sagt, líka á bókum. Það er kannski ekki hvað síst í þeim bókum sem við metum hvað mest. Þegar talað er um að ofbeldisleikir barna og unglinga nú á dögum eigi sér rætur í sjónvarpi og kvikmyndum er það auðvitað ekki rétt. Það þarf ekki annað en lesa t.d. ævisögu Þórbergs Þórðarsonar, Steinarnir tala, þegar hann var að alast upp í Suðursveit hér upp úr aldamótum. Þar eru mjög glöggar lýsingar á þeim leikjum, sem þar voru leiknir, og voru þar háðar grimmilegar orrustur með dátum og vopnum af ýmsu tagi. Við getum því ekki kennt sjónvarpi og myndum um þetta allt, en vissulega hefur það þúsundfaldað þennan vanda.

Ég tek undir það sem hæstv. forseti þessarar deildar, hv. 2. þm. Austurl., sagði um þá þætti sjónvarpsins sem kallaðir voru „Þættir úr félagsheimili“. Það var léleg dagskrárgerð og misheppnuð, því miður. Þeim peningum var að langmestu leyti á glæ kastað og hefði verið betur varið á annan hátt, að mínum dómi.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri. Ég þakka þær undirtektir, sem þetta mál hefur hlotið, og vona að það eigi ásamt með frv. ríkisstj. efnislega greiðan gang í gegnum þingið. Þótt ég kysi mjög gjarnan að allshn. fjallaði um þetta mál hefur mér verið á það bent að eðlilegra muni að því sé vísað til menntmn.