26.01.1983
Neðri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (1314)

164. mál, sveitarstjórnarlög

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv. til l. sem ég flyt hér um breytingu á sveitarstjórnarlögum er flutt í framhaldi af óskum sveitarstjórna Dyrhólahrepps og Hvammshrepps í Vestur-Skaftafellssýslu, en í þessum sveitarfélögum var samþykkt við almenna atkvgr., sem fram fór 14. nóv. 1982 í báðum hreppunum, að þessir hreppar yrðu sameinaðir í einn hrepp.

Frv. gerir ráð fyrir því að heimilt verði, þrátt fyrir sameiningu þessara tveggja hreppa, að ganga svo frá málum, að eftir sem áður geti sýslunefndarmenn verið tveir frá þessu sameinaða sveitarfélagi, eða eins og það er orðað í 1. gr. frv.: „Þegar ákveðið hefur verið að sameina tvö eða fleiri sveitarfélög getur félmrh. ákveðið að tala sýslunefndarmanna verði sú sama og var fyrir sameininguna, enda óski fráfarandi hreppsnefndir eftir því að svo verði.“

Frv. skýrir sig í rauninni alveg sjálft. Ríkisstj. taldi rétt að verða við þessum eindregnu óskum hreppsnefndanna í Dyrhólahreppi og Hvammshreppi, enda var sú afstaða ríkisstj. í raun og veru ein meginforsenda þess, að fallist var á sameiningu sveitarfélaganna í atkvgr. 14. nóv. s.l.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.