26.01.1983
Neðri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um bann við ofbeldiskvikmyndum. Ég vil geta þess, að þetta frv. er samið í menntmrn., og ég vil einnig nefna það, að ég hef haft til sérstakrar aðstoðar við samningu þessa frv. tvo af skoðunarmönnum kvikmynda, Huldu Valtýsdóttur og Níels Árna Lund æskulýðsfulltrúa. Auk þess hefur mjög komið nærri þessu máli Þorbjörn Broddason dósent og fjölmiðlafræðingur.

Eins og menn sjá er þetta frv. ekki margort eða margar lagagr., það er aðeins fimm greinar, en eigi að síður fjallar það um mikilvægt málefni, og vil ég fara um það nokkrum orðum áður en þessari umr. lýkur og málið fer til nefndar.

Eins og kunnugt er er það mjög farið að tíðkast hér að sýndar eru kvikmyndir í heimahúsum, svokölluð vídeótækni. Með þessari tækni er mjög lítið eftirlit og augljóst mál að til landsins berst á þessum vídeóspólum, vídeósnældum, margs konar efni sem síður en svo virðist vera hæft til þess að sýna t.d. börnum og unglingum. Er mjög mikil nauðsyn á því að hefta að börn og unglingar komist yfir slíkar myndir eða horfi á slíkar myndir, enda eru í gildi almenn lög um kvikmyndaeftirlit, sem kvikmyndahúsaeigendur verða að sæta, en slíku eftirliti er að sjálfsögðu ekki beint gegn kvikmyndahúsaeigendunum, heldur fyrst og fremst gert til að vernda börn og unglinga fyrir skaðlegum áhrifum kvikmynda. Það er alveg greinilegt að nú, með þeirri tækni sem orðin er og þeim þjóðfélagsháttum sem við búum við, er nauðsynlegt að endurskoða þessi mál og koma við öðrum reglum en nú eru í gildi um dreifingu á kvikmyndaefni. Og það er í raun og veru kjarni þessa máls.

Því miður er ekki að finna í núgildandi lögum nein ákvæði sem fær eru um að stemma stigu við dreifingu ofbeldiskvikmynda af því tagi sem hér er einkum um að ræða. Þess vegna tel ég að það sé hin brýnasta nauðsyn að gera ráðstafanir til þess einmitt að stemma stigu fyrir dreifingu þeirra.

Eins og menn vita er í lögum um vernd barna og ungmenna nr. 531 1966 að finna ákvæðin um hlutverk skoðunarmanna kvikmynda. Afskipti þeirra takmarkast við það að ákveða hvort myndir séu við hæfi barna innan 16 ára aldurs, en þeir hafa ekki heimild til að leggja algert bann við sýningu kvikmynda. Þessir skoðunarmenn, eða það sem við köllum Kvikmyndaeftirlit ríkisins í daglegu tali, hafa ekki geta túlkað hlutverk sitt svo, að þeim bæri að fylgjast með því efni sem á boðstólum er t.d. hjá myndbandaleigunum. Þess vegna hefur eftirlit með þeim í rauninni alls ekkert verið.

Þessi mál hafa mjög verið til umræðu í nágrannalöndunum, einkum þó í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi og reyndar í Danmörku líka, en það má kannske segja að í þessum löndum hafi menn nálgast þetta vandamál með nokkuð öðrum hætti en gert er með þessu frv. Í þessu frv. er gert ráð fyrir algeru banni á því sem við köllum ofbeldiskvikmyndir, en t.d. í Svíþjóð og Noregi, þar sem sett hafa verið mjög nýleg lög um þetta efni, er ekki gengið svo langt, heldur er það gert refsivert að dreifa slíkum myndum í hagnaðarskyni og atvinnuskyni. Hins vegar er ekki lagt bann við því að slíkar myndir séu til og finnst í fórum manna, ef sýningarnar eru ekki til þess að græða á fé.

Í Finnlandi er einnig verið að ræða þessi mál einmitt á þessum vetri. Liggur fyrir finnska þinginu nú frv. til breytinga á hegningarlögunum, sem fer í svipaða átt og gerðist í Noregi og Svíþjóð, um að gera það að refsiverðu athæfi að dreifa ofbeldiskvikmyndum í hagnaðarskyni.

Í Danmörku hafa þessi mál einnig verið til umræðu, en þeirri umræðu er tæpast lokið. Þó virðist, eftir þeim umræðum sem orðið hafa og fréttum af því, að þar fari menn sér hægar í þessum efnum en kannske annars staðar á Norðurlöndum.

Þetta eru út af fyrir sig góðar upplýsingar og má vera að mönnum hér finnist að nokkuð langt sé gengið með því frv., sem hér er, að banna þetta algerlega, en ég held að fyrir því séu einmitt margvísleg rök að það sé æskilegt að hafa við þessu algert bann, ef við á annað borð viljum koma í veg fyrir að auðveldur sé aðgangur manna að slíkum myndum og að t.d. börn geti komist yfir myndbandaspólur með þessu efni. Það hefur reyndar komið í ljós við athuganir að slíkt er mögulegt.

Venjulegt sjónvarp á heimilum manna er, eins og fjölmiðlafræðingar hafa gjarnan kallað það, fjölskyldumiðill. Fjölskyldan safnast þar saman og fylgist með því efni sem þar er á boðstólum. Það er að sjálfsögðu talsverð regla á því hvaða efni er sýnt í hinu almenna sjónvarpi. En aftur á móti er það svo um vídeótækin, að þau verða eins konar hópmiðill sem fólk á líkum aldri eða með lík áhugamál safnast utan um og verður sér úti um efni til að sýna í. Það mun hafa talsvert borið á því einmitt, að unglingar rotta sig saman um að sitja við vídeótæki og safna að sér efni, sem er að þeirra dómi æsilegt og spennandi og gaman að sjá, og þá er ekkert efamál að þar slæðist innan um margs konar efni sem börnum og unglingum er síst hollt að sjá og mundi áreiðanlega ekki verða sýnt í kvikmyndahúsum, þar sem kvikmyndahúsin eru háð eftirliti kvikmyndaskoðunarmanna og hafa að sjálfsögðu sína stefnu í því hvað sýna skuli almennt falað. Þess vegna er það, að ég hef talið það vera frambærilega og eðlilega stefnu að miða að því að slíkar myndir verði algerlega bannaðar og að það verði refsivert að hafa slíkar myndir undir höndum. Mér finnst sem sagt rétt að reyna að koma í veg fyrir að þessum hrottalegu ofbeldismyndum sé dreift inn á heimili og börn og unglingar geti með ýmsum hætti orðið sér úti um þetta og hópast saman á einhverjum stöðum til þess að horfa á slíkar myndir.

Kjarni þessa frv. er sem sagt bann við því að framleiða eða flytja inn til landsins og dreifa í landinu og sýna myndir sem við köllum ofbeldismyndir. Og kjarna málsins er að finna í 1. gr. þessa frv. Þar er það skýrgreint hvað „ofbeldiskvikmynd“ er, en það segir í 2. mgr. 1. gr.:

„Ofbeldiskvikmynd“ merkir í lögum þessum kvikmynd, þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar á mönnum og dýrum eða hrottalegar drápsaðferðir. Bannið tekur ekki til kvikmynda þar sem sýning ofbeldis telst eiga rétt á sér vegna upplýsingagildis kvikmyndarinnar eða vegna listræns gildis hennar. Ekki tekur bann heldur til kvikmynda, sem hlotið hafa viðurkenningu skoðunarmanna, sbr. VI. kafla laga nr. 53/1966.“

Þarna er sem sagt verið að skýrgreina hvað „ofbeldiskvikmynd“ er og með þessu er verið að banna myndir sem sýna hrottalegt ofbeldi ofbeldisins vegna, sem eru bæði ólistrænar myndir og viðurstyggilegar í alla staði. Ég held að það þurfi ekkert að vefjast fyrir mönnum við hvað er átt þegar talað er um ofbeldiskvikmyndir. Hins vegar hlýt ég að viðurkenna það og nefna það, að allt kvikmyndabann er mjög vandmeðfarið. Það er ákaflega vandmeðfarið að taka upp „sensur“ í lýðfrjálsu landi eða ritskoðun. Það er mjög vandmeðfarið mál, og á það vil ég leggja mikla áherslu að auðvitað verðum við að fara þar gætilega með. En ég held þó að málið sé ekki svona einfalt. Þrátt fyrir allt hefur það lengi verið viðurkennt að tjáningarfrelsi hefur sín takmörk og ég held að það sé bæði viðurkennt lagalega séð og eins heimspekilega séð að við verðum að gera ráð fyrir að takmörk á tjáningarfrelsi séu fyrir hendi, enda hefur eftir því verið farið. Við höfum í ýmsum tilfellum sett takmörk á tjáningarfrelsi og þá ekki síst hvað varðar birtingu kvikmyndaefnis. Þetta þekkjum við.

En svo að ég ræði aðeins meira um skýrgreiningu á orðinu „ofbeldiskvikmynd“, þá er í frv. sagt að bannið nái ekki til kvikmynda þar sem sýning ofbeldis telst eiga rétt á sér vegna upplýsingagildis kvikmyndarinnar eða vegna listræns gildis. Áður en kvikmyndabanni yrði beitt á grundvelli þessa frv., ef að lögum verður, þarf því að hyggja að tilgangi og listrænu gildi myndarinnar. Þetta ákvæði er auðvitað fyrst og fremst sett til að koma í veg fyrir þröngsýtti og bókstafstrú í beitingu kvikmyndabanns eða túlkun á orðinu „ofbeldiskvikmynd“. Það á ekki að vera hægt að beita þessu banni alveg án íhugunar um tilgang myndarinnar og áhrif myndarinnar. Menn verða sem sagt að hyggja vel að því hver tilgangur myndarinnar er áður en slíku banni verður beitt, ella verður að líta svo á að allt bann af þessu tagi sé algert undantekningaratriði, sem verður að fara varlega með. Tilgangurinn með þessu frv. er því alls ekki að banna spennandi kvikmyndir, sem menn vilja sjá, hvað þá listrænar hrollvekjur í anda Hitchcocks eða slíkra manna, og ekki ameríska „vestra“ almennt talað eða stríðsmyndir og jafnvel slagsmálamyndir eða listrænar kvikmyndir sem byggðar eru á efni úr íslenskum fornsögum. Ekkert af þessu er haft í huga í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir, þannig að þetta frv., eins og ég legg það fram og eins og ég vil túlka það, stefnir ekki að neinni dauðhreinsun á kvikmyndum þó að þær segi frá morðum eða manndrápum eða fjalli að einhverju leyti um hrottaskap af ýmsu tagi. Hins vegar er þessu frv. ætlað að tryggja að mannskemmandi og menningarsnauðar ofbeldismyndir séu ekki tiltækar á Íslandi og þá er það gert í þeim megintilgangi að koma í veg fyrir að börn og unglingar eigi aðgang að slíkum myndum.

Þetta er það sem ég vildi segja um tilgang þessa frv. og hvernig beri að skilja þetta ákvæði um bann við ofbeldiskvikmyndum.

Samkv. 2. gr. frv. eru það skoðunarmenn kvikmynda sem fengju það vald að meta sýningarhæfi kvikmynda að þessu leyti. Það þýðir auðvitað að verksvið Kvikmyndaeftirlitsins hlýtur að stórvaxa, ef þetta frv. verður að lögum. Eins og stendur hefur Kvikmyndaeftirlitið aðeins eftirlit með bíómyndum sem sýna á í venjulegum kvikmyndahúsum. Skoðunarmenn kvikmynda skoða ekki t.d. sjónvarpsmyndir né vídeómyndir sem í gangi eru eins og ég hef áður sagt. Það er líka augljóst, að ef af þessu verður, að skoðunarmenn kvikmynda fá það vald sem hugsað er í þessu frv., yrði kvikmyndaeftirlitið að fá aðgang að öllum kvikmyndum sem hér eru framleiddar eða koma til landsins og ætlað er að dreifa til sýninga í landinu. Þetta getur auðvitað orðið mjög vandasamt mál í framkvæmd og þarf að setja um þetta efni ítarlegar starfsreglur, enda gert ráð fyrir því í frv. að ráðh. setji reglugerð um framkvæmd laga þessara. Ég dreg ekkert úr því að þessi framkvæmd kann að vera vandasöm, en ég sé þó ekki ástæðu til þess að menn láti sér vaxa það í augum. Þetta mál er allt meira og minna vandmeðfarið, en ég viðurkenni að reglugerð um framkvæmdina er mjög mikilvæg og hana þarf að hugsa mjög gaumgæfilega og vel.

Ég skal ekki hafa mörg fleiri orð um þetta í þessari framsögu, herra forseti. Ég vil þó benda á að kvikmyndaeftirlitsmenn, bæði hér á landi og annars staðar, hafa mjög velt þessum málum fyrir sér og þeim vanda sem komið hefur upp í sambandi við þessa nýju kvikmyndatækni eða vídeótæknina. Hér er m.a. að finna fskj. sem er ályktun norrænna kvikmyndaeftirlitsmanna um ofbeldis- og fíkniefnamyndir. Þessi ályktun norrænu kvikmyndaeftirlitsmannanna var samhljóða ályktun sem þeir hugðust flytja á eins konar heimsþingi slíkra manna í London og sýnir þessi ályktun hvaða skoðun kvikmyndaeftirlitsmenn hafa á þessu máli. Þessi ályktun hefur borist mér og rn. einmitt fyrir tilstilli kvikmyndaeftirlitsmannanna; Huldu Valtýsdóttur fyrst og fremst, sem sat þetta þing að ég hygg.

Ég hef greint frá meginefni þessa frv. og ég vænti þess, herra forseti, að þetta mál fái greiða leið í gegnum þingið. Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi geti afgreitt þetta mál, þó að sjálfsagt sé að fjalla ítarlega um það á þinglegan hátt, og legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og menntmn. þegar þessari umr. er lokið.