26.01.1983
Neðri deild: 28. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

98. mál, erfðafjárskattur

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég flyt ásamt sex öðrum þm. Sjálfstfl. öðru sinni frv. til l. um breytingu á lögum um erfðafjárskatt. Ástæðan fyrir flutningi þessa frv. er annars vegar sú, að síðan síðasta breyting var gerð á lögunum árið 1978 hafa allar fjárhæðir breyst mjög, þannig að þær viðmiðunartölur sem í lögunum standa eru nánast út í hött nú vegna verðbólgunnar. Erfðafjárskatturinn er því mun hærri og tilfinnanlegri heldur en gert var ráð fyrir á sínum tíma, þegar lögin voru sett, og alls ekki í samræmi við vilja löggjafans um hversu mikill hluti af arfi skuli renna í ríkissjóð og hversu mikill hluti skuli renna til erfingja. Erfðafjárskatturinn er m.ö.o. miklu þyngri en löggjafinn vildi á sínum tíma.

Nú hefur það verið markmið ríkisstjórna æ síðan þessi lög voru sett að koma verðbólgunni niður í 10–15% á næsta ári, svo að ætla verður að enginn vilji standi til þess að skatturinn þyngist með þessum hætti. Að þessu leyti er frv. ábending til Alþingis um að gera hreint fyrir sínum dyrum og rétta hlut þeirra manna sem þurfa að standa skil á erfðafjárskatti.

Ég vil beina því til fjh.- og viðskn., sem fær þetta frv. til meðferðar, að hún fallist í það minnsta á leiðréttingu á viðmiðunarfjárhæðum erfðaskattsins, þó svo að hún geti ekki fallist á þau nýmæli sem frv. felur í sér að öðru leyti.

Eitt helsta nýmælið í frv. er það að eftirlifandi maki skuli undanþeginn erfðafjárskatti. Ég hef alltaf litið svo á, að það eigi ekki að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð ef annað hjóna missir maka sinn. Ég veit fjölmörg dæmi þess, að eftirlifandi maki hafi átt í erfiðleikum með að standa skil á erfðafjárskatti, enda fellur hann allur í gjalddaga samstundis og ekki hægt að fá neinn frest á því. Ég tel því að hér sé um mjög merkilegt nýmæli að ræða, réttlætismál sem ég vonast til að allir alþm. geti fallist á. Ógæfa fólks á ekki að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð. Ef maður missir maka sinn stendur maður verr að vígi en áður í lífsbaráttunni. Það er undir engum kringumstæðum siðferðilega rétt að ríkissjóður eigi að hagnast á slíku. Þess vegna álít ég nauðsynlegt að þessi breyting nái fram að ganga.

Þá er því slegið föstu í frv. að erfðafjárskattur verði aldrei hærri en 45%, í stað 50% sem nú er, og að öðru leyti er erfðafjárskatturinn lækkaður nokkuð. Hér er ennfremur gert ráð fyrir einu ákveðnu þrepi ef um fyrirframgreiðslu arfs sé að ræða. Er það gert til þess að auðvelda framkvæmd laganna.

Þá er það nýmæli í frv. að ekki skuli greiða erfðafjárskatt af fé, sem hverfur til kirkna, opinberra sjóða, gjafasjóða, félaga, líknar- og menningarstofnana eða annars slíks, en samkv. núgildandi lögum ber að greiða 10% erfðafjárskatt af slíkum gjöfum.

Ég lét á árinu 1980 gera athugun á því hversu mikill erfðafjárskattur hefði innheimst á árinu 1981. Þá nam erfðafjárskatturinn við borgarfógetaembættið í Reykjavík 9 988 450 kr. Erfitt er að meta um hversu háar fjárhæðir er að ræða. Eins og ég sagði áðan þyngist erfðafjárskatturinn jafnt og þétt vegna verðbólgunnar, þar sem viðmiðunarlágmarkið er föst krónutala. Ég skal ekki segja hvað frv. skerðir þessar tekjur mikið núna, en eins og þetta var reiknað út á árinu 1981 var búist við að ef frv. næði fram að ganga mundi það rýra tekjur ríkissjóðs um 20% á því ári. Verðbólgan á s.l. ári var 60–70%. Verðbólgan heldur áfram á þessu ári og þess vegna er við því að búast að tekjutap ríkissjóðs verði nokkru meira en 20% þar sem verðbólguárunum fjölgar. Ég skal ekki meta það, það er svolítið þreytandi að reikna út verðbólgutölur hæstv. ríkisstj. mánaðarlega, en kjarni málsins er sem sagt þessi: Annars vegar er þetta frv. tilraun til þess að vilji Alþingis komi fram, að erfðafjárskatturinn sé ekki þyngri en löggjafinn vill. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í frv. að taka upp nýmæli, sem sumpart eru til einföldunar á erfðafjárlögum og þar sem sumpart er um réttlætis- og sanngirnismál að ræða.

Ég legg til, herra forseti, að málinu sé vísað til fjh.-~og viðskn. og beini því til nefndarinnar, eins og ég sagði áðan, að láta frv. ekki sofna í nefnd öðru sinni. Þetta er einfalt mál og ég tel fyrir því full rök, þar sem um endurflutning málsins er að ræða, að á það reyni hver sé vilji Alþingis í þessum efnum.