27.01.1983
Sameinað þing: 42. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

91. mál, hvalveiðibann

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil strax lýsa yfir stuðningi mínum við þessa till. og vænti þess að Alþingi geti samþykkt hana í tæka tíð, þ.e. ekki síðar en á þriðjudaginn kemur. Ýmis rök hafa hér verið flutt til stuðnings þessu máli. Ég vil taka undir þau og bæta kannske örfáum orðum við.

Ég legg áherslu á það að við megum ekki tapa rétti nú með því að gera ekki neitt. En svo verður frá næstu mánaðamótum, ef Alþingi tekur ekki af skarið, þar sem hæstv. ríkisstj. virðist ekki hafa treyst sér til þess, sem hún þó hefði getað gert. Hér eru vissulega íslenskir hagsmunir í húfi. Mér er alveg ljóst að hagsmunaárekstrar geta orðið, en það er þó alls kostar óvíst. Hér er um að ræða hagsmuni Hvals hf. og fleiri aðila, þeirra sem stunda hrefnuveiðar. Það er um að ræða hagsmuni starfsmanna, sem að þessum veiðum vinna, og það er auðvitað um að ræða hagsmuni þjóðarbúsins sjálfs.

Ég vil aðeins nefna örfáar tölur í þessu sambandi. Framleiðsla Hvals hf. hefur verið um 8 þúsund tonn afurða á ári og hlutdeild í útflutningi sjávarafurða á síðasta ári var 1.54%. Sé söluverðmæti hvalafurða borið saman við útflutning annarra atvinnugreina er um mjög athyglisverðar tölur að ræða. Það er 91% af útflutningi landbúnaðarafurða, það er 136% hærra en útflutningur Kísiliðjunnar og það er 26% hærra en allur útflutningur niðursoðinna vara. Sala Hvals hf. á afurðum nam á árinu 1981 yfir 80 millj. kr. Eins og hér hefur komið fram vinna yfir sumartímann hjá þessu fyrirtæki um eða yfir 230 manns. Atvinnuöryggi þessa hóps skiptir vissulega máli á Íslandi nú. Við höfum ekki efni á því að stofna atvinnuöryggi slíks hóps í hættu. Það er ekki hægt að segja þessum mönnum að fá sér eitthvað annað að gera eins og nú er umhorfs í okkar atvinnulífi.

Því er haldið fram, að útrýming hvalastofnsins sé yfirvofandi, ef ekki verður nú brugðið á það ráð að banna algerlega hvalveiðar. Hv. flm. gerði hér að umræðuefni auglýsingu, sem birtist í dagblöðunum í fyrradag og rakti þær rangfærslur sem þar koma fram. Ég vil aðeins bæta hér við einu atriði. Hér segir með leyfi hæstv. forseta:

„Nú stöndum við andspænis þeim möguleika, að Íslendingar mótmæli tímamótaatkvæðagreiðslu Alþjóðahvalveiðiráðsins. Félagar og stuðningsmenn nokkurra undirritaðra samtaka hafa sent bréf til íslenska sendiráðsins í Bandaríkjunum, svo og til forstjóra Flugleiða, framkvæmdastjóra Iceland Seafood Corporation og framkvæmdastjóra Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Þar er lýst óánægju vegna þess hversu lengi Íslendingar skorast undan þeirri ábyrgð að taka þátt í varðveislu náttúruverðmæta sem eru sameiginleg arfleifð okkar allra.“

Síðan koma hótanirnar þar á eftir. Það er að vísu þakkarverð sú samúð, sem þessir aðilar sýna þeim fyrirtækjum sem þarna eru upptalin, og það er auðvitað vont ef þau lenda í erfiðleikum vegna þess að við veiðum hvali, Íslendingar. En eiga íslensk stjórnvöld að beygja sig fyrir hótunum einhverra aðila úti í heimi, sem segjast hætta að kaupa fiskafurðir ef þetta eða hitt gerist hér hjá okkur? Í þessu sambandi vil ég nefna kafla úr greinargerð áheyrnarfulltrúa FAO á 34. ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins. Hv. flm. gerði hér að umræðuefni hluta af því sem þar kemur fram. Ég vil taka hér upp eina eða tvær setningar til viðbótar. Þar segir með leyfi hæstv. forseta:

„Vísindalega er þekking okkar á hvatastofninum langt frá því að vera fullkomin og talsvert má um það deila hversu miklar veiðar einstakir stofnar þola: Efasemdir þessar gefa þó enga ástæðu til að veiða ekki hóflegan afla úr stofnum sem virðast vera í góðu ástandi.“

Á þetta legg ég áherslu. Ég hlýt að bæta því hér við að veiðar Íslendinga hafa ekki verið gagnrýndar. Þvert á móti hafa þær verið nefndar sem dæmi um hóflega veiði hvalastofnsins.

Herra forseti. Ég þarf ekki að tala hér miklu lengra mál. Meginatriðið er að við mótmælum nú samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um algert bann við hvalveiðum, til þess að glata ekki rétti, eins og ég sagði áðan. Við mat á því hvað hv. alþm. þykir rétt að gera í þessum efnum vil ég taka meira tillit til þeirra sem þekkja þessar veiðar okkar af eigin raun en t.d. einhvers hóps danskra þingmanna eða einhvers hóps manna sem neita að kaupa mat hjá Long John Silver’s í Bandaríkjunum af því að það fyrirtæki kaupir frystan fisk af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sambandinu. Það er umhugsunarefni fyrir alþm. og hæstv. ríkisstj. hver staða okkar verður í ýmsum öðrum efnum ef skoðanamyndun okkar á að byggjast á hótunum erlendis frá af þessu tagi. Að þessu leyti erum við sammála, hv. þm. Stefán Jónsson og ég, þótt hann styðji ekki till. Það verður hins vegar að vera mat okkar hvort minni hagsmunir verði að víkja fyrir hinum meiri ef við stöndum frammi fyrir slíkri spurningu.

Herra forseti. Ég ítreka stuðning minn við þessa till. og vona að málið verði afgreitt hér á hv. Alþingi n.k. þriðjudag og hv. utanrmn. geti lokið umfjöllun sinni um málið í tæka tíð.